16. desember 2009

“... hún hefði getað sparkað í alla þjóðina”: Karlsvagninn eftirKristínu Marju

Karlsvagninn er bók um sálarástand íslenskrar þjóðar, um þjóð í fjötrum hugarfars. Geðlæknirinn Gunnur segir okkur söguna : setur eigið líf á svið fyrir unglingsstúlkuna Hugrúnu Lind dóttur Sunnu Lindar innanhússhönnuðar – kryfur fortíð sína, skoðar hana og ber saman við hegðun og viðbrögð Hugrúnar Lindar (Hindar). Hlutverk Hindar í bókinn er í raun að skapa vettvang fyrir sjálfsskoðun Gunnar – stelpan sjálf og hennar aðstæður skipta máli að svo miklu leyti sem þær spegla og styrkja sögu Gunnar sjálfrar.

Það er eitthvað mikið að í íslenskri þjóðarsál. Allt slétt og fellt á yfirborðinu en undir niðri kraumar bræði og örvænting. Örvæntingin brýst út á ýmsa vegu. Á því tímabili í lífi Gunnar þegar hún er einstæð móðir með ungan son lætur hún eftir sér í pirringi sínum og þreytu að sparka í bíldrusluna sína þegar hún neitar að fara í gang, en langar mest til að sparka í alla þjóðina “duglegu íslensku þjóðina sem lítur á vinnuna sem hina æðstu dyggð þótt hún breytist í þrælahald á stundum, þjóðina sem lengir sífellt vinnudaginn. . . Þjóðina sem hefur alltaf álitið sig betri en aðrar þjóðir af því að hún er svo dugleg og sterk. Skilgreinir sig sem slíka, selur sig sem slíka” (bls 138).  Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn. Við erum ekki að tala um neina nýlundu.  Það er ekki einungis verið að fjalla um firringu gróðæriskynslóðanna heldur leiða okkur í skilning um það að vandamál okkar sem þjóðar liggja miklu dýpra. Hugsunarleysið, harkan, yfirborðsmennskan – allt hefur þetta fylgt okkur lengi og gengið í arf kynslóða á milli.

Einsog í öðrum bókum Kristínar Marju er í Karlsvagninum nægur efniviður til að moða úr. Þó sagan sé á margan hátt ólík t.d. Karitasarbókunum eru engu að síður ákveðnir þræðir og minni sameiginleg: Áherslan á konurnar – þær eru í forgrunni og maður fær einhvernveginn á tilfinninguna að karlarnir séu hálf óþarfir – með nokkrum undantekningum þó.  Vatn bæði flæðandi og frosið sem skilgreinir persónurnar.

Ég hefði alveg verið til í lengri bók – meiri upplýsingar og lýsingar á Gunni og hennar lífi. En maður getur auðvitað ekki ætlast til að höfundur skrifi trekk í trekk doðranta á borð við Karitasarbækurnar. Mann má samt langa þegar um er að ræða texta eftir jafn færan og skemmtilegan höfund og Kristínu Marju.

Sigfríður

Engin ummæli:

Skrifa ummæli