Þessi bókadrusludama er mjög forvitin um lestur og lesvenjur annarra. Því setti hún saman þennan hnýsna spurningalista sem þið mættuð gjarnan svara í kommentakerfinu.
1. Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
Dewey-kerfið eins nákvæmlega og það er hægt án þess að númera bækurnar. Eiginmaðurinn skildi ekki hvað var í gangi þegar ég tók fyrsta kast sambúðar okkar. Ég greip hann í miðjum klíðum við að stinga bók aftur í bókahilluna “bara einhverstaðar”. Á mínu heimili er það ekki til. Kannski dáldið anal en þetta eru mín einu trúarbrögð.
2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Vildi að ég gæti svarað einhverju frumlegra en Ulysses eftir James Joyce en því miður hún er minn Moby Dick. Hef gert nokkrar atrennur að bókinni en hún sleppur alltaf undan. Taldi málið komið í höfn þegar leshringurinn minn tók hana fyrir en hringurinn gafst upp á bókinni áður en við byrjuðum. Hef meira að segja gefist upp á að lesa mikið niðursoðna teiknaða útgáfu af bókinni. Fyrst ég tók ekki Ulysses-námskeiðið hjá Ástráði Eysteins í denn og synti í gegnum bókina með kút og kork undir hans styrku stjórn þá verður líklega aldrei af þessum lestri.
3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Ef ég tel arfgóssið með þá fara óneitanlega flestir hillumetrar undir Laxness, en af því sem ég hef pungað út fyrir sjálf hljóta glæpa- og vísindaskáldsagnahöfundar að vera með flestar bækur. Fór og tók út hillurnar, sem er sérlega auðvelt sökum vinar míns Dewey, og niðurstaðan var allt önnur en ég hafði talið. Ekki glæpir eða vísindi heldur japanskur súrrealismi. Hr Murakami var með flestar bækur, ellefu talsins. Gaman að því.
4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað?
Ég veit ekki með uppáhaldslesstað en þegar ég var krakki þá dreymdi mig um lestur í breiðum bogagluggakistum (á ensku: bay window, ævintýrabækur Blyton voru fullar af þeim) á bak við gardínur í fullkomnum friði. Hef aldrei komist í það en efrihæðin á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti að sumarlagi var góður staður fyrir lestur.
5. Hvaða bók ertu að lesa?
Það er magnað með tilviljanirnar. Ég er að lesa “Bókin mín” eftir Ingunni Jónsdóttur, sem gefin var út 1926 . Hef átt hana lengi en greip í hana fyrir rælni í gær. Ákvað svo að gúgla Ingunni þegar ég er að skrifa þetta og kemst að því að 30. janúar var á Rás eitt Sagnaslóðarþáttur um bókina og höfundinn Ingunni. Eitthvað í etherinu eða hvað? Hér er þátturinn ef ykkur vantar hressilegan skammt af sveitalýsingum.
Eina bls. á dag; þannig klárar maður Ulysses að lokum, kv. ÁJ.
SvaraEyðaÞú segir nokkuð ÁJ. Best að ég prófi það á Njálu einhverntíma.
SvaraEyðaÞórdís! Ljótt er ef satt er.
SvaraEyðaÞetta er mjööööög skemmtileg föstudagsgleði kæra Helga og ég vind mér í svörin:
1.Dewey-kerfið er að sjálfsögðu hér eins og á öllum betri bæjum. Það eru meðalmenni sem raða eftir stærð. Dusilmenni sem gera það eftir lit. Illmenni sem raða bókum eftir tilviljun.
2. Hringadróttinssaga. Ég hef lesið fyrsta bindið (í merkingunni þrælað mér kveinandi í gegnum það) en tvisvar gefist upp á númer 2. Ekki gefast upp á mér ÁJ!
3. Ég geri eins og þú Helga, tek erfðagóssið Laxness ekki með. Né 47bækur eftir Margit nokkra Sandemo. En ég á 18 bækur eftir Philip Roth, þar næst kemur Joyce Carol Oates með 15 stk.
4.Ég á nú eiginlega engan uppáhaldsslesstað. Það var gott einu sinni að liggja löngum stundum á gólfinu fyrir framan barnabókahillurnar í bókasafni KHÍ, ég veit ekki hvort mér fyndist það ennþá.
5. Akkúrat núna er ég að lesa jólagjöfina frá manninum mínum: Essential Shakespeare Handbook og er alveg til í að plögga hana hér: http://www.dorlingkindersley-uk.co.uk/nf/Book/BookDisplay/0,,9780751348828,00.html en þarna má sjá að Kenneth Branagh kallar hana refreshingly joyful. Þetta er fyrirtaks uppsláttarrit sem veitir góða yfirsýn í höfundarverk Villa.
1. Óreiðukerfið (ég er illmenni). 2. Blikktromman. 3. Jeffrey (ekki Geoffrey) Archer. 4. Bókabíllinn./Kjallarinnn í Háskólabókasafni meðan það var enn í Aðalbyggingunni 5. Brödrene Karamasov. Hún gæti reyndar lent í flokki 2 ef ekki fer að ganga hraðar. Ég þarf að skreppa á eftir og endurnýja hana á bókasafninu.
