11. ágúst 2017

Meiri glæpi - minni ást!


Sumri hallar því miður, sest er sól en sumarið hefur að vanda verið tími glæpa og ofbeldis þegar kemur að bókalestri. Rebus og Jimmy Perez fylgdu mér úr hlaði í vor og nú hefur Nóra Sand tekið við en hún er (eins og Perez) á framfæri Bókaútgáfunnar Uglu. 

Nóru er að finna í Stúlkunum á Englandsferjunni, sem er ekki beinlínis frumraun dönsku skáldkonunnar Lone Theils á ritvellinum en vissulega hennar fyrsta bók. Áður starfaði hún sem fréttaritari Berlinske Tiderne og Politiken í London í fjölda ára. Bakgrunn sinn í blaðamennskunni nýtir Theils prýðisvel í bókinni en aðalsöguhetjan, Nóra, er einmitt fréttaritari fyrir skáldaða tímaritið Globalt. Eins og Theils starfaði Nóra m.a. í Kosovo og Norður Írlandi og sakamálið sem Nóra reynir að leysa byggir á sönnum atburðum en þar með lýkur sem betur fer samanburðinum enda lendir Nóra í ansi kröppum dansi.

Sagan hefst á því að Nóra fjárfestir í gamalli tösku sem hún finnur í antíksölu í smábæ í Englandi. Í töskunni finnast svo ljósmyndir af stúlkum, þar á meðal tveimur stúlkum sem hurfu á ferju frá Danmerkur til Englands fyrir áratugum. Forvitni Nóru er vakinn og nánari athugun leiðir í ljós tengsl milli töskunnar og sérlega óhugnanlegs bresks fjöldamorðingja sem situr í lífstíðarfangelsi fyrir morð á ungum konum. 

Það er enginn byrjandabragur á bókinni og margt lukkast vel - Theils kann að búa til prýðisgóða fléttu, býr til ágætar persónur og tekst sérlega vel upp í sannfærandi lýsingum á stöðum og stemningum í Englandi - sem og starfi blaðamannsins. 

Annað er síðra - textinn flæðir misvel og á köflum er höfundurinn alveg að missa sig í samlíkingum sem geta vissulega verið skemmtilegar en eru þó (eins og margt stílbragðið) tvíeggja sverð 

Hinn sataníska fjöldamorðingja sögunnar hef ég oft rekist á áður (margir munu kannast við hann úr þáttunum Glæpahneigð sem RÚV hefur sýnt lengi en þar er að finna dágott safn siðblindra, al-vondra morðingja sem geta gjarnan kennt kaldlyndri móður um alla sína illsku) - en ýmsar aðrar aukapersónur eru skemmtilega dregnar, af alúð og húmor, gömul kona á elliheimili, vörður í fangelsi, eigandi gistihúss og fleiri gæða söguna lífi og merkingu. 

Theils skrifar líka ástarsögu inn í reyfarann sem undirritaðri finnst afskaplega sjaldan lukkast vel. Vitaskuld er þetta smekksatriði en þegar ástarsaga sem endar vel er komin inn í harðsoðna reyfarann hættir scandinavian noir að vera scandinavian noir og verður meira Nora Roberts (með fullri virðingu fyrir henni). Hér tek ég fram að ég er ekki að eyðileggja spennuna fyrir neinum - það er öllum ljóst frá fyrstu síðu að Nóra og Andreas (hinn fjallmyndarlegi, ljóshærði æskuvinur hennar) munu ná saman - öllum nema Nóru auðvitað. Helsti löstur sögunnar hlýtur að vera gegndarlaus blinda Nóru á samband þeirra Andreasar - raunar er lygilegt að höfundur sem getur búið svona ljómandi fínt plott og látið skjólstæðing sinn mæta hverri hindruninni á fætur annarri detti ekkert annað í hug til að seinka samruna elskendanna annað en að Nóra einfaldlega leyfi Andreasi aldrei að klára ástarjátningu sína! Aftur og aftur ná þau næstum saman og aftur og aftur rýkur Nóra burt eða skellir á aumingja manninn - allt á þeim forsendum að hún hafi þegar tapað honum til annarrar konu - það sé orðið of seint! Það að hún hafi aldrei samband við hann að fyrra bragði en sé að jafnaði með sjö ósvöruð símtöl frá honum þegar hún lítur upp frá leit sinni að fjöldamorðingjanum er henni enginn vísbending. Manni finnst að höfundurinn hefði nú getað gefið aumingja parinu eitthvað bitastæðara að vinna með í þessar tæpu fjögurhundruð síður - en nei - það er gargandi augljóst frá fyrstu stundu að þau eru sköpuð fyrir hvort annað og engin vandamál standa í veginum önnur en að hún leyfir honum aldrei að klára setninguna. Þrátt fyrir þann hamingjusama endi sem skötuhjúin fá grunar mig þó að blikur séu á lofti í sambandi þeirra þar sem þetta er fyrsta bókin af fjórum um Nóru Sand. 

Theils er sum sé ekki stílisti - og ég á eiginlega dálítið erfitt að meta þýðingu Þórdísar Bachmann vegna þess - maður hnýtur um setningar sem eru hálf klúðurslegar - en svo eru aftur setningar sem hreinlega eru óþarfar og þýðandi getur kannski ekki gert mikið í því…ég vil ógjarnan hengja bakara fyrir smið og bíð því með nokkurn dóm um þýðinguna þar til ég hef gluggað í frumútgáfuna eða lesið næstu bók um Nóru - samkvæmt viðtali sem þýðandi tekur við höfund og má lesa hér er Theils nýbúin að skila af sér þriðja handritinu og ef Ugla gefur þær út er ég meira en tilbúin til að lesa þær - Stúlkurnar á Englandsferjunni er spennandi, vel plottuð og skemmtileg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli