10. júní 2016

Ofbeldi á Fimmtu árstíðinni



Nú nýverið kom út hjá Uglu sænski reyfarinn Fimmta árstíðin eftir Mons Kallentoft – enda sumarið handan við hornið og þá fara líkin (þau prentuðu) jafnan að hlaðast upp. Fimmta árstíðin er fimmta bókin í flokknum um Malin Fors og félaga hennar á lögreglustöðinni í Linköping og ég hef lesið allar hinar - sem hverfast einmitt um árstíðirnar fjórar – Þorgerður skrifar um Vetrarblóð hér. Mér finnst Mons svolítið búinn að mála sig út í horn með tema og nafnið Fimmta árstíðin gengur ekki fullkomlega upp en samkvæmt bókinni vísar það (m.a.) til þess tímabils þegar sumarið er næstum komið en samt verður kalt og rignir og fólk veit ekki hvernig það á að klæða sig...nú veit ég ekki hvernig þetta er í Svíþjóð en hér á Íslandi heitir þetta bara vor. Nánari rannsókn á veraldarvefnum leiðir svo í ljós að Mons hefur guggnað á sjöttu árstíðinni og í næstu þremur bókum um Malin er kominn nýr vinkill en þær heita eftir frumefnunum fornu: Vattenänglar, Vindsjälar og Jordstorm – sem myndi útleggjast (í klunnalegri þýðingu minni) sem Vatnaenglar, Vindsálir og Jarðstormur.


Matreiðslubókin hans Mons
Það er dálítið um liðið síðan ég las hinar bækurnar eftir Mons en þó minnir mig að ég hafi verið nokkuð hrifin af þeim – en það er ekki bara titillinn sem mér finnst sístur við þessa bók. Hér er Malin Fors hætt að drekka (sem er í sjálfu sér ágæt tilbreyting) en berst við innri djöfla og eigin sjálfseyðingarhvöt hægri vinstri. Hún á í baráttu við ofbeldisfullan glæpamann sem misþyrmir konum og ofbeldi gegn konum er leynt og ljóst tema bókarinnar. Ungar konur finnast í skógum – sumar á lífi, aðrar látnar, öllum hefur þeim verið misþyrmt svo hroðalega að orð fá vart lýst því (þó bókin noti raunar margar blaðsíður til þess) og þær sem enn eru á lífi eru sturlaðar og geta engar upplýsingar gefið um árásarmanninn eða mennina. Malin og félagar hennar á lögreglustöðinni kalla ekki allt ömmu sína og trúa greinilega á að reka út illt með illu því alltaf þegar þau eru strand í rannsókninni (sem er ansi oft) – fá þau þann harðsvíraðasta úr deildinni til að beita þá grunuðu „þrýstingi“ – og þannig leysa þau að lokum gátuna. Það kemur síðan fram að ofbeldisfulli lögreglumaðurinn á sjálfur sögu um ofbeldi í æsku, faðir hans misþyrmdi móður hans, svo þar gæti maður haldið að hér væri verið að leggja upp í áhugaverða rannsókn á dómínóáhrifum ofbeldis – en þetta flæðir svo bara út í sandinn – og allir hinir í lögregluteyminu eru sáttir við aðferðir hans (þótt þau vilji kannski ekki heyra af þeim í smáatriðum) svo maður spyr sig hvað megi lesa út úr því? Mögulega er þetta hárbeitt ádeila á normalíseringu ofbeldis og afskiptaleysi okkar allra þegar kemur að því að stöðva ofbeldið – en ég verð að segja að þrátt fyrir góðan vilja tókst mér ekki að lesa neitt slíkt úr textanum. Hér er nefnilega ekki vaðið áfram í blindu, allir eru meðvitaðir um ofbeldið, meðvitaðir um að dansa á línunni – en samt fullvissir um að þeir séu „réttu megin við línuna“ og í hópi hinna „góðu“.