SvaraEyðaEn áttu Murakami áritaðan, Helga? Ég á svoleiðis sem er auðvitað magnað miðað við hvað mér finnst maðurinn leiðinlegur höfundur. Varla þarf ég að taka það fram að ég hef ekki lesið þessa árituðu bók.
SvaraEyða1)Eiginlega engu kerfi. Reyndi að búa til stafrósröð og hafa svo ljóðabóka- og barnabókahorn og fræðibókahillur með mismunandi fræðum en allt riðlaðist strax og nú er allt út og suður og bunkar af bókum hér og þar. Bækurnar eru líka í ýmsum herbergjum í húsinu og það kostar stundum átök að finna einhverja bók, ef hún þá hreinlega finnst. Ég sé ekki að ég verði nokkurntíma manneskja sem á elegant bókahillur en hins vegar langar mig alveg að vera röðunartýpan.
SvaraEyða2)Nje ... hef aldrei komist í gegnum Njálu en ég þjáist ekkert þess vegna.
3) Ég á ekki mikið eftir neinn höfund. Á svona 7-8 bækur eftir þó nokkra höfunda en hvergi neitt komplett eða í hillumetrum.
4) Hengirúm á milli tveggja eplatráa. Er að rækta þau í garðinum mínum en þau eru langt frá því nógu stór til að bera hengirúm með mér í.
5) Ég er að lesa marga tugi bóka, flest fagurbókmenntakyns sem kom út á síðasta ári á íslensku (vegna tilnefninga til mennigarverðlauna DV).
P.S. Það er kannski vert að taka fram að ég ber svo takmarkaða virðingu fyrir veraldlegum eigum, að bókum meðtöldum (og finnst svo leiðinlegt að bera þær í flutningum), að mér er eiginlega sama um örlög flestra bókanna minna. Ég hef selt bækur í Kolaportinu, gefið marga bókakassa á flóamarkaði og “lánað” bækur án þess að vilja endilega fá þær til baka. Ég hugsa alltaf með mér að það séu til bókasöfn ef ég þurfi endilega að ná í einhverja bók. Svo sankast bækur alltaf að mér aftur þannig að ég er alltaf í vandræðum með að koma bókastöflunum fyrir.
P.P.S. Já og eitt enn: Fóruð þið á námskeið í Dewey-kerfinu? Er það kannski bara svona partur af almennri þekkingu sem ég missti af?
1. Ég ráðlegg þeim sem raða eftir Deweykerfinu að skella sér bara í bókasafnsfræði eða eitthvað. Í mínum bókahillum (og bókasófanum) ríkir almennt stjórnleysi sem hefur vissulega þann ókost að ég finn aldrei neitt.
SvaraEyða2. Ég var (og er þegar hann verður endurreistur) í áðurnefndum leshring með Helgu Ferdinandsdóttur og tókst heldur ekki að lesa Ulysses en mér finnst það bara töff, hef hitt of marga miðaldra karlpunga með minnimáttarkennd sem fá standpínu yfir því hvað þeir hafa lesið Ulysses oft (eða Don Kíkóta...eða Moby Dick...verður að vera eitthvað "stórt":) Hringadróttinssögu ætla ég aldrei að reyna að lesa, take that ÁJ!!
3, Ég held að ég eigi flestar bækur eftir Carolyn Keene, hinn ímyndaða höfund Nancy bókanna. Svo fór ég líka langt með að eignast heildarsafn Stefáns Jónssonar, Hjalti litli svíkur engan.
4. Uppáhaldslesstaðir eru kaffihús og strandbarir í útlöndum.
5. Laxveiðar í Jemen eftir Paul Torday, Hell eftir Henri Barbusse, Love me or Kill me: Sarah Kane and the Theatre of Extremes eftir Graham Saunders...og eitthvað fleira
1. Eftir því hvaða tungumáli þær eru skrifaðar á.
SvaraEyða2. Gerplu.
3. Jan Guillou.
4. Sófi tengdaforeldranna.
5. Aðventu.
Talandi um karlarúnk...áttu í alvöru 18 bækur eftir Philip Roth, Æsa? Púff:)
SvaraEyðaSko grínlaust þá hef ég aldrei heyrt um "venjulegt fólk" sem raðar eigin bókum eftir Dewey-kerfinu. Ég hef nokkrum sinnum sagt brandara um fólk sem gæti gert þetta og haldið að ég væri rosa fyndin.
SvaraEyðaSvíar myndu líklega telja þetta endurspegla að ég er sprottin úr lágstéttarumhverfi. Enginn í fjölskyldunni eða æskuvinkvennahópnum hefur átt nógu margar bækur til að þau þurfi á röðunarkerfi að halda til að hafa yfirsýn yfir þær.
Já hólí shit Æsa, ég tek forviða undir með Þorgerði. Áttu kannski líka allt draslið eftir Milan Kundera ;)?
SvaraEyða1. Eftir tegund.
SvaraEyða2.Snö, Orhan Pamuk
3. Fyrir utan erfðargóss eins og íslendingasögurnar og allar bækur, Hemingway og Strinbergs,keyptar í kössum á sænskum útsölum er það sennilega John Irving ca.10 st.
