19. febrúar 2009
After You´d Gone á sunnudegi
Eftir endalausa harðsoðna reyfara allan febrúarmánuð vaknaði ég síðastliðinn sunnudag og fann ólga í mér knýjandi þörf fyrir epíska dramatík. Eftir mikið tvístig fyrir framan bókahillurnar greip ég After You´d Gone (frá 2000) eftir Maggie O´Farrell en bók hennar The Vanishing Act of Esme Lennox kom út á mér tárum fyrir nokkrum árum. Svo hitaði ég te, náði í kúlusúkk og hringaði mig í sófann. Mörgum klukkutímum síðar staulaðist ég fram í eldhús, kastaði einhverju í pott og æddi svo með það aftur í sófann þar sem lestri lauk fyrir náttmál. Skemmst er frá því að segja að O´Farrell olli engum vonbrigðum og After You´d Gone er bara frábær lesning.
Í upphafi bókar kynnumst við Alice, tæplega þrítugum Lundúnarbúa. Lesandinn fær fljótt á tilfinninguna að eitthvað sé mikið að í lífi hennar en áður en hægt er að ákvarða hvað það er hefst hröð atburðarás – Alice stekkur upp í lest til Edinborgar, þar taka systur hennar á móti henni – en á lestarstöðinni sér hún eitthvað hræðilegt, snýr við og tekur lestina beint aftur til London. Stuttu síðar verður hún fyrir bíl og fellur í dá. Fjölskyldan safnast við sjúkrabeð hennar og meðan beðið er eftir að hún komist til meðvitundar fær lesandinn smám saman að vita hver Alice er og hvaða atburðir leiddu til núverandi aðstæðna. Þetta er ástarsaga en líka spennusaga – og lesandinn er ekki í rónni fyrr en öllum spurningunum hefur verið svarað. Sögunni vindur fram og til baka í tíma og rúmi og sjónarhornið flyst milli persóna. Þótt Alice sé þungamiðja sögunnar er heilmiklum tíma varið í að segja sögu ömmu hennar og mömmu líka – það er þó alls ekki truflandi eða langdregið – á einhvern hátt miðar allt að sama marki – undir niðri kraumar söguþráður sem smám saman brýst fram í skelfingu og fegurð.
Eins og titillinn kannski vísar til fjallar After you´d gone um missi. Í áhugaverðri grein í The Guardian segir höfundurinn frá því að hún hafi lagt upp með að skrifa sögu um ást og missi. Þegar hún svo ætlaði að fara að skrifa um ást Alice hafi hún allt í einu áttað sig á því að hún gæti ekki gert henni skil fyrr en hún væri búin að segja frá mömmu hennar og ömmu. Hversu sjálfstæð og óháð sem við höldum að við séum þá erum við óhjákvæmilega hluti af stærra megni, sögur okkar samtvinnaðar og tilfinningar bergmála gegnum kynslóðirnar. Þannig liggur saga Alice einnig í sögum formæðra hennar og fyrst birtist hún okkur ljóslifandi þegar alls konar púsl sem maður hefði ekki haldið að tilheyrðu myndinni hafa fallið á sinn stað.
Snilld skáldsögunnar liggur þannig í brotakenndum smáatriðunum – í lýsingum á hversdagslegum athöfnum og gjörðum sem þrátt fyrir að vera þriðju persónu frásagnir eru engu að síður svo persónulegar og afhjúpandi að það er eins og maður sjái inn í sálir fólks. Þetta er ekki fullkomin bók (enda frumraun höfundar) og stökkum milli vitunda (sem annars eru mjög vel gerð) er einstaka sinnum ofaukið – eins og þegar lesandinn er skyndilega settur inn í erfiðan skilnað læknisins sem sér um Alice. Þetta eru þó bara smáhnökrar. Sagan er harmræn en ekki niðurdrepandi og þótt lausnir sumra leyndarmála séu fyrirsjáanlegari en annarra er bókin - eins og sjá má á sunnudeginum mínum – gríðarlega spennandi og eftirminnileg lesning.
Tók After You´d Gone á bókasafninu og verð að viðurkenna það að hún fór aftur ólesin. Var eitthvað að grípa í hana af og til en frásagnarmátinn var svo ruglingslegur að ég náði engum tökum á framvindunni í svona bútalestri. En kannski maður gefi henni annan séns og heilan sunnudag.
SvaraEyðaMaggie O´Farrell er yfirleitt þannig að maður þarf helst að lesa hana í einum rykk eða því sem næst - annars er hætta á að maður týni þræðinum (eða áhuganum). En mæli með að þú gefir henni annan séns!
SvaraEyða