22. maí 2016

Tilraun til að komast til meðvitundar: Viðtal við skáldasamsteypuna Skóginn

Brýst út úr líknarbelgnum
á hverjum morgni
stend nakin
og slímug

fer þannig til fundar
við tungumálið til að
rjúfa himnur
blotna í gegn

skjálfandi
gegnsósa og
gagntekin stilli ég
hrifnæmið
í botn

brýst út úr belgnum
til að laumast
skríða
aftur inn.

Síðustu fjögur ljóðskáldaviðtöl hér á druslubókasíðunni hafa verið við skáld sem hafa verið að gefa út bækur á vormánuðum 2016 en nú snúum við aftur til ársins 2015. Ein þeirra ljóðabóka sem kom út á árinu er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún er ekki ort af einu skáldi heldur skáldasamsteypu sjö kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast með MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Þær eru Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir. Ljóðasamsteypa þeirra kallast Skógurinn og vísar þar í bókartitilinn (eða öfugt): Ég erfði dimman skóg.

Sælar, takk fyrir að koma í hópviðtal! Ég erfði dimman skóg er frekar óvenjuleg ljóðabók; það er ekki á hverjum degi sem hópur skálda tekur sig saman um að skapa ljóðverk þar sem ljóðin eru aukinheldur ekki aðgreind eftir höfundi heldur renna saman í eina heild. Hvernig kviknaði þessi hugmynd?

Held að hún hafi kviknað út frá nokkrum neistum. Okkur langaði að vinna saman. Okkur langaði að skrifa. Skrifa um arf og skóg.

Kannski kom hugmyndin að bókinni  verkinu, síðast í þessu ferli, eða allt svo allt svo, akkúrat þessu verki, þegar við sáum að við áttum fullt af textum sem harmóneruðu saman.

Ég man fyrst eftir þessari hugmynd á kaffihúsi. Örugglega KaffiTár þarna í Þjóðminjasafninu. Það var rigning en ekki rok samt. Sem er sjaldgæft. En það er nóg af roki í þessum arfi. Það hlýtur að hafa verið haust. Jú, það var pottþétt haust. Eitthvað skrælnað lauf fannst þarna á botninum með kaffikorginum. Þetta var mjög gamalt lauf.

Titill bókarinnar er fenginn úr ljóðinu Madrigal eftir Tomas Tranströmer, sem birtist í upphafi bókar, og skógurinn er eins konar stef gegnum bókina  auk þess að vera nafn skáldasamsteypunnar. Skógurinn er að öðru leyti ekki fyrsta ljóðræna stefið eða efnið sem manni dettur í hug í íslensku samhengi  með fullri virðingu fyrir Hallormsstaðaskógi. Hvað var það við ljóð Tranströmers og við skóginn sem höfðaði til ykkar? 

Arfur, skógur  rætur, án þeirra verður enginn skógur.

Fyrir mína parta var það ekkert endilega skógurinn sem heillaði  nema bara þessi lína: ég erfði dimman skóg. Háskóli gleymskunnar og skyrtan á þvottasnúrunni er mér ofar í huga. En við byrjuðum að spá í þessum skógi og þessum arfi og úr því spratt þetta nú allt saman.

En við komumst samt bara að því einn daginn að við værum skógur. Við vorum að leita að leiðinni heim. Ef skáldskapur er ekki skógur þá er hann kannski sjór. Ljóðið Madrigal var eitt af því sem sameinaði okkar. Ást okkar á þessu djúpa og tæra ljóði. Þar er sagt svo fallega: „Á sama hátt er einhversstaðar í lífi okkar mikill óupplýstur kærleikur.“  Upphafssetning ljóðsins varð að okkar leiðarstefi, möntru, sannleika  og vísar langt út fyrir persónulegt líf og hefur auðvitað ekki bara með konur að gera heldur heilt mannkyn, um aldir.

Það eru ýmsir þræðir sem liggja gegnum verkið: fæðing, dauði og sorg, arfleifð og kynslóðir, gróður og náttúra. Voru þetta yrkisefni sem stóðu ykkur nærri fyrir eða kviknuðu þau út frá ljóði Tranströmers? Voru þau ykkur sameiginleg eða ortuð þið ykkur meðvitað „í sömu átt“? Var að einhverju leyti erfitt að fella ljóðin ykkar saman í eina heild, efnislega og stíllega, eða gekk það átakalaust fyrir sig? Hvernig var vinnuferlið á bókinni?