4. Hengirúmið í garðinum, sófinn í stofunni.
5. Shantaram, Gregory David Roberts
Lóa
1. Skipulögð óreiða. Frammi í stofu eru íslenskir og erlendir jólabókahöfundar, Britannica frá '56 og ýmsar gammeldags fróðleiksbækur. Inni á gangi er sérhilla undir íslenskar kiljur - hún er sú eina sem er röðuð í stafrófsröð og útgáfuröð innan höfunda. Inni í hjónaherbergi er handahófskenndur samtíningur af rövurum, námsdoðröntum, ljóðabókum og annarri óæðri útgáfu.
SvaraEyða2. Biblían: Ég byrjaði fyrir margt löngu á fyrstu Mósebók og ætlaði að lesa hana alla í gegn en gafst fyrir rest upp í einhverjum af minni spámönnunum. Og Íslendingasögurnar: Ég á þær í stafrófsröð og er strand rétt aftan við Gísla sögu Súrssonar.
3. Gyrði Elíasson. Hann er reyndar kominn oní kassa eins og flestar stofubækurnar, en mér telst til að ég eigi eftir hann um eða rétt yfir fimmtán titla.
4. Strætó.
5. Aldrei þessu vant er ég bara að lesa eina bók: Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósefsson.
1. Eftir dýrleika og efni. Fínni bækur hef ég í fornum indverskum skóskáp sem fylgdi íbúðinni, aðrar á furðulegum hillum á veggjum. Fólkið sem bjó hér virðist ekki hafa haldið bækur (hinsvegar fylgdu m. bunkar af hýbýlablöðum).
SvaraEyða2. Lost Weekend e. Charles Jackson. Eftir nokkrar atrennur er ég kominn vel fyrir miðju. Efnið leitar samt stöðugt á mig! Ég las loksins Íslandsklukkuna í haust.
3. Steinar Sigurjónsson, 15 stykki. Þá tel ég ekki með það sem er í tvíriti eða nýju útgáfurnar sem eru 20 (18 e. hann) bækur. Það eru um 40 stykki þá - hafði ekki gert mér grein fyrir því!
4. Engan sérstakan eða exótískan stað. Bara rúmið, held ég. Mætti vera rúm kannski á einhverri Azor-eyjunni eða St. Helenu, etc.
5. Sjálfsævisögu sr.Friðriks Eggerz, Úr fylgnsum fyrri aldar. Var að klára Nú brosir nóttin, um Guðmund refaskyttu.
1. Ég efnisflokka fræðibækurnar mínar en beygi mig undir stafrófsraðaráráttu konu minnar þegar kemur að skáldsögum. Líklega flokkast þetta undir Dewey, sem gerir (eins og ég) undantekningu fyrir „stórar bækur“.
SvaraEyða2. Aldrei lesið Ulysses, Moby Dick, Heimsljós eða flestar þær skáldsögur sem málsmetandi fólk getur gumað af að kunna eins og handarbakið á sér. Á hinn bóginn hef ég lesið allar Íslendingasögur, allt í Sturlungu og mestalla Biblíuna. Það er bara nútíminn sem vantar hjá mér.
3. Ef við teljum séreign mína af bókum þá er vinsælasti höfundurinn líklega Eric Hobsbawm, en Michel Foucault kemur sterkur inn. Næstir í röðinni eru líklega Karl Marx og Friedrich Engels. Enginn einn höfundur nær þó 10 bókum.
4. Ég man eftir gamla háskólabókasafninu í Aðalbyggingunni og að hafa lesið Íslendingabók þar. Uppáhaldsstaður allra tíma er þó líklega bókaskápurinn á heimili frænku minnar á Rauðalæk þar sem Gerður frænka átti Andrésblöð sem voru eldri en frá 1977 (en mér lærðist ekki að fara vel með þau fyrr en 1978 þannig að safn okkar bræðra byrjaði þar).
5. Er að lesa The Market Revolution: Jacksonian America 1815-1846 eftir Charles Sellers og Lykkemagerne: Gods og greve, fæster og forvalter i 1700-tallets verden eftir Palle Ove Christiansen.
1. Þannig að sem mest pláss náist. Stærðin skiptir t.d. máli því þannig myndast pláss til að stafla ofan á bókaröðina. Ég er þó með megnið af kiljunum inni á klósetti í sérsmíðuðum mjóum hillum og hef t.d. orðabækur og uppflettirit saman þó stærðin sé óregluleg. Yfirleitt get ég alltaf gengið að bókum mínum vísum í hillunum, en það hefur þó dofnað í seinni tíð.
SvaraEyða2. Proust og Leitin að glötuðum tíma.
3. Ég held að ég hljóti að eiga flestar eftir Kundera, í hræódýrum kiljuútgáfum. Hann er eini höfundurinn sem ég man eftir að hafa fengið einhvers konar sjúklegt "æði" fyrir.
