8. ágúst 2009

Stieg Stieg Stieg

Fyrstu dagana sem myndin Karlar sem hata konur var sýnd á Íslandi fóru yfir tíuþúsund manneskjur í bíó til að sjá hana og ég er ein þeirra. Ég er ekki nema mátulega hrifin af myndinni, sé eiginlega smá eftir að hafa ekki hlaðið henni niður ólöglega og sent Evu Gabrielsson, sambýliskonu Stiegs heitins Larssons, pening í pósti fyrir. Allir sem hafa séð heimildarmyndina um Stieg og Millenium-fyrirbærið vita hvers vegna mann langar lítið að styrkja erfingjana. En hvað sem því líður þá halda bækurnar um Mikael Blomqvist og Lisbeth Salander áfram að seljast og von er á mynd númer tvö í haust, hún á örugglega eftir að slá í gegn líka og sömuleiðis sú þriðja.

Fyrr í sumar fékk Stieg Larsson bresk bókmenntaverðlaun fyrir Karla sem hata konur. Bókin, sem á ensku kallast The girl with the dragon tattoo, fékk British Book Awards sem glæpasaga ársins. Meðal annarra British Book Awards-verðlaunahafa er Barack Obama sem fékk viðurkenningu fyrir æskuminningarnar Dreams from my father.

Danska forlagið Modtryk, sem gefur út bækur Stiegs, græðir auðvitað á tá og fingri enda hafa 1,3 milljónir eintaka af bókum hans selst á dönsku. Politiken hafði það eftir forleggjaranum um daginn að gróðinn væri svo mikill að forlagið ætlaði að stofna sérstakt barnabókasysturforlag og nota hluta af millenium-peningunum til að gefa út barnabækur. Gott mál!

Og nú eru víst þrjár bækur UM Stieg Larsson á leiðinni og margir bíða áreiðanlega spenntir eftir þeim. Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Kurdo Baksi (hann kemur fyrir í eigin persónu í þriðju bókinni) vinnur að bók sem á að koma fljótlega út hjá Norstedts í Svíþjóð. Sú bók hefur vinnuheitið Vinur minn Stieg. Þar segir höfundurinn frá góðum og slæmum hliðum Stiegs og langvarandi vináttu þeirra tveggja. Forleggjari bókaforlagsins Ordfront, Jan-Erik Pettersson, vinnur líka að bók um Stieg Larsson, það verk á að vera hefðbundin ævisaga byggð á heimildum. Loks er sambýliskonan, Eva Gabrielsson, sem fær ekki krónu af öllum peningunum sem flæða inn, líka að skrifa bók en hún vill ekki ræða hana í bili.

3 ummæli:

  1. ætli maður verði ekki að kaupa bókina hennar Evu...svona rétt til að létta á samviskubitinu yfir að hafa verið að styrkja þessa Deliverance-legu feðga...

    SvaraEyða
  2. Eins og þeir sögðu svo ,,hnyttilega" í þættinum góða þá hefur hún Eva ekki pung eins og þeir ... að láta svona lagað út úr sér!

    GK

    SvaraEyða