Á áttunda áratug síðustu aldar komu ferskir straumar inn í bókmenntirnar. Þeir straumar voru meðal annars sprottnir úr umrótinu sem kennt er við 68-kynslóðina en eiga rætur lengra aftur. Gjarnan er talað um vinstriróttækni í þessu samhengi, þar sem marxískar hugmyndir í þjóðfélagsmálum voru áberandi, en ekki er síður mikilvægt að minnast á hugmyndirnar sem spruttu upp úr frjósömum jarðvegi kvennahreyfingarinnar. Höfundarnir beittu raunsæi til að kryfja gildi samfélagsins með gagnrýnum huga og spjótum var beint að stéttaskiptingu og hlutverkum kynjanna. Margir litu á bókmenntirnar sem pólitískan vettvang, leið til að gagnrýna samfélagið, velta við steinum og opna fyrir þarfa umræðu um misrétti og ójöfnuð.
Haltu kjafti og vertu sæt eftir danska höfundinn Vitu Andersen, sem fædd er 1944, kom út í íslenskri þýðingu Kristjáns Jóhanns Jónssonar árið 1981. Bókin inniheldur tólf smásögur sem fjalla um vanrækt börn, fjölskyldur í upplausn, einmana manneskjur og óhamingju í samböndum fólks. Í þessum sögum er lýst ömurlegum uppeldisaðstæðum á 6. áratugnum, þeim uppvexti fylgir óhamingja á fullorðinsárum og sögupersónur búa við örvæntingu og jafnvel geðraskanir. Aðalpersónur allra sagnanna eru konur. Þarna má finna litlar stelpur sem búa hjá einstæðum mæðrum, ungar konur sem sjálfar eru einstæðar mæður, miðaldra konur sem hafa skilið eftir óhamingjusöm sambönd og leita að nýrri ást án þess að verða ágengt, öryggislausar og ósjálfstæðar konur með minnimáttarkennd, konur sem reyna að gera öllum til hæfis, vitanlega án árangurs. Þessar sögur eru óneitanlega svartsýnar, niðurstaða þeirra er sú að félagsleg staða sé órjúfanlegur vítahringur sem haldi kynslóð eftir kynslóð fanginni í járngreipum. Börnin fá litla umhyggju í æsku og það bitnar á þeim alla ævi. Gallinn, fyrsta sagan í bókinni, segir frá Petru, 12 ára stúlku sem hefur frá fæðingu valdið móður sinni vonbrigðum, móðirinn fer ekkert í felur mað að hún hefði frekar viljað eignast son. Petra er vanrækt, móðirin neitar að leyfa henni að taka við gjöfum frá pabba sínum og smám saman hrynur veröld Petru saman. Í sögunni Óreiða segir frá skilnaðarbarninu Maríu, hún hefur verið gift þrisvar og á fimm börn og er í sambandi við ofbeldismann. Í sögunni Utanveltu er aðalpersónan hin ættleidda Maj, hún býr með kennara og er stjúpmóðir tveggja barna hans. Henni finnst hún svo utanveltu í tómleika hversdagslífsins að hún leggur sig úti í skóg til að deyja. Kynlífið í sögum Vitu Andersen er líka í hæsta máta óhamingjusamt og oft kúgunartæki á konurnar. Í sögunni Sunnudagur er til þess að ríða segir frá Kurt sem, konu sinni til armæðu, keppir við félaga sinn um hversu oft sé hægt að ríða á einum sunnudegi. Í annarri sögu segir frá Henry sem þarf nauðsynlega klám, barefli og leður til að geta haft samfarir.
Þrátt fyrir tilvistarvanda sögupersónanna vantar húmorinn ekki í þessar sögur. Vita Andersen er með dálítið ísmeigilegt skopskyn, hún gerir gys að kvennablöðum, kynhlutverkum og staðalmyndum og lýsir smáatriðum hversdagsins oft frá kómísku sjónarhorni. Niðurstaða sagnanna virðist þó vera sú að engin leið sé út. Við lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Vita Andersen sé mögulega á sömu skoðun og August Strindberg sem taldi kynin fædda fjandmenn og sagði það ljóst að karlkynið og kvenkynið væru eilíflega dæmd til að misskilja hvort annað. En kannski má helst túlka verk Vitu Andersen þannig að með því að gera þessar konur sýnilegar sé höfundurinn að opna konum einhverja smugu, sem síðan geti orðið leið þeirra í átt til frelsis.
Í Haltu kjafti og vertu sæt er lífi óhamingjusamra kvenna lýst af raunsæi og hispursleysi. Bókinni var fagnað í Danmörku og íslenska þýðingin fékk mjög góða dóma. Bókmenntarýnir Moggans, kallaði hana raunverulegt listaverk og sagði sögurnar skrifaðar af miklum hæfileikum. Fleiri verk Vitu Andersen voru einnig þýdd á íslensku, bæði ljóð, leikrit og skáldsögur. Þess má einnig geta að í janúar 1982 kom Vita Andersen til Íslands og kynnti verk sín og sat þá ásamt þáverandi eiginmanni sínum, þingmanninum Mogens Camre, boð forseta Íslands á Bessastöðum og birtist fréttin hér að ofan í Morgunblaðinu af því tilefni. Vita Andersen hefur síðan á 8. áratugnum gefið út um tug fjölbreyttra bóka, síðasta skáldsaga hennar, Anna Zoë, kom út 2006.
Þórdís og Þorgerður
Hann er aldeilis fallegur, hann Camre.
SvaraEyðaHann þótti aldrei par fagur á Bessastöðum og þykir varla enn núna á áttræðisaldri. Hann er í Dansk folkeparti og á 38 árum yngri konu og einhver ungbörn sem kannski munu kíkja í heimsókn til hans á elliheimilið á leið heim úr sex ára bekk.
SvaraEyða