4. Hengirúm í skugga í sumarhita í fagurri franskri sveit.
5. Fyrir utan hátimbrað lesefnið í náminu er ég með Ævar Örn Jósepsson, Svartir englar, á náttborðinu til slökunar.
Fyndið að sjá hvernig svörin kallast á. Ég las ekki hin áður en ég svaraði og sé margt sameiginlegt með hinum. Einnig hefði ég kannski hikað við að afhjúpa Kúndera-tímabilið mitt ef ég hefði vitað að búið var að afhjúpa hann sem karlrembuhöfund.
SvaraEyðaÞetta eru hrikalega skemmtilegar spurningar og frábært að lesa öll svörin. Mér liggur svo mikið á hjarta um fyrstu spurninguna að ég held að það sé best að hafa svarið við henni sér, afgangurinn kemur svo í næsta kommenti.
SvaraEyða1. Mmmmm, flokkun og röðun bóka er sérstakt áhugamál hjá mér (já, ég veit að ég er nörd) … Bókasafnið mitt er að mestu í nokkrum flokkum og hverjum flokki raðað (með nokkrum undantekningum) eftir stafrófsröð höfunda, bókum hvers höfundar er svo raðað í tímaröð (m.v. frumútgáfuár). Helstu flokkarnir eru: 1) skáldsögur o.fl. eftir íslenska höfunda, 2) skáldsögur o.fl. eftir erlenda höfunda, 3) íslenskar barna- og unglingabækur, 4) erlendar barna- og unglingabækur, 5) ljóð, 4) ævisögulegt og sjálfsævisögulegt efni (raðað eftir höfundum eða viðfangi eftir því sem við á), 5) fræðibækur um íslenskar bókmenntir og sögu, 6) aðrar bókmenntatengdar fræðibækur.
Afgangurinn af non-fiction-bókunum er skipulagt kaos, reyndar flokkað að hluta (eftir orðabókum, matreiðslubókum, ferðabókum, bókum um samfélagsmálefni o.fl.) en ekki er fullkomið kerfi á röðinni innan hvers flokks. Slatti af non-fiction er svo í óreiðu!
Íslenskar miðaldabókmenntir eru að mestu flokkaðar eftir ritröðum/útgefendum (Íslensk fornrit, Fornritafélagsútgáfan, Svart á hvítu / Mál og menning o.s.frv.).
Ólesnar bækur eru eitt allsherjar kaos.
Í athugun er sú byltingarkennda umbreyting að sameina allnokkra flokka (en raða að sjálfsögðu eftir sem áður eftir stafrófröð höfunda og útgáfuári). Annars hyggst ég gera þessu betri skil í væntanlegum greinaflokki um bókahilluvandann.
Og hér er afgangurinn af svörunum.
SvaraEyða2. Já og nei. Auðvitað er til hellingur af bókum (þar á meðal frægum bókum) sem ég vildi gjarnan hafa lesið en ég man ekki eftir neinni bók sem ég hef sérstakt samviskubit yfir (svona er ég forhert).
3. Það hlýtur að vera Agatha Christie, ég á eitthvað um 70 bækur eftir hana (er ekki heima svo ég get ekki talið nákvæmlega). Margit Sandemo er væntanlega í öðru sæti með 44 eða 45 bækur (vantar tvær eða þrjár). Gæti trúað að Ian Rankin væri í þriðja sæti, held að ég eigi 20 bækur eftir hann. Bíð spennt eftir að komast heim og telja fleiri bækur.
4. Hvar sem er, hvenær sem er. Annars virka sófinn minn og rúmið alltaf sérlega vel. En svo á ég það reyndar sameiginlegt með Helgu að láta mig dreyma um breiðar gluggakistur, ég hef alltaf verið heilluð af þeim.
5. Meðal þeirra bóka sem ég er að lesa er einhvers konar vampíru-chick-lit sem heitir Undead and Unwed (fyrsta bókin í seríu þar sem allar bækurnar heita Undead and eitthvað), Gómorra eftir Roberto Saviano, greinasafn eftir Orhan Pamuk og greinasafn eftir Georges Perec þar sem m.a. er að finna unaðslega grein um flokkun og röðun bóka!
1. Skipulögð óreiða. Bókum raðað ýmist eftir þemum, efnistökum, stærð, útliti og hugsanlega einhverjum fleiri skilyrðum. Þetta eru þó ekki fastar reglur og þær eru brotnar ítrekað (eins og á að gera með reglur).
SvaraEyða2. Mmmm, á slatta af bókum sem ég er ekki byrjaður á. Telst það með? Don Quijote á spænsku, kannski. Byrjaði einhvern tímann, en gafst fljótlega upp.
3. Innst inni á efsta hanabjálka á gamla háskólabókasafni. Jafnast ekkert á við að sitja aleinn umlukinn bókum á alla kanta, nánast eins og að vera í móðurkviði (ímynda ég mér).
4. Murakami, mín kæra :) (great minds og allt það)
5. Kláraði Grænlendingasögu og Um anarkisma í gærkvöldi og byrjaði á Álagahúsinu e. Margit Sandemo.
Þórdís: Dewey segir sig sjálfur. Einfaldari og rökréttari flokkun fyrirfinnst varla í vísindunum.
SvaraEyðaÞorgerður: Við höfum rætt þetta áður með Philip Roth. Hann er ekki karlarúnk frekar en bækur Ólafs Gunnarssonar.
Erna: Viltu giftast okkur Sverri?
Mikið er ánægjulegt að lesa svörin ykkar. Merkilega margir sem, eins og bísamrottan, kjósa hengirúm til lestrar.
SvaraEyðaÞórdís, ætli þessi Dewey árátta mín sé ekki sprottin af löngun úr æsku að taka bókasafnið með heim eða flytja þangað (á sumum tímabilum hefði ég bara verið að bæta við blánóttinni)
Ég væri til í að gefa gull í tá fyrir Murakami áritaðan. Spurning hvort sú bók þyrfti þá að fá sérstakan stað utan Dewey. Hmm, þarf að hugsa það.
Æsa, ég þakka ástsamlega þetta góða boð. Svar mitt mun berast í fyllingu tímans.
SvaraEyðaÉg hef lengi kallað eftir fólki sem er nógu vogað til að fást til að berjast fyrir því að fjölkvæni og fjölveri verði leyft. Mér finnst fólk eiga að geta gifst jafn mörgum og það vill og af hvaða kyni sem er auðvitað. Nú sé ég að ég hef fundið mér bandamenn í þessu baráttumáli.
SvaraEyða1. Dewey - kerfið, er það eitthvað ofan á brauð?
SvaraEyða2. Nei. Ég er orðin svo forhert með aldrinum að ég skammast mín hvorki fyrir bókmenntasmekk minn né hugsanlega skort á einu eða öðru.
3. Veit ekki.
4. Hægindastóll í fullkomnu skjóli undir góðri sólhlíf.
5. Human Croquet eftir Kate Atkinson, Í fjarveru trjá og Sjöunda soninn.
1) Voða frumstæðu innihaldskerfi, glæpa- og vísinda/fantasíukiljur í stórri Billyhillu, tvöfalt í nær öllum hillunum, uppfletti- og orðabækur ásamt gömlum Ugluklúbbsbókum í annarri, bækur á ýmsum málum plús teiknimyndasögur í þriðju og svo framvegis. Þetta er allt á bókaveggnum mínum niðri í svefnálmu. Uppi fá fínu innbundnu bækurnar að vera, ss. ljóðabækur og uppskriftabækurnar eru þar líka ásamt tónlistarbókum sem nýtast í vinnunni.
SvaraEyða2) já, fullt, Stríð og friður er alltaf á listanum, já og Meistarinn og Margaríta (veit, hún er ekki löng, bara hef ekki byrjað). Njálu gefst ég upp á á átjánþúsundasta nafni í ættfræðinni... LOTR hef ég hins vegar lesið oftar en ég hef tölu á.
3) Hmm, hillumetra af Anne McCaffrey og David Eddings og Dick Francis, einhvers staðar bak við eru svo gömlu Ngaio Marsh og Agöthu Christie bækurnar.
4) Best finnst mér að sitja út við glugga í stofunni í stól frá ömmu, ekki verra ef bóndinn liggur í sófanum og er líka að lesa.
5) Húsið eftir hana Hörpu Jónsdóttur liggur á náttborðinu - ásamt reyndar fleiri bókum, er alltaf með nokkrar í gangi í einu. Er að flikka upp á þýskuna með að lesa fyrstu Harry Potter bókina. Bóndinn er svo í sömu bók á rússnesku.
Mér finnst vanta eina spurningu. Hvaða bók sérðu eftir að hafa lesið? Ég hefði svarað Anna Karenina, en það er ein sú ömurlegasta bók sem ég hef lesið (fyrir utan ógeðisruslið þarna um djöfulinn sem klæðist Prada). Ég las Önnu Kareninu reyndar á þýsku, það gæti verið ástæða andúðar minnar á henni.
SvaraEyða1) Ég veit ekki hvað Dewey-kerfið er, hef aldrei heyrt á það minnst. Ég raða bókum eftir efnisflokkum: skáldsögur, ljóð, fornsögur, uppflettirit, orðabækur, listaverkabækur, atlasar etc. Annars myndi maður aldrei finna neitt. En það er ákveðið snobb í gangi hjá mér; nánast allar bækur inni hjá mér eru harðspjaldabækur, kiljurnar eru hafðar í yfirfallsbókaskáp frammi á stigagangi. Þar um slóðir er býsna mikið af nýlegum reyfurum en líka fullt af gömlum kiljum, svona morknum pappa og pappírsdoðröntum á borð við Saga Íslendinga e. Pál Eggert Ólafsson (í mörgum laslegum bindum) og Jón Sigurðsson eftir sama höfund, sömuleiðis í mörgum bindum. Sem ég hef lesið og er prýðisgóð bók þótt afar gamaldags sé. Ég hef lesið nánast allar bækur sem ég á.
