6. desember 2009

Bankster

banksterÉg var að ljúka við Bankster eftir Guðmund Óskarsson. Bókin höfðaði engan veginn til mín en ég þrælaði mér í gegnum hana alla í þeirri von að úr rættist, sem því miður ekki varð. Sagan fjallar um Markús og Hörpu, unga bankastarfsmenn sem misstu vinnuna í fyrrahaust. Markús skrifar dagbók í atvinnuleysinu og það er sem sagt bókin Bankster. Þessi fyrrverandi bankamaður er alveg óskaplega óáhugaverð  persóna, drepleiðinlegur hreinlega og einhvernveginn alveg furðulega laus við að velta fyrir sér í víðara samhengi því sem gerst hefur í þjóðfélaginu og í leiðinni umturnað lífi hans og annarra. Þó að bókin sé ágætlega skrifuð og höfundurinn greinilega með rithæfieika þá náði stíllinn ekki að heilla mig. Þar sem þetta er blogg þar sem allt er leyfilegt innan ramma laganna þá nenni ég ekki að skrifa meira um Bankster. Þeir eru örugglega margir sem eru hrifnir  af bókinni (hún er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna), lesið hana endilega og mótmælið mér ef ykkur finnst ástæða til.

Útúrdúr
Undanfarið hef ég tekið eftir að sífellt fleiri tala um Hafnfarfjörð með greini. Í sjónvarpsfréttunum í gær og í kvöld var til dæmis talað um Hafnarfjörð-inn. Þessa málþróun má líka sjá í Bankster. Eftirfarandi dæmi rakst ég á í bókinni:

„Þau buðu upp á fiskisúpuna í Hafnarfirðinum í gær. “ (28).
„Snemma í mánuðinum var gengið út frá því að við yrðum í Hafnarfirðinum á aðfangadag ... .“ (71).

Eru einhverjir með kenningar um hvenær þetta byrjaði og hvernig á þessu stendur?

Þórdís

6 ummæli:

  1. Kristín í París6. desember 2009 kl. 22:18

    Ég held að það sé í lagi að setja greini á staðarheiti þegar maður er í raun að vísa til ákveðins heimilis á staðnum. Á mínu heimili var t.d. alltaf vísað til ákveðins heimilis í Garðabæ þannig.

    SvaraEyða
  2. En fólk segir t.d.: "Fótboltaleikurinn í Hafnarfirðinum í gær", "jólaþorpið í Hafnarfirðinum", "við fórum í bíó í Hafnarfjörðinn" o.s.frv.

    SvaraEyða
  3. Kristín í París7. desember 2009 kl. 06:59

    Ég hef ekki tekið eftir þessu, en dæmin úr bókinni sýnist mér stemma við mína getgátu.

    SvaraEyða
  4. Það er einhver greinissýki í gangi, t.d. undarlega mikil tilhneiging til að troða honum á nöfn fólks. Ég hef algjört ofnæmi fyrir því.

    SvaraEyða
  5. Eigum við að búa til lista yfir leiðinlegustu bækur sem hafa verið tilnefndar til bókmenntaverðlaunanna? Lúx eftir Árna Sigurjónsson er sennilega efst á mínum lista (en ég er ekki búin að lesa Bankster).

    SvaraEyða
  6. Verst að ég er svo fljót að gleyma hvað hefur verið tilnefnt en það mætti örugglega alveg rifja það upp. En við þurfum allavega að taka verstu titlana í bókatíðindum þetta árið.

    SvaraEyða