17. febrúar 2009

Malavísk ljóð

Líklegt verður að telja að fæstir íslendingar, ja eða bara vesturlandabúar almennt, séu vel upplýstir um Malavíska ljóðlist – eða Malavískar bókmenntir – eða bara almennt um Malaví, hið hlýja hjarta Afríku. Þetta er skiljanlegt ... og þó kannski ekki þegar Íslendingar eru annars vegar. Malaví hefur frá árinu 1989 verið aðalsamstarfsland okkar Íslendinga í þróunarsamvinnu og þeir því þónokkrir Íslendingarnir sem þar hafa starfað um lengri og skemmri tíma með öllum þeim samlegðaráhrifum sem slíkt hefur. Ekki það að þróunargeirinn hefur svosem ekki mikið verið að velta sér uppúr bókmenntum og listum – og kannski eru það bara óforbetranlegir bókabéusar á borð við undirritaða sem dettur í hug að kynna sér dútl á borð við ljóðagerð Malava.

Þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem ríkja í Malaví er ótrúlegt hversu þrautsegir rithöfundar þar hafa verið að stunda sína iðju og koma verkum sínum á framfæri við umheiminn – bæði innan Malaví og utan. Ljóðskáld á borð við Steve Chimombo, Jack Mapanje og Frank Chipasula hafa gefið út verk sín hjá alþjóðlegum forlögum svo sem Heinemann, auk minni forlaga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Útgáfa á ljóðum er einnig nokkur innan Malaví, þrátt fyrir krónískan skort á öllum aðföngum og fjármagni, og ber þar helst að nefna útgáfu á vegum rithöfundasambands landsins (sem styrkt hefur verið af sænsku og norsku þróunarsamvinnufé), háskólans auk trúfélaga. Malavísk dagblöð birta einnig heilmikið af ljóðum, á ensku og chichewa sem bæði eru opinber tungumál í landinu.

Sprenging varð í útgáfu allrahanda ritaðs máls, þar með talið ljóða, við fall einræðisstjórnar Kamuzu Banda árið 1994. Á tímum Banda var ritskoðun stunduð grimmt í Malaví og ekkert efni gefið út eða selt nema “ritskoðunarráðið” (e. Censhorship Board) hefði lagt blessun sína yfir það. Rithöfundar voru miskunnarlaust fangelsaðir, reknir úr landi eða eitthvað þaðanaf verra væru þeir staðnir að verki við að láta frá sér efni sem ekki féll í kramið hjá yfirvöldum. Sem dæmi má nefna að skáldið Jack Mapanje var fangelsaður árið 1987 án þess að hafa áður verið ákærður eða dæmdur, og ekki látinn laus úr Mikuyu fangelsinu fyrr en 1991. Á tímum Banda var allur skáldskapur bannaður sem var á einhvern hátt gagnrýninn á yfirvöld eða aðstæður í landinu og ekki mátti fjalla um neitt sem talist gæti pólitískt. Því er etv ekki að undra að pólitík hafi verið kærkomið yrkisefni þeim sem spruttu fram á ritvöllinn í kjölfar nýrrar stjórnarskipunar og fjölmiðlafrelsis. Þessi ljóð og textar lofsungu frelsið, lýðræðið og fjölflokkakerfið og í þeim voru settar fram kröfur um pólitískar breytingar, gagnsæi, sjálfsskoðun.

Frelsið sem afnám ritskoðunar Bandatímabilsins hafði í för með sér birtist að sjálfsögðu ekki einungis í þessu flæði texta og ljóða frá áður óþekktum skáldum inn á síður dagblaðanna heldur einnig í verkum þekktra og virtra skálda sem nú fengu áður óþekkt tækifæri til að skrifa og birta án þess að leggja sig og sína í hættu. Mjög áhugavert er að skoða í þessu ljósi ljóð t.d. þeirra Steve Chimombo og Jack Mapanje, þar sem yrkisefni þeirra eru ekki einungis pólitískt ástand heldur kannski ekki síður siðvenjur í Malavísku þjóðfélagi, sjúkdómar, fátækt, erlend aðstoð og svo má lengi telja.

Malavísk ljóðagerð er, miðað við aðstæður, hreint ótrúleg. Það sem þar er best gert er algjörlega samanburðarhæft við það besta á alþjóðlegum vettvangi. Því þarf enginn að halda að þar, eða annarsstaðar í hinum svokallaða þriðja heimi, sé ekkert að sækja annað en fátækt, sjúkdóma og vannærð börn. Hér er hvorki staður né stund til að fara dýpra ofaní þau mál en aðalatriðið að mati þessarar druslubókadömu er að fólk/lesendur geri sér grein fyrir að við vesturlandabúar getum sótt ýmislegt til þriðja heimsins – jafnvel frábærar bókmenntir.

8 ummæli:

  1. Áhugi minn er vakinn! Það væri því frábært ef Druslubókadama sæi sér fært að skella inn link á einhverja Malavíska ljóðasíðu eða jafnvel eins og einu ljóði...

    SvaraEyða
  2. Geri það við fyrsta tækifæri - og á pottþétt eftir að jarma meira um þetta áhugámál mitt í náinni framtíð

    SvaraEyða
  3. Hlakka til að heyra meira - þetta er spennandi.

    SvaraEyða
  4. Nei, Maríanna, þótt Sigfríður vilji hafa stórt M í ,,malavísk" er ekki þar með sagt að það sé rétt.

    SvaraEyða
  5. Reglurnar um stóra og litla stafi í landaheitum og þjóðernaheitum eru svo kjánalegar að það er um að gera að gleyma þeim.

    SvaraEyða
  6. Ég þakka stuðninginn frá Anonymous...hér gæti líka verið um að ræða heimasíðu sem héti Malavísk ljóðasíða og væri þannig skrifuð með stórum staf!!

    SvaraEyða
  7. Vá, en frábært - maður bara setur inn eina færslu og kemur þegar í stað í gang umræðum um stafsetningu og svoleiðis skemmtilegheit. Í raun ættu forvígismenn druslubókasíðunnar að henda mér út, ekki seinna en strax, fyrir lélega íslenskukunnáttu. Varla tækt að hafa innan sinna vébanda kvenmann sem hefur verið snupraður, allt að því opinberlega af menntuðum málfræðingi, fyrir að vera fræðistofnun til vansa fyrir ónóg tök á móðurmálinu.

    SvaraEyða
  8. Takk fyrir þetta.

    Og ég tek undir tillögu Maríönnu um hlekk á malavíska ljóðasíðu. Eða Malavíska ljóðasíðu. Mín vegna má það raunar vera mALavíSk lJóÐasÍðA, þess vegna, ef hlekkurinn skilar sér.

    SvaraEyða