9. mars 2016

Plöntur, landakort og einmana sálir

Í handahófskenndu grúski á Borgarbókasafninu rakst ég nýlega á íslenska bók sem vakti forvitni mína og fékk að fljóta með heim. Plantan á ganginum kom út í hittifyrra og er fyrsta bók systranna Elínar Eddu og Elísabetar Rúnar Þorsteinsdætra. Þær systur eru báðar teiknarar og saga þessi varð fyrst til sem vefmyndasaga í nokkrum köflum en kom svo út sem grafísk nóvella. Hér má lesa örlítið um bókina og meðal annars horfa á myndband um tilurð hennar. Ég kom sumsé að bókinni "kaldri" og las hana án þess að vita nokkuð um höfundana eða söguna, og var verulega heilluð. Það kom mér þar af leiðandi mjög á óvart þegar ég fletti upp systrunum og komst að því að þær voru báðar á menntaskólaaldri þegar sagan varð til.

Plantan á ganginum fjallar hins vegar ekki um ungt fólk heldur skyggnumst við inn í reykvískt hús þar sem búa tvær fremur einmana, miðaldra sálir, Geirþrúður og Örvar Þór. Geirþrúður starfar í ræktunarstöð og hvers kyns plöntur eru hennar líf og yndi, Örvar vinnur hjá Póstinum og ástríða hans í lífinu er landafræði heimsins, þótt sjálfur hafi hann aldrei ferðast utan landsteinanna. Hvorugt þeirra er sleipt í félagslegum samskiptum og þau hafa leitað skjóls í áhugamálum sínum. Á baksíðu bókarinnar er eftirminnileg mynd sem lýsir vel aðstæðum Geirþrúðar og Örvars í upphafi bókar, þar sem þau standa í sitt hvorum glugganum, sitt í hvorri íbúðinni, og stara út í loftið. Það sem verður kveikjan að samskiptum þeirra á milli er fágæt planta sem Geirþrúður stillir upp á ganginum í sameigninni og verður Örvari ástæða til að senda passív-agressívt nágrannabréf eins og svo margir kannast við úr fjölbýlishúsum. Geirþrúður hins vegar tekur þann pól í hæðina að svara honum einlæglega og útskýra ástríðu sína fyrir plöntulífi. Upphefjast bréfaskriftir á milli nágrannanna og smám saman myndast tenging sem verður þeim báðum hjartfólgin. Bæði lifa þau lífinu í þröngum ramma og stærsta spurningin er hvort þau megni að koma sér út úr þeim ramma og láta drauma sína rætast.

Aðferðin sem Elín og Elísabet beita er áhugaverð; þær teikna á víxl og hafa að flestu leyti ólíkan stíl og tækni, en það er engu að síður sterk samfella í sögunni þannig að lesandinn flæðir óhindrað gegnum söguna og hættir fljótlega að taka eftir því þegar skipt er um teiknara, eða þannig var því að minnsta kosti farið með mig. Plantan á ganginum hefur ljúfsáran, nærgætinn og verulega sjarmerandi tón, persónurnar eru skemmtilegar og takturinn í frásögninni sannfærandi. Elín og Elísabet nota myndasögumiðilinn á frjóan hátt eins og sést m.a. á uppbyggingu ramma og samspili texta og mynda. Myndheimurinn er úthugsaður og fjölbreyttur. Í stuttu máli sagt kolféll ég fyrir þessari íslensku myndasögu og er ekki frá því að hún sé meðal þess besta sem gert hefur verið í þeim geira hérlendis. Það verður því vægast sagt spennandi að fylgjast með áframhaldandi verkum Elínar og Elísabetar.

Áhugasömum er bent á forkunnarfagra heimasíðu Elínar Eddu og þar kemur meðal annars fram að ný myndasaga, Gombri, er væntanleg á næstu vikum. Ég ætla sannarlega að tryggja mér eintak af henni. Og hér má lesa pistil um íslenska myndasagnagerð eftir Grétu Sigríði Einarsdóttur þar sem meðal annars er rætt við Elísabetu Rún. Plantan á ganginum kom aðeins út í 71 eintaki en hana er sem fyrr segir hægt að finna á Borgarbókasafninu og ég mæli með því að unnendur góðra myndasagna leiti hana uppi þar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli