7. maí 2016

Með óróleika í hjartanu: Viðtal við Sigurbjörgu Friðriksdóttur

hvort sem þú trúir því
eða ekki
þá var það í síðustu viku
að þessi orð komu
í höfuðið á mér

takk pabbi

takk
fyrir
að deyja

þegar þú fórst
opnaðist
farvegur

Þannig hefst fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Friðriksdóttur, Gáttatif, sem kom út hjá Meðgönguljóðum á sumardaginn fyrsta. Sigurbjörg er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtölum Druslubóka og doðranta.

Gáttatif - þetta er góður titill, mjög ljóðrænn og margslunginn, þótt það hafi gengið illa að þýða hann yfir á ensku (Atrial Fibrillation er einhvern veginn ekki jafn þokkafullt). Hvaðan kemur þessi titill?

Orðið gáttatif kom svífandi til mín einn daginn, ég skrifaði það í svörtu skráningabókina mína og hugsaði með mér að hér væri titillinn á ljóðahandritið kominn, fannst orðið flott og lýsandi fyrir taktinn í ljóðheim bókarinnar, ljóðin koma úr öllum áttum og raðast einhvern veginn, svona óreglulega, það fannst mér allavega á þeim tímapunkti.

Það eru ákveðin þemu sem ganga gegnum bókina - dauðinn er víða nálægur, sorg og söknuður, en líka lífið og lífsgleðin. Sérðu bókina fyrir þér sem eina heild eða sem safn stakra ljóða? Eru þetta viðfangsefni sem eru þér hugleikin? 

Upphaflega sá ég bókina fyrir mér sem safn stakra ljóða. En eftir því sem á leið fóru ljóðin að pota í hvert annað. Þegar forsíðumyndin kom þá gerðist eitthvað stórkostlegt, ég fór að heyra ljóðin kallast á og mynda samhljóm. Þetta eru bernskuljóð, og þegar þau voru skrifuð var mikill óróleiki í hjarta mínu, einn daginn sló það af gleði, hinn daginn lamdi það af sorg, þetta hugarástand hefur eflaust haft áhrif. Annars er lífið, dauðinn og allt þar á milli mér hugleikið, ég kem víða við í skrifum mínum.

Hvers konar ljóðum ert þú hrifnust af sjálf? Áttu þér einhver uppáhaldsskáld? Sérðu fyrir þér að þú sért að skrifa inn í einhverja hefð eða einhvern flokk skálda sem þú samsamar þig með, til dæmis á Íslandi? 

Ég er hrifnust af einföldum myndríkum ljóðum um hversdagslega hluti, lífið og tilveruna. Á erfitt með að lesa langar bækur og ljóðabálka, djúpa og flókna, ég þjáist af einbeitingaskorti. Ég treysti mér ekki til að staðsetja mig í einhvern flokk skálda en það væri gaman ef einhver vildi gera það fyrir mig, ég bara skrifa. Ég held að ljóðin mín verði alltaf myndræn og jafnvel knöpp, ég bæði hugsa og sé í myndum. Ég les ekki mikið, en finnst gaman að lesa ljóð, sérstaklega eftir Kristínu Svövu, Þórdísi Gísla, Anton Helga, Ísak Harðar, Óskar Árna, Gyrði og Geirlaug. Og sögurnar hans Jóns Kalmans.

Það er mjög persónulegur tónn í ljóðunum en eins og þú segir eru þau knöpp, þú gætir þín á að ofútskýra ekki. Er það eitthvað sem þú gerir markvisst? Hvað er það sem þér finnst þú græða á þessum knappleika, ef svo má segja, hvað er fengið með því að takmarka orðaflauminn?

