28. desember 2008

Doktor Proktor og spörfuglar Lesbíu

Í Fréttablaðinu í dag eru kynntar niðurstöður kosninga um slæma og góða nýlega bókatitla. Ein okkar er meðal þeirra sem nefndir eru sem álitsgjafar, en viðkomandi leitaði til hinna sem hér skrifa um tillögur. Að sjálfsögðu komu hinir og þessir titlar til tals en hér fyrir neðan er lausleg samantekt á því hvað okkur finnst gott og slæmt af nýlegum titlum.

Það er vinsælt núna að hafa skáldsagnatitlana eitt orð, margir eru frekar lítið eftirminnilegir og þeir renna sumir dálítið saman: Vetrarsól, Skaparinn, Ódáðahraun, Myrká, Ofsi, Auðnin, Rán, Konur, Vargurinn, Sólkross o.s.frv. Af þessum eins orða titlum þóttu Rökkurbýsnir flottur bókartitill (dulúð og undur) og Vonarstræti (margrætt og vekur forvitni) og Algleymi fannst einhverjum okkar líka fín heiti.

Titlar sem taldir voru með þeim betri:

- Loftnet klóra himin: Tvímælalaust einn besti titill ársins, flott mynd.
- Flautuleikur álengdar: Titill með aðdráttarafl.
- Heitar lummur: Tvístígandi með þennan en akkúrat núna gleðst ég yfir því hann býður upp á fullkominn fimmaurabrandara (selst eins og …).
- Gissursson - hver er orginal?: Fínn endapunktur á fínni ævisagnaseríu.
- Doktor Proktor og prumpuduftið: Góður titill af því að hann höfðar til hins síbernska í börnum og fullorðnum.
- Amtmaðurinn á einbúasetrinu: Eitthvað dularfullt og spennandi við þennan einbúaamtmann.
- Ú á fasismann og fleiri ljóð: Góð hvatning, við ættum öll að úa á fasismann.
- Ég skal vera Grýla: Fyndinn titill, maður gleymir honum allavega ekki um leið eins og sumum öðrum.
- Dexter dáðadrengur: Eitthvað sætt við þennan.

Titlar sem þóttu slæmir:

- Apakóngur á Silkiveginum: Þessi titill er einhvern veginn bæði góður og asnalegur.
- Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu: Ungskáldatilgerð ársins.
- Stebbi Run - Annasamir dagar og ögurstundir: Er þessi titill ekki bara eitthvað spaug?
- 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp: Brýtur vandlega upp eins-orðs-trendið sem er svo áberandi í skáldsögum ársins, en samt, veit það ekki ...
- Opinská ævisaga gleðikonu í London: Banvænn titill!
- Sjáðu fegurð þína: Hljómar eins og sjálfshjálparbók fyrir ófrítt fólk.
- Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót. Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð: Svo vondur bókartitill að maður á ekki orð.

Klisjur ársins:

- Sæmi Rokk - Lífsdans Sæmundar Pálssonar: Lífsdans, þetta orð er hreinn viðbjóður.
- Melódíur minninganna: Það hljóta allir að vera búnir að fá nóg af þessu. Þetta er samt svo mislukkað að það er komið í hring og næstum orðið skemmtilegt.
- Hljómagangur: Svolítið sniðugur en líka afar klisjukenndur.

9 ummæli:

  1. Því mætti kannski bæta við að ekki var verið að segja neitt um efni og innihald bókanna eða hvort titillinn sé vel valinn með tilliti til efnisins (enda höfum við fæstar þessara bóka lesið).

    SvaraEyða
  2. Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót. Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð.

    Skrifaði Stebbifr þessa bók?

    SvaraEyða
  3. Maður batt ákveðnar vonir við þetta blogg en þær vonir eru brostnar. Þetta er druslubókablogg sem tekur því ekki að skoða því það er ekkert í gangi hérna. Getið þið fundið sponsor og fengið monní fyrir að skrifa? Eða bara lokað síðunni svo maður spari sér tímann?

    SvaraEyða
  4. Hvaða, hvaða - Druslubókadömur hljóta nú að mega taka sér frí yfir jólin eins og aðrir! Annars væru peningar voða vel þegnir - átt þú nokkrar krónur handa okkur? (þurfa ekki endilega að vera íslenskar)

    SvaraEyða
  5. Það gæti vel farið svo að hér yrði skrifað fljótlega. Eða ekki... við skrifum bara þegar okkur sýnist.

    SvaraEyða
  6. Eru Melódíur minninganna framhald af Lífsins melódí?

    SvaraEyða
  7. Nei, reyndar ekki. Melódíur minninganna hlýtur líka að vera skárri bók en Lífsins melódí sem er ein sú allra hörumlegasta samsetning sem ég hef þrælað mer í gegnum.

    SvaraEyða
  8. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða