26. júlí 2009

Landnemabókmenntir

Sem barn las ég um Láru litlu Ingalls og ævintýri hennar á gresjunni. Sjónvarpsþættirnir Húsið á sléttunni voru svo sýndir á Rúv og það var hart hjarta sem ekki bifaðist með sorgum og sigrum Ingalls fjölskyldunnar þar sem þau reyndu að temja bandaríska náttúru um miðbik 19. aldar. Bækurnar og enn frekar þættirnir voru sveipuð rómantískum blæ og heimurinn sem þau lýstu var einfaldur og skýr. Ingalls fjölskyldan var góð og sannkristin en illskan birtist helst í andstyggilegu kaupmannsdótturinni Nell sem og hinum óblíðu náttúruöflum. Alltaf þegar maður hélt að nú gæti Michael Landon glaður leikið á fiðluna og Lára fengið nýja skó fyrir veturinn kom uppskerubrestur – ef ekki þurrkur þá engisprettufaraldur. Sögurnar af Ingalls fjölskyldunni höfðu það þó fram yfir margar landnemasögur að þær voru byggðar á raunverulegum endurminningum Láru – vissulega sveipaðar ljósrauðum bjarma en engu að síður heimild um hversu erfitt lífið á gresjunni var.

Nýverið hef ég svo lesið tvær mjög ólíkar frásagnir af landnemum. Sú fyrri er My Ántonia eftir Willa Cather. Hún kom út árið 1918 en fjallar um landnema í Nebraska um miðja 19. öldina. Hér eru langar og ljóðrænar lýsingar á engjum, sólsetrum og eplabökum en líka langir, kaldir vetur – hungur og sjálfsmorð. Með öðrum orðum er rómantíkin tempruð með brauðstriti og alltaf þegar maður er farinn að óska sér á sléttur Nebraska kemur einhver kona arkandi með þvottakörfu og blæðandi fingur.

Sögumaður lítur um öxl á uppvaxtarár sín í sveitinni og rifjar upp minningar um jafnöldru sína – Ántoniu. Bókin er óvenjuleg (sérstaklega miðað við ritunartíma) fyrir það að fjalla um fátæka innflytjendur og aðallega konur. Hér kynnumst við dönskum þvottastúlkum, rússneskum veiðimönnum og bláfátækri fjölskyldu frá Bóhemiu (síðar Tékkoslovakíu...síðar Tékklandi). Sumir voru að flýja erfiðar aðstæður heima fyrir en margir voru vel stöndugir í heimalandinu þegar ævintýraþráin rak þá að heiman. Örlögin sem biðu þeirra í nýja landinu voru svo sannarlega ekki alltaf blíð. Cather kynnir okkur bæði fyrir rússanum sem sveltur í kofanum sínum sem og hinni skandinavísku Lenu sem öllum að óvörum verður efnaður kjólameistari. Ántonia endar sem bláfátæk tíu eða ellefu barna móðir eftir heilmiklar hrakningar en hún er þó hamingjusöm þegar sögumaður skilur við hana...eins gott að vera nægjusamur á sléttunni...

Í The View from Castle Rock rekur Alice Munro sögu forfeðra sinni sem fóru með skipi frá Skotlandi til Kanada um miðja 19. öldina og áttu ekki sjö dagana sæla. Munro er ekki mikið fyrir rómantík og rósrauð gleraugu og spurning hvort er miskunnarlausara í meðförum hennar – náttúran eða fólkið... Bókin hefst á frásagnarbrotum um langlangafa og langömmur en eftir því sem árin líða þrengist hringurinn um Munro sjálfa – eða í öllu falli skáldaða útgáfu af henni. Stíll Munro er fjarlægur svo þótt hún lýsi hörmulegum atburðum; ástvinamissi, heilsubresti og barnadauða þá tekst henni einhvern veginn að hnýta það saman við stærra samhengi svo lesandanum verður ljóst að þótt þetta eða hitt sé vissulega sorglegt þá er það ekki dramatískur harmleikur heldur bara lífið. Þetta gerir atburðina ekki beint léttvægari – en kannski lífið þungbærara...En þótt Munro sé ekki feel good höfundur er hún oft mjög fyndin (á þurran hátt) og húmorinn ber mann í gegnum vonleysislegan heiminn sem hún lýsir.

Þessar bækur eru ekki beinlínis tæmandi heimild um landnema 19. aldar en það virðist nokkuð ljóst að landnámið var ekki tekið út með sældinni og sennilega hefur „Grenjað á gresjunni“ verið réttnefni eftir allt saman...

5 ummæli:

  1. Guardian er með áhugavert innlegg þar sem Ingalls-hyskið kemur við sögu:

    http://www.guardian.co.uk/books/booksblog/2009/jul/22/childrens-classics-unsuitable-kids

    SvaraEyða
  2. skemmtileg grein - ekki síður komment ábyrgra foreldra sem fylgja á eftir! Ritskoðun bóka er sígilt umræðuefni!

    SvaraEyða
  3. Hey, ég á einmitt þessa bók eftir Munro. Spurning um að færa hana ofar í lestursbúnkann.
    Ég var mjög upptekin af landnemum N-Ameríku sem únglingur enda er þetta sérlega únglingavænt lesefni; dramatík, ástir og örlög, framandi umhverfi, hættulegir sjúkdómar og munaðarleysingjar. Sem barn og áhorfandi sjónvarpsþáttanna hélt ég hins vegar langmest upp á hina kvikindislegu Nelly Olsen, enda var hún miklu skemmtilegri en þessar sívolandi Ingalls-systur.

    SvaraEyða
  4. My Ántonia kom út í íslenskri þýðingu 1965 undir nafninu Hún Antónía mín og stendur í hillum flestra bókasafna landsins. Kannski kominn tími til að hleypa henni út.
    Þórdís Kristl.

    SvaraEyða
  5. Ég mæli alla vega með Antóníu!

    Ég gæti vel hugsað mér að lesa meira eftir Willu...en þó langar mig jafnvel meira að lesa ævisögu hennar. Hún hljómar mjög áhugaverð - Sem ungur námsmaður gekk hún í karlmannsfötum og kallaði sig William en eftir að hún ákvað að verða rithöfundur og fór að gefa út hætti hún því. Í formála að My Antónia er stungið upp á því að með skrifunum hafi hún fundið aðra (betri?) útrás en að ganga í karlmannsfötum.

    SvaraEyða