31. maí 2016

Nína S. frá Fljótshlíðinni til Park Avenue

Bókin um Nínu Sæmundsson, sem fæddist Jónína Sæmundsdóttir í Fljótshlíðinni árið 1892, er afskaplega fróðleg og skemmtileg og mjög tímabær. Tímabær því þrátt fyrir að hafa séð styttur eftir Nínu verð ég því miður að viðurkenna að ég þekkti ekkert til þessarar merku myndlistarkonu – og hafði ekki einu sinni hugmynd um að hún hefði hannað hina þekktu mynd sem skreytir framhlið Waldorf Astoria hótelsins við Park Avenue í New York og ber nafnið Afrekshugur. Það er skemmtileg tilviljun að bækur um tvær af okkar þekktustu myndlistakonum - nöfnunum Nínu Tryggva og Nínu Sæmundsson komi út á sama ári – en að sama skapi hefðu bækurnar um þær mátt vekja meiri athygli.

Það er langur vegur frá Fljótshlíðinni og að Park Avenue – og var þó mun lengri á fyrri hluta 20. aldar og í raun lygilegt að Nína S. hafi komist alla leiðina – og aftur til baka. Hún fæddist inn í bændasamfélag 19. aldar en varð svo fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. En auðvitað krafðist þetta gríðarlegs viljastyrks og mikilla fórna og sorglega ljóst að gömlu sannindin um að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi áttu að mörgu leyti við um Nínu. Stærstan hluta ævi sinnar bjó hún og starfaði í Bandaríkjunum og í kringum 1930 var hún sennilega þekktasti listamaður Íslands á alþjóðavísu – en þegar hún sneri aftur til föðurlandsins áratugum síðar var svo sannarlega ekki hlaðið undir hana. Það er magnað að lesa um sigra jafnt sem erfiðleika Nínu og hér er líka rifjað upp meira en hálfrar aldar gamalt óupplýst sakamál – þegar höggmynd Nínu, Hafmeyjan, sem var staðsett á Tjörninni í Reykjavík, var sprengd í loft upp á nýársdag árið 1960 og varð það Nínu mikið áfall. Tvær afsteypur voru upphaflega gerðar af verkinu en það var ekki fyrr en árið 2014 sem hinni höggmyndinni var loks komið fyrir á sínum stað.
Hafmeyjan er loksins komin aftur á sinn stað


Bókin um Nínu er skrifuð af Hrafnhildi Schram listfræðingi sem hefur um árabil rannsakað líf hennar og list og greinlegt er að hún þekkir viðfangið vel. Brotið er stórt og stóri hluti bókarinnar er ljósmyndir af verkum listakonunnar enda má segja að bókin freisti þess að feta hinn vandrataða veg milli þess að vera nokkurs konar yfirlit yfir verk Nínu og að vera ævisaga. Sú leið sem Hrafnhildur kýs sér er ekki einföld og ekki gallalaus en þó eru kostir hennar mun fleiri en gallarnir. Ef um hreinræktaða (ef svo má segja) myndlistarbók væri að ræða hefði brotið jafnvel mátt vera stærra – og pappírinn af meiri gæðum – en þá hefði vitaskuld ekki verið pláss fyrir alla söguna – og hún er vægast sagt afskaplega áhugaverð – en að sama skapi þyrstir lesandann í ýtarlegri texta – Hrafnhildur gefur okkur beinagrindina og eitthvað kjöt á beinin – en maður vill meira! Ekki síst af því að Hrafnhildur er góður penni og hún er ansi fær í að tefla fram staðreyndum og tína svo til hitt og þetta sem ekki tengist Nínu beint en bætir svo sannarlega við myndina sem dregin er upp. Hér má nefna lýsingar á bæjarháttum í Fljótshlíð, frásagnir af “the Roaring Twenties” í New York og vangaveltur um stöðu kvenna í listheiminum þá og nú. Ég óskaði þess því stundum að ég væri að lesa „venjulega“ ævisögu – í minna broti og með meiri texta – en á móti komu allar stundirnar þegar textinn rekur tilurð nýs listaverks eftir Nínu og lýsir því gaumgæfilega og þá fletti maður í ofvæni og gladdist þegar glæsileg mynd af téðu verki skreytti næstu síðu. Á stöku stað fannst mér þó að myndir hefðu mátt víkja fyrir texta – á sama hátt og Hrafnhildur fyllir upp í myndina af Nínu með frásögnum af umhverfi hennar og fólkinu í kringum hana þá skreyta bókina oft myndir af fólki sem tengist henni ekki beint. Stundum er þetta vel til fundið – myndir sem gætu hafa verið Nínu innblástur eins og Bedúína konan á bls. 64 sem prýðir blaðsíðuna á móti stórri mynd af Bedúínakonu Nínu frá 1922. Hins vegar fannst mér heil blaðsíða fyrir mynd af norsku skáldkonunni Sigrid Undset – hvurs bækur Nína las og hreifst af – vera kannski full vel í lagt.
Nína mótar hér höfuð kvikmyndastjörnunnar Hedy Lamarr

Hrafnhildur heldur sig við staðreyndir og fer mjög varlega í allar túlkanir og ályktanir eins og hæfir fræðikonu en stundum velti maður fyrir sér hvort heimildir skorti eða hvort bókin forðist vísvitandi að verða of persónuleg umfjöllun um viðfangið. Sérstaklega skorti næstum átakanlega meira um síðustu ár Nínu hér á Íslandi. Í fullkomnum heimi hefðu komið út tvær vandaðar bækur um Nínu – önnur í stóru broti með öllum verkum hennar (sem til eru myndir af) og hin í þægilegu lestrarbroti – löng og skemmtileg ævisaga. Ég geri mér grein fyrir að þetta er til mikils mælst og því þakka ég Crymogeu og Hrafnhildi Schram fyrir afskaplega vel heppnaða málamiðlun sem svo sannarlega vekur áhuga og aðdáun á þessari merku listakonu – Nínu S. Ef einhver er enn að leita að útskriftargjöf þá er Nína S. tilvalin í pakkann!
Móðurást - eitt þekktasta verk Nínu

Engin ummæli:

Skrifa ummæli