Skógurinn og arfurinn voru að einhverju leyti leiðarstef allt frá byrjun  en við hittumst líka og skrifuðum út frá öðrum textum og textabrotum. Svo vatt þetta smám saman upp á sig og á einhverjum tímapunkti lagði einhver til að við settum inn í sameiginlega möppu það sem við höfðum þegar skrifað í þessari samsteypu sem einhvernveginn tengdist þessum stefjum. Hver og ein hafði svo sína nálgun og sínar forsendur fyrir sínum skrifum. Svo hófumst við handa við að hnoða þetta í eina heild  sem tókst svona ljómandi vel, en það var ekki átakalaust.

Ég held að yrkisefnið sé í blóðinu hjá okkur öllum. Það kom á óvart að þrátt fyrir að vera mjög ólíkir skrifarar að þá lá sterkur þráður sem er heill og að við vorum að glíma við sömu hluti í skáldskap. Þegar þú stígur inn í skáldskap þá skilurðu alltaf að hluta til við sjálfan þig. „Ég byrjaði ung að deyja“ mætti einnig túlka sem: ég byrjaði ung að skrifa. Á sama tíma þá tekurðu alla þína þræði með inn í skrifin. Alla forneskjuna.

Það er eitt sem er ekki hluti af ljóði Tranströmers en er áberandi í ykkar verki og það er kvenlegur tónn. Ljóðmælandi er kona, þið skrifið um kynslóðir kvenna, mömmur og ömmur, og kvenlegan arf, hér er líka aldingarður, Paradís, og kona sem verður til úr rifbeini. Var þetta markviss úrvinnsla af ykkar hálfu á ljóði Tranströmers? Hvaða þýðingu hefur það að vera kona í íslenskum bókmenntaheimi eða skáldskap í dag og svo það að vera hluti af skáldasamsteypu skrifandi kvenna? 

Við upplifðum held ég svolítið allar saman að vera „hoknar“ af kvenlegum arfi. Það að vera kona þýðir ekki aðeins það að hafa kvenkyns líffæri, við erfum ákveðna hegðun af samfélaginu og svo líka úr fjölskyldunni. Það að vera skrifandi kona felur svo átómatískt í sér aðrar staðalmyndir.

Það er mjög nærandi að vera í skrifandi samsteypu sem Skógurinn er og deila reynslu sinni á þennan hátt. En hvað það þýðir að vera kona yfir höfuð er stór spurning. Eintómar blæðingar auðvitað. Ég er til dæmis búin að vera á blæðingum í þrjátíu fokking ár. Það líður yfir mann. (Jæja, það má alveg stroka þetta út síðar). (Ef þú strokar þetta út síðar verðurðu komin á breytingaskeiðið, svitakóf og skapsveiflur, ég sakna túrsins, hann er hreinsandi í eðli sínu). (Ég get ekki beðið eftir að komast á breytingaskeiðið  fjandinn hafi það. Það líður yfir mig við tilhugsunina um allt þetta gamla blóð. Eins og segir í ljóði einu: við erum ekki hrein  þau eru skuggar okkar þau eru skuggar okkar.) Skáldkonur eru í gegnum tíðina eins og einhverjar huldumeyjar í íslenskri sögu. Villir hann stillir hann. Þetta hefur jú verið að breytast hægt og bítandi. En spurning okkar í Skógarvinnunni var einmitt hvað það merki fyrir okkur í dag að vera skrifandi kona.

Já, hvað fáum við í arf og hvað sköpum við nýtt og hversu mikið af þessu nýja er þjakað af hinum gamla arfi. Meðvitað eða ómeðvitað. Kannski er Skógurinn tilraun til að komast til meðvitundar.

Það er allt þjakað af arfi. Allt. En við værum heldur ekkert án hans. Minningar í líkamanum. Maður finnur jafnvel í brjóstholi eða hæl eitthvað sem gerðist fyrir 130 árum. Það er magnað.