Eins og ég sagði þá skrifa ég bara. Það sem ég á við er að það gerist ekki meðvitað, það er bara tilfinningin sem ræður, einskonar flæði sem fer í gang. Ég leyfi textanum síðan að liggja og það er yfirleitt ekki fyrr en nokkru síðar sem að ég dreg fram niðurskurðarhnífinn. Þá hefst annað ferli sem er markvissara og meðvitaðra. Þar á ég það til að ganga svolítið nærri innihaldinu, ég kalla það blóðugan niðurskurð. Eftir slíka meðferð skil ég sjálfa mig eftir með opið sárið en vonandi gef ég lesandanum meira færi á að stilla sér upp í ljóðmyndinni og túlka fyrir sig. Að ljóðið sé knappt og opið gefur lesandanum færi á að grípa það með sér í hraða nútímans.

Ertu búin að vera að yrkja ljóð lengi? Hvernig æxlaðist það að þú ákvaðst að senda inn handrit til Meðgönguljóða? Og hvernig kom það til að það var nákvæmlega þetta handrit sem þú sendir inn?

Ég hef verið að skrifa frá síðustu aldamótum. Þótt ég sé gömul þá er ég ungskáld. Meðgönguljóð komu fram á sjónarsviðið á svipuðum tíma og ég var að ganga frá uppkasti að handriti. Ég fann strax tengingu og löngun til að vera með, heillaðist af hugmyndafræðinni, fannst hún metnaðarfull og falleg. Sem nýgræðingur langaði mig til að vera með í grasrótinni, fá að taka þátt í öllu ferlinu, sauma bækurnar og fylgja þeim úr hlaði, er hægt að biðja um meira? Upphaflega handritið var lengra, ég hafði sent það á Forlagið, fékk höfnun, en góða umsögn og hvatningu. Ég notaði tækifærið, tók afklippur úr því handriti og sendi á Meðgönguljóð. Svarið kom, þau vildu fóstra ljóðin mín, og ég hoppaði af kæti. Þetta ár hefur verið mjög lærdómsríkt og gefandi og ég er óendanlega þakklát fyrir að fá að vera ein af Meðgönguljóðafjölskyldunni, hún lengi lifi!

Hvernig fannst þér svo að fara í gegnum ritstjórnarferlið sem tók við, með ritstjóranum þínum Jóni Kalman Stefánssyni? Hvernig finnst þér bókin hafa breyst í því ferli? 

Ég hafði aldrei unnið með ritstjóra, svo ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast. Jón var ekkert voðalega grimmur miðað við hvað ég hef heyrt um aðra ritstjóra, við glímdum aðeins, en skildum alltaf sátt. Þetta voru mest smávægilegar breytingar og fínpússningar sem gerðu ljóðin enn betri. Samtal okkar og samvinna var lærdómur sem ég mun nýta í skrifum mínum.

Heldurðu áfram að skrifa, stefnirðu á að gefa meira út, og heldurðu þá að þau framtíðarverk verði öðruvísi en þessi bók? Finnst þér þú hafa þroskast eða breyst sem ljóðskáld eftir að þú byrjaðir að vinna að þessu handriti til útgáfu eða sendirðu það inn vegna þess að þú værir búin að „finna þinn stað“? 

Ég er alltaf að skrifa, hef frá mörgu að segja og vil að rödd mín heyrist. Ég stefni því á frekari útgáfu, en ég er ekki viss um að þau verk verði eins persónuleg og þessi bók. Þó ég sé svolítið út og suður finnst mér ég vera að nálgast minn stað. Að verða fullkomlega þroskað ljóðskáld held ég að verði seint, allt er breytingum háð, lífið er í stöðugri þróun og maður hrærist með.

Druslubækur og doðrantar þakka Sigurbjörgu kærlega fyrir viðtalið. Hér birtist að lokum annað ljóð án titils úr nýju bókinni.

hún lá í loftinu
spennan
að takast á við hið óþekkta

eins og þaninn bogastrengur
nálgast hann hjörðina

horfir í augun á kúnni

tekur í gikkinn

snöggur sársauki
vellíðan

riðar til falls

kálfurinn
lítur upp

Engin ummæli:

Skrifa ummæli