26. desember 2008

Pollýanna – úlfur í sauðagæru?

Í jólabókaflóðinu nú í haust skaut upp kollinum gömul vinkona, Pollýanna, sem á vissulega sinn stað í barnabókahillunni á heimilinu en hefur ekki verið tekin fram ansi lengi. Ég fagnaði því að sjá hana aftur mætta brosandi (en ekki hvað) til leiks. Ekki hafði hvarflað að mér annað en allir aðrir væru sama sinnis. Þótt barnabækur eldist misvel þá fannst mér Pollýanna vera sérstaklega saklaus og falleg barnabók – hvað er hægt að hafa á móti brjálæðislega jákvæðri stúlku?

Heilmargt kemur í ljós. Vinkona mín og samstarfskona til margra ára saup hveljur af skelfingu þegar hún rak augun í glaðlegt andlit Pollýönnu í bókaverslunum. Sem barn hafði hún hatast við bókina og hafði síður en svo tekið hana í sátt eftir því sem árin liðu. Hún benti mér á hversu hroðaleg fyrirmynd stúlkan hefði verið fyrir konur í gegnum árin – alveg sama hversu leiðinlegt fólk var við hana eða hversu illa örlögin léku hana – alltaf tók hún öllu með brosi á vör. Steininn tók svo úr þegar hún fékk ljóta hækju í jólagjöf og tókst að gera gott úr því! Ef allar konur væru jafn umburðalyndar og ljúfar og Pollýanna væru engin Stígamót – ekkert Kvennaathvarf, það væri engin þörf á því þar sem allar konurnar sætu brosandi heima undir barsmíðunum. Kvenfyrirmyndir eins og Pollýanna hafa verið notaðar til að bæla konur gegnum alla mannkynssöguna og því fór fjarri að vinkona mín ætlaði að fagna því að hún væri mætt enn og aftur.

Mig setti nú bara hljóða en sá mér ekki annað fært en lesa bókina aftur. Pollýanna er sum sé ellefu ára munaðarlaus stúlka sem fer í fóstur til ríkrar móðursystur sinnar sem er ógift (lesist einmana, bitur og kaldlynd). Bókin segir svo frá uppvexti Pollýönnu og hvernig hún tekst á við erfiðleika lífsins með „leikinn“ að vopni. Leikurinn felst í þeirri afstöðu til lífsins að finna eitthvað jákvætt við allt og þá meina ég ALLT. Með viðhorfi sínu og barnslegu sakleysi tekst Pollýönnu að bræða frosin hjörtu og dreifa hamingju allt um kring. Það er því um að gera að leggja alla kaldhæðni á hilluna áður en lestur hefst.

Höfundurinn, Eleanor H. Porter (1868-1920) var þekkt söngkona áður en hún gifti sig en tók síðar til við að skrifa barnabækur, flestar um munaðarlaus börn eins og var sérlega vinsælt á þessum árum. Það er þó hin síglaða Pollýanna (1913) sem hefur haldið nafni hennar á lofti í hartnær hundrað ár og þættir og kvikmyndir hafa verið gerðar eftir bókinni. Orðið Pollýanna hefur síast inn í tungumálið og skv. orðabók Oxford þýðir „Pollýanna“ manneskja sem er alltaf glöð og bjartsýn.

Árið 1915 birtist svo framhaldsbókin Pollyanna Grows Up. Þar flytur hún til stórborgarinnar og Mrs. Porter til varnar á Pollýanna víst erfitt með að leika „leikinn“ þegar hún sér hin skelfilegu áhrif kreppunnar (það hefði kannski verið ráð að endurútgefa þá bók nú um jólin...).

Eftir lesturinn varð ég að viðurkenna að vinkona mín hafði vissulega sitthvað til síns máls en bókinni og Pollýönnu var þó ekki alls varnað. Fyrir það fyrsta má í raun teljast kraftaverk að bók um stúlku sem er jafn jákvæð og Pollýanna sé ekki óbærilega leiðinleg – sem hún er ekki (þótt augum hafi verið ranghvolft meira við lestur nú en fyrir 20 árum). En því er ekki að neita að Pollýönnu tekst á ótrúlegan hátt að breyta fólki og fá það til að bæta ráð sitt bara með því að vera góð og glöð og það er kannski dálítið hæpið veganesti út í lífið fyrir litlar stúlkur. Á móti kemur að hún er sinnar gæfu smiður og kann að njóta lífsins og finna gleðina í litlu hlutunum sem er ekki amalegt – sérstaklega ekki á þessum síðustu og verstu. Pollýanna er barn síns tíma og ekki hægt að lesa hana gagnrýnilaust – enda er það kannski ekki endilega kappsmál. Góðar bækur þroska mann og fá mann til að spyrja spurninga á hvaða aldri sem maður er.

Niðurstaðan er sem sagt engin en það var hollt og gott að hitta aftur gamla félaga eins og Pollýönnu og endurmeta aðeins hvað hún sagði manni. Ég skil vel vinkonu mína sem fórnaði höndum yfir endurkomu hennar en sjálf var ég ekki alveg tilbúin að afskrifa hana...sá alveg ljósu punktana í bókinni...auðvitað – eitthvað af lífsspeki Pollýönnu hefur greinilega síast inn í viðkvæma barnssálina!

Nú er bara að grafa fram Önnu í Grænuhlíð, Rebekku í Sunnuhlíð og Yngismeyjar!

2 ummæli:

  1. Anna í Grænuhlíð var önnur uppáhaldsbóka minna í barnæsku. Hin var Lísa í Undralandi.

    SvaraEyða
  2. Ég elskaði Önnu í Grænuhlíð og ég er eiginlega viss um að hún hefur staðist tímans tönn betur en Pollýanna...Lísa er svo kannski annar handleggur all together!

    SvaraEyða