Mér fannst allar þessar hugleiðingar um arfinn og formæður okkar færa mig nær móður minni og ömmum, fékk mig til að skilja betur stöðu þeirra og þær hindranir sem þær þurftu að kljást við. Maður fyllist þakklæti í garð allra þessara kvenna, fyrir allt sem þær hafa fært okkur, ekki eingöngu hvað varðar réttindi heldur líka öll þekkingin og kunnáttan, frá kynslóð til kynslóðar.

Titillinn á þessu ljóðverki um kvenlegan arf og arfa hefði kannski frekar átt að vera: I got hot sauce in my bag, swag!  En Tranströmer með sínum Madrigal varð mamman, í þetta sinn. Það er fallegt. Hin myrka en tæra ljósmóðir.

Skáldasamsteypan Skógurinn
Hvað er það sem er fengið út úr samstarfi á borð við þetta, hverjir eru kostir þess? Finnst ykkur þið hafa grætt eitthvað persónulega á því sem skáld að prófa það? 

Ótvíræðustu kostirnir eru auðvitað þessi dásamlegi félagsskapur. En svo lærir maður á sjálfan sig í svona samstarfi eins og öllu öðru samstarfi. Lærir að sjá hvað skiptir mann máli, ef svo má segja, líka hvað varðar skáldskapinn.

Já, vinátta og samtal og samvinna. Allt ómetanlegt. Að búa til skáldskap saman er eiginlega transformatísk reynsla. Að fara inn í þennan helli, þennan skóg saman. Mjög heilandi. Ég held það séu svartir skuggar að dansa í þessari bók. Mér finnst ég sjá þá í fjarska. Þeir eru mikilvægir. Þetta er heilunarferli. Eitthvað purgatorium.

Svona ferðalag eins og allt skapandi ferli er á einhvern hátt óvissuferð. Það var gefandi og lærdómsríkt að vera með ferðafélaga sem stundum gerði ferðina auðveldari en líka stundum flóknari.

Þið eigið það sameiginlegt að hafa allar verið meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands. Hvaða gildi finnst ykkur ritlistarnámið hafa  hvað varðar til dæmis kunnáttu og tækni, innblástur og félagsskap fyrir ykkur persónulega en líka í stærra samhengi fyrir íslenskan bókmennta- og ljóðaheim?

Það mætti líta á ritlistarnámið sem jarðveg fyrir hríslur, tré og skóg. Bókin hefði aldrei orðið til ef við hefðum ekki verið í náminu á sama tíma. Ætli slagkrafturinn sem kom inn í íslenskar bókmenntir með þessu námi hafi breytt bókmenntasögunni? Hvert sem svarið er við því þá er námið mikilvægt því það gefur rými til að stinga upp jarðveg og planta fræjum.

Ég lærði það í ritlistinni að það er ekki auðvelt að kenna ritlist en það er hægt að læra hana og tíminn í náminu var ákaflega lærdómsríkur. Og maður er eiginlega enn að draga lærdóm af þessum tíma. Þau voru fjölær fræin sem þarna var sáð.

Heldur samsteypan Skógurinn svo áfram að skrifa og gefa út eða var þetta einnar bókar framtak? 

Skógurinn lifir.
Skógurinn er eilífur, skógurinn er lífið.

Skógurinn lifir; við þökkum þeim innilega fyrir viðtalið og ljúkum því á öðru nafnlausu ljóði úr bókinni Ég erfði dimman skóg.

Allir sem búa við sjó vita að maður stingur sér ekki til
sunds með fullan maga.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði net, ég erfði bát, erfði fát. Ég erfði árar, erfði
ára. Ég erfði stígvél og galla, ég erfði ausu og öngul.
Erfði dall. Erfði kvóta. Ég erfði hyldýpi og ótta.

Allir sem búa við sjó vita að maður kveikir ekki í
sígarettu með kertaloga.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði ógn, ég erfði hræðslu, erfði ugg. Ég erfði
innræti, erfði læti. Ég erfði kuta og kompás með
fastsettri stefnu. Ég erfði flóð og fjöru, talíu og spotta.

Allir sem búa við sjó vita að hænur eru sólgnar í þara.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði söl, ég erfði þang, erfði hungur. Ég erfði
krækling, salt og sand. Ég erfði krabba og fló. Egg,
fjaðrir, bringu og silkibleika húfu. Ég erfði matarkistu
sem ég get ekki opnað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli