27. desember 2009

Auður

safe_image.phpÉg hef verið aðdáandi Vilborgar Davíðsdóttur frá því ég sem unglingur las bækurnar um ambáttina Korku - Við Urðarbrunn (1993) og Nornadóm (1994). Það er á fárra færi að skrifa sögulegar skáldsögur sem eru í senn lifandi og trúar heimildum en þetta getur Vilborg. Hafandi nýlega endurnýjað kynnin við Njálu þar sem Auður Djúpúðga kemur fyrir (reyndar sem Unnur) var ég mjög spennt að fá Auði í hendurnar.

Margt er hér vel gert - texti Vilborgar er blátt áfram og einfaldur (sem er sjálfsagt ein ástæða þess að hann átti svo greiða leið að unglingshjartanu) og Auður er sérlega áhugaverð kona. Aðrar persónur eru einnig spennandi en fá kannski ekki alveg nægilegt rými til að blómstra. Ég saknaði þess að fá meira að vita um hina sjáandi hálfsystur Auðar, Jórunni mannvitsbrekku, sem verður óvart völd að skelfilegum atburði og einnig hina grimmu en örvæntingarfullu ambátt Eðnu.

Sagan er svolítið hæg í gang þar sem miklum tíma er varið í lýsingar á því hvernig munkurinn Gilli snýr Auði til kristinnar trúar. Fyrir nútímafólk verður að viðurkennast að það er mun áhugaverðara að lesa hvernig Kolka (í Við Urðarbrunn) kynnist fjölkynngi heiðninnar en hlusta á Gilla rekja söguna af Jesú Kristi. Það má kannski segja að það sé við hæfi að rifja hana upp núna yfir hátíðarnar en hér er óneitanlega verið að fjalla um efni sem hinn almenni lesandi er kunnugur og því ekki eins upprifinn yfir trúarbragðafræðslunni og Auður verður.

Það sem bókin gerir vel er hins vegar að lýsa því sem áðurnefndur lesandi ekki þekkir - daglegu lífi fólks fyrir rúmum þúsund árum og það er hér sem skáldsagan fer á flug. Lýsingar á matarvenjum, vinnu og skemmtan eru lifandi og skemmtilegar en hæst rís sagan í frásögnum af fæðingunum tveimur og brúðkaupi Auðar og Ólafs Hvíta. Þar nær Vilborg að gera svo vel það sem hún gerir best - að vekja til lífsins löngu horfna fortíð og lýsa í smáatriðum án þess að lesandinn verði meðvitaður um upplýsingaflæðið því vitund sögunnar hverfur aldrei frá söguhetjunni og tilfinningum hennar. Við stígum með Auði í brúðarlaugina, greiðum hár, kveðum vísur og búum hana undir framtíðina um leið og við skynjum ótta hennar og eftirvæntingu fyrir því sem koma skal. Framtíðin er einmitt óræð í sögulok svo mögulega er von á fleiri bókum um Auði og sjálf er ég spennt að heyra hvernig hin djúpúðga endar á Íslandi.

Maríanna Clara

1 ummæli:

  1. Hlakka til að lesa þessa.

    Sögulegar skáldsögur eru stundum betri en maður býst við.

    Einu sinni opnaði ég "A Search for The King" (Vidal) með hangandi hendi, en varð umsvifalaust hugfanginn af leit hins trúfasta Blondels (hefði mátt vera leit hinnar trúföstu Blondel) að Herra sínum og Meistara, Ríkharði ljónshjarta, sem hafði týnst í krossferð.

    Þarna þældist ég um Evrópu á hámiðöldum, barðist við dreka, storkaði kastalaherrum, braust útúr dýflyssum, bjargaði prinsessum og hleypti stríðsfákum á skeið.

    Og missti næstum af því öllu vegna fordóma.

    Baldur Gunnarsson

    SvaraEyða