SvaraEyða2) Nei. Biblían kemur reyndar upp i hugann og Njála en ég get ekki beinlínis sagt að það plagi mig að hafa ekki lesið þessar bækur eða einhverjar aðrar mektarbækur. Ég hef reyndar lesið búta og búta úr Njálu og sennilega mestalla bókina í bútum og á ýmsum tímum. En þetta er bók sem aðallega vekur upp spurningar og spurningarnar hreinlega gera mig brjálaða. Það sem ég þoli ekki við Njálu -- ÞOLI EKKI -- er að svo margt í sögunni er ósagt, s.s. höfundurinn er að skrifa fyrir samtímamenn og gengur út frá því sem gefnu að lesendur viti fullvel hvaða undirliggjandi lögmál eru að verki í þessari veröld sem hann er að lýsa. Nútímalesendur standa auðvitað alveg á gati. Ég ætla ekki að lesa Njálu fyrr en ég fæ Njáluútgáfu með skýringum sem eru lengri en Njála. Ég vil að stjórnskipulagið sé útskýrt fyrir mér svo ekki sé talað um lögin. Og hvaða hefðir og venjur voru í gildi í samskiptum manna á millum, t.d. í samb. við samninga af öllu tagi. Og ég vil líka að einhver útskýri fyrir mér efnahagskerfið og það má líka hafa sérstakan kafla um Noreg. Ég vil líka fá mörg kort, t.d. með reiðleiðum, og upplýsingar um samgöngumál og atvinnuhætti á þessum tímum. Og það væri ekki verra að fá líka greinargóðar upplýsingar um hús og híbýli, skip, klæðnað, verkfæri og vopn.
3. Ég hef ekki hugmynd. Bókasafnið er mjög tætingslegt. Og ég er aðallega í því að grisja það, rogast alveg endalaust með bækur til Braga.
4. Draumalesstað? Nei.
5.Ég er að lesa einhverja bók eftir Þórberg Þórðarson sem vinur minn gaukaði að mér í fyrradag -- hann er fan og finnst ég ekki vera nægilega mikið fan og vill konvertera mig. Þetta er greina- eða ritgerðasafn. Bókin er kúnstug eins Þórbergi er von og vísa og dáskemmtileg aflestrar.
Anna
1. Ég raðaði bókunum fyrst eftir höfundum, þá eftir stærð. Eftir að ég fór að vinna á bókasafni fór ég að raða í hillur mestanpart samkvæmt stöðluðu kerfi Borgarbókasafns, sem er einfaldaður Dewey. Þá næ ég einum bókaskáp af fræðibókum, einum af skáldsögum og þriðja af ljóðum og því sem fellur undan.
SvaraEyða2. Ótalmargar eftir Laxness. Sjálfstætt fólk er eina sem ég hef klárað eftir hann. Las Íslandsklukkuna hálfa áður en mér fór að finnast hún leiðinleg, Heimsljós kláraði ég þriðjung af áður en ég hætti af ástæðum sem ég man ekki. Fannst hún afskaplega góð, en löturhæg. Kannski ég myndi helst hafa viljað lesa Vefarann samt.
3. Að Kiljan undanskildum - sem ég fékk nær komplett í fyrirframarf - þá á ég flestar eftir Þórberg. Þær keypti ég allar sjálfur og hef langflestar lesið. Einhverra hluta vegna situr Sálmurinn alltaf óhreyfður eftir.
4. Bókasafnið í MS - klárlega besta bókasafn á höfuðborgarsvæðinu. Eitt sinn mátti taka pásur frá lestrinum til að lesa á borðin. Textarnir þar tóku fram öllu því sem fólk þykist sjá í Joyce. En það er búið að skipta um borð þar núna.
5. Er að endurlesa allan Þórberg, reyndar sökum náms. Þar fyrir utan er ég rétt við að klára Vonarstræti og Önnu frá Suðurey - hvorttveggja góðar bækur en sú síðari öllu dásamlegri. Og lygilegri.
6) Þær eru nokkrar barnabækurnar sem ég hef séð eftir að lesa í annað sinn eftir að ég komst til vits og ára - sem stóðu ekki undir glæstu minningunum. Fyrst upp í hugann er Mómó eftir Michael Ende.
SvaraEyðaSú bók sem ég man fyrst eftir að ég hafi séð eftir að lesa yfirhöfuð er Konungsbók eftir Arnald Indriðason. Enda er styst síðan ég kláraði hana.
1) Skil ekki þessa biturð út í Dewey kerfið sem eins og Æsa segir er einn helsti sigur vísindalegrar rökvísi. Hjá mér er Dewey í hávegum hafður þótt vissulega megi beygja reglurnar örlítið til að koma fleiri bókum fyrir! Raðar annars nokkur eftir lit nema kannski IKEA?
SvaraEyða2)Man ekki í svipinn eftir neinni bók sem ég vildi að ég hefði klárað...en sé óneitanlega eftir því að hafa nokkurn tímann byrjað á Alkemistanum...og þó...það er alltaf góður Icebreaker að dissa Paolo Coehlo!
3) Ísfólkið er (eins og hjá fleirum) ókrýndur sigurvegari en annars er það Enid Blyton og á eftir henni fylgja fleiri hressir barnabókahöfundar og séríur (Astrid Lindgren, Beverly Gray, Bob Moran, Nancy Drew osfrv.). Af nýlegri höfundum verð ég að segja Alice Munro og Shakespeare.
4) Gamla Borgarbókasafnið verður seint toppað - las þó Harry Potter á sínum tíma í hengirúmi á Barbados sem var ekki slæmt...Annars er það bara sófinn!
