17. júlí 2009

Lifað og leikið - upphaf garðræktar Reykvíkinga

Í ævisögu sinni Lifað og leikið sem kom út árið 1949, rekur leikkonan Frú Eufemia Indriðadóttir Waage minningar sínar. Hún var fædd á Laugavegi 5 árið 1881 og ólst upp og bjó alla tíð í Reykjavík en Eufemia dó árið 1960. Bókin er ágætislesning um bæjarbrag og lifnaðarhætti í Reykjavík á uppvaxtarárum Eufemiu á áratugunum í kringum aldamótin 1900 og þar má meðal annars lesa um matjurtagarða bæjarbúa, en menn voru komnir með kálgarða hér og þar í Reykjavík fyrir hátt í 130 árum. Meðal annars segir Eufemia matjurtagarða hafa verið á Tjarnarbakkanum vestanmegin. Hún bjó fyrstu æviárin við Tjarnargötu 3, mér skilst að húsið hafi staðið einhversstaðar við horn Vonarstrætis, en Tjörnin náði þá uppundir Alþingishús og Dómkirkju að norðan. Fjölskyldan átti stóran matjurtagarð og segir hún marga krakka hafa öfundað þau af honum.

Amma Eufemiu í móðurætt og ættingjar hennar höfðu mikinn áhuga á garðrækt. Sú kona var aldönsk í aðra ættina og hálfdönsk í hina og segir í bókinni frá því að þegar amman hitti systurson sinn, Lárus Sveinbjörnsson á götu á sumrin, en sá var einnig mikið fyrir garðyrkju, þá spurðu þau hvort annað "Hvernig er sprottið hjá þér tanta mín?" og "Hvernig er sprottið hjá þér Lárus minn?" Sömu spurningu lögðu móðir Eufemiu, Marta Pétursdóttir og systur hennar, hver fyrir aðra þegar þær hittust á förnum vegi. Það grænmeti sem ræktað var á þessum árum í Reykjavík var aðallega kartöflur, rófur, gulrætur og næpur, en hvítkál og blómkál varð ekki algengt fyrr en seinna.

Meðal annarra garðræktenda í Reykjavík á þessum tímum, sem Eufemia nefnir, eru Pétur biskup Pétursson sem var giftur Sigríði Bogadóttur, en hún var mikil garðyrkjukona og stóð hús þeirra þar sem Reykjavíkur Apótek var síðar byggt á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis (núna er einhver veitingastaður þar). Einnig nefnir Eufemia Schierbeck landlækni sem stundaði margvíslegar ræktunartilraunir og var ásamt Árna Thorsteinssyni landfógeta hvatamaður að stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885.

Í ársriti Garðyrkjufélagsins 1988 er grein eftir Ingólf Davíðsson þar sem hann segir frá garði Árna landfógeta, en sá garður er nú bakgarður Hressingarskálans við Austurstræti 20. Þennan garð segir Ingólfur vera aldursforseta reykvískra skrúðgarða sem enn eru í ræktun. Garðinum var komið upp á árunum 1862–1865. Árni fógeti keypti húsið árið 1861, kálgarður var þar fyrir en jarðvegurinn ófrjór svo hann var bættur og plöntur sem ekki hafði verið plantað á Íslandi áður voru settar niður, en einnig algengar garðjurtir og skrúðplöntur. Mikil gróska og fjölbreytni var lengi í Landfógetagarðinum og mun hann hafa verið mörgum Reykvíkingum til hvatningar og eftirbreytni í garðræktinni. Húsið var í eigu ættingja Árna til 1930, þá keypti KFUM það en 1932 hófst rekstur gamla Hressingarskálans sem var ekki síst vinsæll vegna garðsins þar sem sitja mátti og borða hnallþórur og drekka te undir trjákrónum þegar veður leyfði. Í nýlegu skipulagi er gert ráð fyrir að Landfógetagarðurinn verði gerður aðgengilegur fyrir almenning. Þess er óskandi að það skipulag standist.

3 ummæli:

  1. Í framhjáhlaupi skal þess getið að hvíta rósin vex í garðinum mínum og ilmar eins og flaska af frönsku ilmvatni!

    SvaraEyða
  2. ætlarðu í framleiðslu eins og J Lo og skvísurnar?
    Bókin hljómar annars mjög áhugaverð - þannig séð! Les hana alla vega frekar en Anglel´s Game...

    SvaraEyða
  3. Auðvitað er þessi bók sjálfsögð lesning fyrir leikkonur ;)

    SvaraEyða