Í fyrradag leit ég inn í Góða hirðinn en þá var þar jólahreinsunarátak í gangi og allar bækur gefins. Það er ekki eins og bækur kosti almennt stórar upphæðir í nytjamarkaðinum en engu að síður var þarna fólk með fullar körfur, t.d. flíspeysumaðurinn sem selur í Kolaportinu og tvær konur sem hrúguðu á sig ástarsögum. Ég ætlaði ekki að nenna að grípa neitt með mér en ákvað síðan að hirða nokkrar ævi- og endurminningabækur. Maður getur aldrei lesið of mikið af endurminningum fólks, sérstaklega ef það er ekki frægt. Endurminningar frægra komast oft ekki í hálfkvisti við minningar þeirra ófrægu sem eru ekki jafn mikið að passa upp á orðsporið og ímyndina og betri borgararnir og eru ekki með einhverja góða höfunda í liði með sér. Það sem ég fann var þó flest eftir respekteraða.
Meðal bókanna sem ég hirti er ævisaga hafnfirskar konu sem giftist ekkjumanni eftir ömmusystur mína, falsaði passann sinn svo hún taldist tíu árum yngri en fæðingarvottorðið sagði til um og varð síðar prófessor í Vínarborg. Ég tók líka eina eftir Nönnu Rögnvaldar og Undir kalstjörnu lenti í bunkanum ásamt einhverju fleiru. Ein bókanna sem ég tók með heim er Úti að aka á reykspúandi Kadilakk yfir Ameríku eftir Ólaf Gunnarsson og Einar Kárason, sem kom út fyrir þremur árum. Þrátt fyrir að eintakið sé stinkandi af viðbjóðslegum, inngrónum reykingafnyk þrælaði ég mér í gegnum það í gærkvöldi. Já og allt í lagi með þessa bók, oft gaman að henni þó að ég skeiðaði hratt yfir allar frásagnir af bílum. Þeir skrifa aldrei illa þessir kallar og gátu alveg fengið mig til að flissa þó að ég fengi ekki neina nostalgíu yfir þeim tíma þegar ég bjó í USA, klæddist snjóþvegnum gallabuxum og ók um á Pontiac (frekar bara tremmi yfir þessu úthverfalandi Satans). Efnið er kannski ekki beint það ferskasta, Route 66 er voða mikið tekinn og einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að það sé til tonn af sögum sem gerast á þeim ágæta vegi. En þeir þvælast sem sagt þarna yfir heimsálfuna á þremur vikum nokkrir kallar saman, á einhverjum alveg fáránlegum handónýtum fornbíladruslum sem drulla olíu um allt og ósa eins og kolatogarar, allir meira og minna hálfnevrótískir, svefnlausir og sveittir og stöðugt að móðgast hver við annan út af einhverjum tittlingaskít. Bókin er skreytt misgóðum ljósmyndum eftir útgefandann JPV, dálítið gaman að þeim.
Nú man ég alls ekki hvað ég hafði hugsað mér að skrifa, það var eitthvað allt annað en það sem ég sit uppi með. Skítt með það, ég læt þetta standa. Hér má nefnilega skrifa um það sem manni sýnist, svo lengi sem það hefur eitthvað að gera með bækur.
Þórdís
Ég vildi að ég hefði þekkt þig þegar þú klæddist snjóþvegnum fatnaði og keyrðir um á Pontiac. Einhverra hluta vegna ímynda ég mér að Pontiacinn hafi verið úlfalda gulbrúnn.
SvaraEyðaNei, hann var hvítur með ljósbláum flauelssætum að innan. Eftir að þvottabirnirnir gerðu sig heimakomna í honum eina nóttina var hann mjög skítugur að innan og allur í fótsporum á húddinu. Annar hver bær í Norður-Ameríku er eins og maður sé fastur í Simpson-þætti.
SvaraEyðaEða sætin voru reyndar frekar dökkblá.
SvaraEyðaúllalla...dásamlegt. Getur þú ekki skrifað bók um þetta'
SvaraEyðaÞað er nú farið að fenna yfir þetta tímabil lífs míns, en fyrir þokkalega fyrirframgreiðslu og með hjálp Páls Valssonar gæti ég hugsanlega rifjað ýmislegt upp :)
SvaraEyðaJá, svo er auðvitað bara málið að ljúga í eyðurnar.
SvaraEyðaMig langar alltaf í kaffi þegar ég les ykkur hérna. Þetta er hrós.
SvaraEyðaJá - ég væri til í að lesa þá bók. Og það er um að gera að kríta nógu liðugt í eyðurnar. Bara betra.
SvaraEyðaHvað heitir ævisaga hafnfirsku konunnar?
SvaraEyðaÞað er ævisaga Svanhvítar Egilsdóttur. Guðrún Egilson skrifar hana. Ég veit ekki hvað hún er djúsí.
SvaraEyða