5) Ég er djúpt sokkin í kvenfyrirlitningu og kynþáttafordóma James M. Cain í skáldsögunni Serenade...good times!
1. Verk eftir íslenska höfunda eru sunnanmegin í bókaherberginu mínu, erlendir höfundar eru norðanmegin og í stofuhillum og gestaherbergi eru óflokkaðar bækur, allt frá ættfræðilengjum að klámi. Skipulegt kaos einkennir kerfið.
SvaraEyða2. Ég hef gert margar tilraunir til að klára Sturlungu en stansa alltaf í Íslendingasögu. Annars á ég mjög fátt ólesið núna nema árbækur Ferðafélagsins, sem ég eignaðist á bókamarkaði fyrir nokkru. Ég hef engan metnað til að lesa Ulysses.
3. Ég á allar bækur Patriciu Cromwell og John Grisham. Ég átti 22 Dick Francis en fleygði þeim í skapvonskukasti fyrir nokkrum árum þegar ég varð að grisja í hillunum. Einnig flest sem ÞE hefur skrifað, svo og EK og Einar Már. Að öðru leyti er erfitt að telja því í of mörgum hillum eru tvöfaldar raðir. Ekki má heldur gleyma kössunum í bílskúrnum. Þeir eru fullir af barnabókum.
4. Uppáhaldslesstaðurinn er djúpur hægindastóll í bókaherberginu. Hann er við gluggann og pláss fyrir kaffikönnu í hillunni. Kötturinn liggur svo fyrir aftan mig. Stundum les ég upphátt fyrir hann.
5. Konur. Mér gengur samt illa að festa hugann við hana.
!. Ég raða bókunum mínum ekki eftir neinu sérstöku kerfi treð þeim bara þar sem þær komast fyrir.
SvaraEyða2. 100 ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez.
3. Frank Miller.
4. Mér finnst best að lesa í appelsínugula húsbóndastólnum mínum með fótskemmli.
5. Ég er að lesa Glæpur og refsing eftir Dostoievsky, Hell angels eftir Hunter S. Thompson og Stardust eftir Neil Gaiman.
1. Skipulagt kaos - allir krimmar í nýja vinnuherberginu, í stafrófsröð höfunda (já, það er (skemmtileg) vinna að lesa krimma). Flestar aðrar skáldsögur í stafrófsröð e. höfundum í gamla vinnuherberginu, sem er varavinnuherbergi, sjónvarpsherbergi og stórpartíaaukastofa í dag. Uppflettirit, atlasar, orðabækur ofl. í hillunum hér við hliðiná mér, við tölvuna. Og svo hinar og þessar bækur hér og þar og allstaðar.
SvaraEyða2. Fæ vægt samviskubit öðru hvoru útaf hinum og þessum stórvirkjum ólesnum - en forherðist jafnharðan og læt þau áfram ólesin.
3. F. utan Agöthu (en áður ókeyptar bækur hennar gríp ég gjarnan með þegar ég rekst á þær, fremur af skyldurækni en áhuga), þá eru það vafalaust Hergé, Terry Pratchett, Ross Macdonald og Ed McBain - en bara afþví Håkan Nesser og Rankin eru ekki nógu afkastamiklir.
4. Gamli, rauði hægindastóllinn hér í suðausturhorni vinnuherbergisins.
5.Vetrarsól Auðar Jóns, Naturkeller (leiðarvísir um gerð jarðhýsa) e. Claudiu Lorenz-Ladener og I predict a riot (murder, extortion & carrot cake) e. Colin Bateman.
1. Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
SvaraEyðaTalandi um Dewey, þá myndi ég sem gamall starfsmaður Borgarbókasafnsins að sjálfsögðu raða eftir dönsku útgáfu Dewey-kerfisins með séríslensku ívafi. En ég geri það ekki. Megninu er reyndar raðað í kassa undir stiga í foreldrahúsum heima á Íslandi. En hér í hillum er röðunin, sýnist mér, helst eftir stærð og formi (kiljur/ekki kiljur). Orðabækur og uppsláttarrit fá mest megnis að vera sér. Röðunin fer líka dálítið eftir því hverjum er skárst fórnað ef og þegar þriggja ára barn tekur upp á því að vilja búa til hús úr bókum. Dýrmætari bækur eru því í efri hillum. Gamlar, leiðinlegar skólabækur hins vegar hiklaust í þeim neðri.
2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Í einu þessara árlegu bókapartía Bókmenntavefs Borgarbókasafnsins fyrir nokkrum árum fólst einn samkvæmisleikurinn í því að draga upp lista af 100 bestu bókum heimsbókmenntanna (örugglega skv. Guardian eða eitthvað svoleiðis). Sá vann sem var með flestar. Skemmst er frá því að segja að ég skíttapaði. Man ekki hvort ég var með 2 eða 3.
Ég hef hins vegar fundið aðferð til að troða marvaðann í gegnum heimsfrægt torf. Ekki lesa, heldur hlusta. Þannig er ég nú búinn með Njálu og tvo Dostojevskí-múrsteina. Hlustun er líka fín aðferð til að komast í gegnum leiðindi sem ágætt er að hlusta á annars hugar við uppvask en óbærilegt að eyða tíma í að lesa. Henning Mankell er þar mjög gott dæmi.
