30. október 2018

Prjónað meðfram jólabókaflóðinu

Nú er jólabókaflóðið skollið á og mig svimar af hamingju yfir öllum yndislestrinum sem fram undan er. En eitthvað verður kona að hafa fyrir stafni þau kvöld sem hún dettur í sjónvarpsgláp, þær stundir sem hún situr barnlaus í strætó, meðan hún hlustar á hljóðbækur og já – mér detta svo sem ekki í hug fleiri staðir og stundir þar sem ég gæti með góðu móti prjónað – en það geta vonandi aðrir - til dæmis má prjóna jólagjafir! Fyrir tæpu ári síðan áskotnaðist mér dásamleg dönsk bók sem heitir Kærlighed paa pinde – hér er engin erótík í spilunum heldur er þetta bók um prjónaskap. Það sem meira er – þetta er bók eftir einn uppáhalds prjónahönnuðinn minn –  Lene Holme Samsöe (hér eftir nefnd LHS). 

LHS alltaf með eitthvað á prjónunum
Þegar ég varð ófrísk að (nú tveggja ára) dóttur minni datt ég ekki beint í hreiðurgerð en ég fór að prjóna meira eftir uppskriftum – og þá sérstaklega ungbarnaföt. Ég gramsaði mikið á pintrest og aftur og aftur kom ég að myndum af fötum sem LHS hafði hannað. Það var því miður sjaldnast hægt að kaupa þessar uppskriftir á netinu svo ég endaði með að panta mér lítið hefti frá dönsku forlagi og láta senda mér það til Íslands – þetta var dálítið vesen og kostaði heil ósköp en ég varð stoltur eigandi Babystrik paa pinde 3(sem reyndar verður Babystrik paa pinde 2 í mínum höndum af því ég prjóna svo brjálæðislega laust að ég neyðist til að nota minni prjóna en uppskriftir segja til um) og prjónaði uppúr því peysu, teppi og buxur á barnið – peysan passar ótrúlegt nokk ennþá á barnið!
Ég varð því heldur en ekki lukkuleg þegar ég sá hina stóru og fallegu bók Kærlighed paa pinde eftir LHS til sölu í garnversluninni Ömmu mús og kættist enn meira þegar mér var svo gefin hún. Nú ári síðar kemur í ljós að það eru fleiri en ég sem hafa áttað sig á snilli LHS því nú hefur Forlagið tekið sig til og þýtt og gefið út þessa fögru bók og heitir hún í þýðingu Guðrúnar Thors og Ásdísar Sigurgestsdóttur, Prjónað af ást. Uppskriftirnar eru – eins og á frummálinu – skiljanlegar og skýrar og alveg sérlega fallegar. LHS prjónar flíkur í klassískum eftirstríðsárastíl, stuttbuxur, gollur, kápur, smekkbuxur og alls konar húfur. Hún notar retró liti, antík bleikan, dumbrauðan, okkurgulan og fallega bláa og brúna tóna, hún blandar sjaldnast litum saman í sömu flík – en gerir í staðinn mjög falleg mynstur í grunnlitinn. Stærðirnar eru frá fæðingu og uppí átta til tíu ára – en ef kona prjónar jafn laust og ég geta uppskriftirnar dugað jafnvel enn lengur fram eftir aldri! Bókin er líka afar ríkulega myndskreytt – og eins og þegar kemur að matreiðslubókum þá eru fallegar myndir það sem hittir mig í hjartastað – ég er eins og lauf í vindi þegar kemur að litlum rauðhærðum stúlkum sem standa í prjónakápu á haustlegu engi með rjóðar kinnar og vindinn í fangið. Lítill drengur sem situr á girðingu í stuttum prjónabuxum með (prjónaðan) sixpensara fær mig til að andvarpa og leita í huganum að litlum dreng sem ég gæti prjónað þetta á (tæplega sjö ára fótbolta sonur minn er því miður dottinn úr markhópnum fyrir þennan skandinavíska Emil í Kattholti draum).

„litla barnið" sem dóttir mín elskar
Ef þið hafið gaman af að prjóna á börn – þá mæli ég með þessari bók – ef þið hafið gaman af fallegum myndum af börnum í skandinavískri náttúru þá getið þið alveg splæst í hana líka! Tveggja ára dóttir mín er svo heilluð af þessum myndum að hún dröslar bókinni (sem er frekar stór) reglulega til mín og biður um að fá að skoða myndir af „litla barni“ – og ég skil hana vel – því litlu börnin sem liggja sofandi í ægifögrum prjónuðum værðarvoðum eru hrikalega sæt – sem og þau sem eru vakandi og gægjast á okkur undan dásamlegum litlum kollhúfum. 

1 ummæli:


  1. Þrefalt húrra fyrir þér að skrifa um prjónabók.

    SvaraEyða