Kate Atkinson er mikill snillingur og jafnvel myndi ég segja að hún væri ein af mínum uppáhaldsskáldkonum. Hún hóf feril sinn fagurbókmenntameginn við borðið og hlaut mikið lof fyrir bækur eins og Behind the Scenes at the Museum (1995) og Emotionally Weird (2000). Engu að síður hóf hún fyrir nokkrum árum að skrifa reyfara og þessi Druslubókadama syrgir svo sannarlega ekki þá ákvörðun enda mikill reyfaraaðdáandi.
Fyrsti reyfarinn hennar er einmitt Case Histories sem Bjartur gefur út núna fyrir jólin sem Málavexti. Það var ekki laust við að ég fengi örlítið hland fyrir hjartað þegar ég sá bókina enda fátt verra en lélegar þýðingar á uppáhaldsbókum manns. En áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar - svo gríðarlega ástæðulausar að Málavextir fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem best þýdda bókin og þá gat ég auðvitað ekki stillt mig um að glugga í hana aftur!
Málavextir er spennandi reyfari en um leið margslungin frásögn um söknuð og missi - snilldarlega samantvinnuð. Hér fer mörgum sögum fram samtímis og ég mæli ekki sérstaklega með því að lesendur lesi tvo kafla núna og haldi svo áfram milli jóla og nýárs þegar um hægist - það er nauðsynlegt að halda vel á spöðunum því Atkinson hoppar á milli tíma og persóna og lesandinn þarf að gera slíkt hið sama. Til hjálpar heita kaflarnir eftir þeirri persónu sem fjallað er um hverju sinni og oft er ártalið láta fljóta með til öryggis.
Fyrrverandi lögreglumaðurinn og núverandi einkaspæjarinn Jackson Brodie er límið sem heldur sögunni saman. Hann er passlega þunglyndur og aumkunarverður en um leið lúmskt sjarmerandi og prinsipp maður eins svo og margir kollegar hans gegnum bókmenntasöguna. Hann er reyndar auðsæranlegri en margir því þótt Málavextir séu sjálfstæð skáldsaga munu atburðir þessarar bókar draga dilk á eftir sér í næstu bókum - hann er því ekki óhagganlegur og óbreytanlegur eins og t.d. Sherlock Holmes sem gat sáttur gripið fiðluna og ópíumpípuna að loknu hverju leystu máli.
Þótt Málavextir séu reyfari og glæpurinn leystur í sögulok eru ekki neinar snyrtilegar lausnir, hvorki fyrir Brodie né aðrar persónur - til þess er lífið of flókið og kaótískt - en þótt tilveran sé stundum erfið og grimm gefur Atkinson alltaf einhverja von. Enginn atburður er svo ömurlegur að ekki sé að finna spaugilega hlið en um leið er gleðin aldrei svo fölskvalaus að ekki sé einhver angurværð. Gamanið er stundum grátt en sjaldan fyrirsjáanlegt:
„Útför Victors gaf hugtakinu naumhyggja nýja og strangari merkingu. Engir voru viðstaddir athöfnina nema Jackson, Amelía og Júlía, nema maður teldi með Victor sjálfan sem rotnaði hægt og hljóðlaust í ódýru spónalögðu kistunni sinni sem var gersneydd öllu blómaskreyti […] „Innréttingarnar hérna eru svo ömurlegar,“ hvíslaði Júlía hátt og Amelía sussaði eins og þau væru í leikhúsi og Júlía ókunnug kona sem truflaði sýninguna. „Hvað?“ sagði Júlía reiðilega. „Hann fer nú varla að stökkva upp úr kistunni“. (bls. 110-112) Atkinson lýsir persónum sínum af ómótstæðilegri blöndu af hreinskilni og húmor - hér eru allir breyskir en enginn gjörsneyddur samúð.
Þýðingin er eins og áður sagði hið besta mál en eitthvað hefur texti á bókarkápu skolast til því þar stendur að fyrsta bók Atkinson sé Behind the Scenes at the Museum og síðan hafi hún skrifað fjórar skáldsögur og eitt smásagnasafn. Þessar upplýsingar voru reyndar hárréttar þegar Málavextir komu fyrst út í Englandi 2004 en síðan þá hefur hún skrifað tvær aðrar skáldsögur um Jackson Brodie; One Good Turn (2006) og When will there be Good News (2008) sem maður gæti ímyndað sér að kæmu út hér fyrir jólin 2010 og 2011 ef þessi gengur vel. Hún á það í öllu falli innilega skilið!
Maríanna Clara
Kate Atkinsson er yndislegur höfundur, alveg ótrúlega fær. Ég hef lesið flest eftir hana og það sem meira er ... daddaraddadaaa ... ég á bók eftir hana áritaða.
SvaraEyðaöfund - öfund - hvar komstu yfir slíkan grip?
SvaraEyðaEn hver þýddi svona vel?
SvaraEyðaÉg held ég sé ekki í lagi!!!
SvaraEyðaHinn stórgóði þýðandi heitir Elísa Björg Þorsteinsdóttir og að sjálfsögðu átti að geta hennar í umfjölluninni hér að ofan...Druslubókardama biður forláts...