Ég myndi samt enn þá skíttapa samkvæmisleiknum hálærða en væri þó kominn upp í kannski 4-5 af hundrað.
3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Hér í hillunum sýnist mér Ryszard Kapuscinski hafa vinninginn. Ofan í kössum á Íslandi er það, hins vegar, sjálfsagt títtnefndur HKL. Nema ef vera skyldi ritröð Víðis Sigurðssonar; stórvirkið Íslensk knattspyrna 1981 og frameftir. Talandi um karlremdubókmenntir, maður!
4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað?
Tek undir þetta með hengirúmin og djúpu gluggakisturnar. Það eru draumastaðir. Prófaði þetta með hengirúmið í argentínskri sveit um þarsíðustu áramót. Gott stöff (eins og Páll Baldvin segir).
Annars kemur nýi sófinn líka mjög sterkur inn og svo sumarbústaður foreldra minna í Grímsnesinu. Jafnvel einhver laut í nágrenninu í þau fáu skipti sem ekki rignir eða blæs á Flíslandi.
(Svo ég komi hins vegar aftur að stöðu minni sem fyrrum bókavörður á BBS og í ljósi þess að margir nefna gamla Esjuberg sem uppáhaldslesstað þá get ég ímyndað mér að kjallarinn þar hafi einna best hentað undir bóklestur. Þangað komu auðvitað bara innvígðir en aðra eins rangala fulla af bókum hef ég hvergi annars staðar séð. Viðurkenni þó auðvitað ekki að hafa hjúfrað mig út í einhverju útskoti þar í vinnutíma og lesið en oft var það freistandi. Tel mig líka enn muna nákvæmlega hvernig danski Dewey hlykkjaðist þar um á mjög órökréttan hátt milli herbergja, geymslna og geymslna inn af geymslum og kústaherbergjum inn af þeim geymslum.)
5. Hvaða bók ertu að lesa?
Fyrst og fremst Dagbók frá Diafani eftir Jökul (hina mjög svo töff hönnuðu frumútgáfu, ekki endurútgáfuna sem kom út um jólin). Svo fleiri líka.
1. Skipulagt Kaos, sem þó er alltaf verið að endurskipuleggja.
SvaraEyða2. Ég er einn af þeim sem hef alltaf ætlað mér að lesa Ulysses e. Joyce, en áður en ég reyni við það hef ég einsett mér að lesa kviður Hómers.
3. 17 leikrit eftir Shakespeare. 14 bækur eftir Ray Bradbury. 10 af McEwan, 10 af Atwood og 9 af Iain (M.) Banks.
4. Rúmið mitt, þó ég sofni oftar en ekki eftir örfáar blaðsíður.
5. Er að lesa Rökkurbýsnir eftir Sjón. Gengur hægt (sjá svar 4).
Örn Leifsson.
SvaraEyða1.Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
Eftir viðfangsefni, hef tvo skápa fyrir comics, einn fyrir stóru spurningarna í formi heimspeki, dulspeki, vísindi. Einn skáp fyrir england, tvo fyrir bókmenntir og tvo fyrir tónlist og einn skáp fyrir rest.
2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Tvær koma upp í hugan það er leitin að glötuðum tíma eftir Proust sem ég hef byrjað tvisvar á og síðan Gödel, Escher, Bach eftir D.R. Hofstadter sem inniheldur svo mikla stærðfræði og rökfræði að ég gefst alltaf upp.
3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Laxnes, Asimov og Herge.
4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað
Upp í rúmi með Barrokk tónlist í bakgrunni og Te og Súkkulaði í forgrunni.
5. Hvaða bók ertu að lesa?
Ég er orðin ástfangin af Ginger Rogers ( Hún er ofur Cute) og er að lesa 1. Ginger my story. 2. Fred and Ginger. 3. Steps in time, autobiography by Fred Ataire.
1. Teiknimyndasögur, raunvísindarit og uppflettirit flokkuð eftir höfundum/fræðigreinum í vinnuherberginu. Annað í stofunni, flokkað eftir tungumálum, tegund og bandi.
SvaraEyða2. Raunir Werthers unga er vissulega ekki múrsteinn á borð við Hringadróttinssögu eða Odysseif en samt hef ég aldrei komist í gegnum nema fyrri hlutann. Ég hef nokkrum sinnum strandað á fyrstu síðum Grámosans en skammast mín minna fyrir það, enda þekki ég mér vitanlega engan sem hefur komist í gegnum bókina alla.
3. Félagarnir Goscinny og Uderzo slá Laxness-safninu við þótt ég telji aðeins eitt eintak af hverri sögu.
4. Bekkur í almenningsgarði, en því miður viðrar alltof sjaldan til útilestrar hér heima. Líklega les ég mest í rúminu og í strætó.
5. Sebastíanshús eftir Oddvøru Johansen, Skaparann eftir Guðrúnu Evu, Paperweight eftir Stephen Fry og Handel eftir Christopher Hogwood.