En kannski gefur þetta ofbeldi raunsanna mynd af vinnuaðferðum lögreglunnar, kannski er vonlaust að ætla að sigra viðbjóðslega glæpamenn án þess að stíga yfir línuna og gangast þeim að einhverju leyti á hönd – kannski er það bara Miss Marple sem getur leyst gátur án þess að óhreinka hendur sínar – hvað veit ég! En sem bókmenntaunnandi get ég þó alla vega fullyrt að mér finnst allt það yfirgengilega ofbeldi sem flæðir yfir síður Fimmtu árstíðarinnar endurtekningasamt og leiðigjarnt og þar með þarf frekari réttlætingu á tilvist þess. Ekki bara lesum við lýsingar réttarlæknis og lögreglumanna á limlestingunum heldur fáum við reglulega sjónarhorn myrtu/sturluðu fórnarlambanna sem eru eins konar ljóðrænútgáfa af pyntingunum:

„og glóandi járni er stungið inn í brjóstið á mér og ég reyni að æpa. Finn lyktina, lyktina af eigin holdi sem brennur og verður að svart[r]i ösku og mig svíður, ég brenn og gufa upp, vil gufa upp en svo hættir hann, því þetta hlýtur að vera karlmaður? Svo finn ég kuldann, brennandi kuldann, og lurkur lendir á öxlunum á mér og þyrnar rífa holdið innan á lærunum á mér, rósaþyrnar, og volgt nýtt blóð flæðir úr mér og hlekkir eru á handleggjunum, er það ekki? […] gráðugar þúsundfætlur skríða inn í mig, éta mig, bora eitruðu göddunum djúpt inn í mig og éta sárin á mér svo grafa fer í þeim og hendurnar líða yfir fætur mína sem húðin hefur verið fláð af.“(bls. 171-172)

Þótt skýring finnist í fortíð ofbeldisfulla lögreglumannins finnst engin slík í bakgrunni glæpamannins (ég er ekki að ljóstra neinu upp með því að tala um karlmann – í bókinni er endalaust hamrað á illsku þeirra) – hann ítrekar það sjálfur í innri ræðu og fórnarlömb hans sömuleiðis:

„Hvers vegna gerir hann það? Ég veit nú að það er tilgangslaust að spyrja þessarar spurningar. Engin skýring er á illsku hans. Hún þarfnast engrar skýringar. Hún er jafn sjálfsögð og andardráttur. Hún er þarna og er sjálfri sér nóg, aðeins sálfræðingar og hinir trúuðu þurfa skýringu á illskunni.“ (bls. 331)

Og aðeins ein lausn er til á þessari illsku og henni hamra fórnarlömbin (lífs sem liðin) á:

„Þú verður að tortíma honum, manninum sem hefur svívirt svo margar konur. 
Skjóttu hann, Malin. 
Lokaðu krókódílskjaftinum á honum. 
Dreptu hann. 
Skerðu hann burt af líkama mennskunnar. 
Skerðu höfuðið af honum. 
Brenndu hann og grafðu leifarnar af honum úti í náttúrunni og láttu ormana og þúsundfætlurnar og flugurnar éta hann. 
Færðu okkur réttvísi. 
Færðu okkur hefnd. 
Færðu okkur ró.“ (bls. 448)

Eins og naskir lesendur hafa tekið eftir er síðasta tilvitnun af blaðsíðu 448 en bókin er einmitt 462 blaðsíður sem hefði að ósekju mátt skera aðeins niður – sérstaklega í ljóðrænu, skáletruðu tilvitnunum eins og þeirri hér að ofan. Þá er sífellt ítrekað að það sé „lostinn“ sem reki glæpamanninn og aðra ofbeldismenn áfram en ég set spurningamerki við það orð – finnst að það hljóti að vera dálítil einföldun – en nú veit ég ekki hvaða orð var notað í frumtextanum, kannski hafði það öðruvísi eða víðtækari merkingu en á íslenskunni. Að öðru leyti finnst mér þýðingin ágætlega heppnuð en það er Jón Þ. Þór sem á heiðurinn af henni. En burt séð frá endurtekningakenndu, ljóðrænu ofbeldi – er þetta spennandi bók? Já,já - hún heldur manni ágætlega við efnið og eftir að ég fór að hraðlesa ofbeldislýsingarnar rann hún vel í gegn. Annars sá ég að Mons hefur líka gefið út nokkrar matreiðslubækur – og meira að segja fengið Gourmand World Cookbook verðlaunin árið 2005 – svo mögulega verður næsta bókin sem ég glugga í eftir hann um eldamennsku – þá er ég í öllu falli loksins til í langlokur um úrbeiningu og meðferð kjöts.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli