Sögusvið bókarinnar Votlendi eftir Charlotte Roche, er sjúkrahúsherbergi þar sem hin átján ára Helen liggur vegna rassaðgerðar sem hún þurfti að gangast undir eftir ógætilegan rakstur. Við fylgjum henni og vangaveltum hennar alveg frá því fyrir aðgerðina og þar til henni er sagt að fara heim nokkrum dögum eftir hana. Á þessum tíma gerist ekki svo mikið, en við fáum þó að fræðast heilmikið um allt sem viðkemur kynfærum, rassi og líkamsvessum söguhetju. Það skiptir eiginlega ekki máli hvar maður opnar bókina og byrjar að lesa; maður dettur alltaf niður á eitthvað um kynlíf, vessa, hárvöxt eða sjálfsfróun. Þetta getur verið nokkuð skemmtilegt (og um að gera að nota þetta sem partýskemmtiatriði; fletta tilviljunarkennt upp í bókinni og lesa upphátt þá málsgrein sem maður lendir á – það hlýtur að vekja kátínu). En mér finnst alveg merkilegt, í bók sem fjallar aðeins um ofangreind atriði (kynfæri, rass og líkamsvessa o.s.frv.), hversu lítið er af efni sem virðist geta örvað lesanda kynferðislega. Það þarf alls ekki að gera ráð fyrir því að runkpásur trufli lesturinn nokkuð að ráði. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þeirra viðbragða sem bókin hefur fengið, hún hefur til dæmis verið kölluð „sjálfsfróunarbæklingur“ í þýsku dagblaði. Aftan á bókinni er það líka tekið fram að bókin hafi ýmist verið kölluð klám eða meistaraverk, en það eru skemmtilegar andstæður sem segja kannski meira um bókina en „klám“ eða „meistaraverk“ gera hvort um sig. Þetta veldur því að manni verður ef til vill hugsað til annarrar bókar, Lolitu, sem einnig hefur verið kölluð hvort tveggja. Þær eru þó gerólíkar, bæði að efni og í stíl, og hin síðarnefnda skrifuð af mun meira listfengi. Aðrar bækur sem mér datt í hug við lestur Votlendis voru Saga augans, vegna kynferðislegra lýsinga hennar sem ganga mjög langt og Útlendingur Camus, vegna tómhyggjulegs stíls og hve utangarðs persónan virðist vera í samfélaginu – aðrir hafa bent á líkindi milli söguhetju Votlendis, Helen, og Holden Caulfield úr Bjargvættinum í grasinu.
Í raun má segja að í frásögnum Helen af líkama sínum sé hún alveg blygðunarlaus. Hún er uppfull af tilraunamennsku og greddu, sérviskum og því sem mætti kalla „afbrigðilegar hvatir“. Það sem mér þótti skemmtilegast við kynlífslýsingarnar var að það var eins og hún vildi helst hafa þær sem nákvæmastar, hráastar (á kostnað þess að þær séu æsandi) – þetta má til dæmis sjá á orðinu sem hún notar yfir sníp: perlurani. Aðalsögupersóna bókarinnar, Helen, ögrar hefðbundnum hugmyndum um almennt hreinlæti og kvenleika. Hún trúir því ekki að sýklar geti haft svo skaðleg áhrif á líkamann og sannreynir kenningar sínar til dæmis með að strjúka píkunni upp við almenningsklósettsetur borgarinnar. Hún tekur það svo sérstaklega fram, sigri hrósandi, að hún hafi aldrei fengið sveppasýkingu. Helen sér fegurðina í vessunum og finnst tilhugsunin um að dreifa eigin vessum kitlandi – hvort sem hún nær að lauma munnvatni í vatnsglas sjúkrahússstuðningsfulltrúans eða þvagi sínu undir klossa læknanema. Hún heillast líka af því að innbyrða vessa annarra og reynir ítrekað að vera dónaleg við starfsfólk á pítsustöðum vegna sögu sem hún heyrði um stelpu sem fékk senda heim pítsu með sæði úr fimm karlmönnum, sem voru þreyttir á óþolinmæðinni í henni.
Það má segja að þessi bók sé feminismi, dónaskapur, ögrun, eitthvað ógeðslegt og skítugt eða dásamlegt og frelsandi. Mér leiddist hún að minnsta kosti aldrei.
Guðrún Elsa Bragadóttir
Mér finnst þýðingin á þessari bók býsna vel heppnuð. Þýðandinn (Bjarni Jónsson) kemst hjá því, sem hefði verið svo auðvelt, að gera þetta tilgerðarlegt með tilgerðarlegum texa (ég er ekki með bókina en dettur í hug orð á borð við sköp og eitthvað í þá áttina). Mér fannst þessi bók hressandi þó að vissulega sé hún dálítið "endalaus" í miðjunni, í lokin sér maður vel tragíkina í lífi þessarar stelpu.
SvaraEyðaSammála því - þýðingin er mjög góð og textinn aldrei tilgerðarlegur. Svo er titillinn Votlendi (ísl. þýð. á Feuchtgebiete) rosalega flottur.
SvaraEyðaHún heitir Wetlands á ensku svo það hafa fleiri fengið þá góðu hugmynd...En já titilinn er góður!
SvaraEyðaÞegar ég keypti þessa bók fyrir ári (er reyndar ekki enn búin að lesa hana) horfði þýsk vinkona mín á mig í forundran og spurði mig af hverju í ósköpunum ég hefði verið að kaupa þennan viðbjóð, hún hafði gefist upp á blaðsíðu tvö eða þar um bil. Mig grunar nú að ég hafi aðra skoðun á málinu en hún - en verð að fara að koma því í verk að lesa bókina til að komast að því.
SvaraEyðaÞað kom mér á óvart að heyra af því hvað margir lesendur hafa tekið bókina nærri sér - þegar maður les um bókina á netinu er oft minnst á það að liðið hafi yfir einhverja af Þjóðverja sem mættu á upplestur (t.d. hér: http://www.guardian.co.uk/books/2009/feb/01/roche-wetlands-review). En það eru kannski bara einhverjar ýkjur..
SvaraEyðaEr það ekki bara auglýsingatrikk? Er ekki mjög sterk "markaðssetningarlykt" af þessari bók?
SvaraEyðaÞýsk ídentítetskrísa? Læt ykkur vita hversu oft ég rúnkaði mér við lesturinn.
SvaraEyðaHvorki Kolbrún né Páll Baldvin skildu neitt í þessari bók. Ég efast reyndar um að þau hafi lesið hana til enda. Minntust þau eitthvað á femínisma eða þá krísu stelpunnar út af foreldrum sínum sem hún þráir að nái saman? Ég held ekki.
SvaraEyðaHæ, ég heiti 'Muhammed Salah' langar bara að deila reynslu minni með heiminum um hvernig ég fékk ást mína aftur og bjargaði hjónabandi mínu ... Ég var gift í 7 ár með 2 börn og við lifðum hamingjusöm þar til hlutirnir fóru að verða ljótir og við áttum í slagsmálum og rifrildi næstum í hvert skipti ... það versnaði á þeim tímapunkti að hún sótti um skilnað ... Ég reyndi eftir fremsta megni að láta hana skipta um skoðun og vera áfram hjá mér því ég elskaði hana af öllu hjarta og vildi ekki missa hana heldur allt gekk bara ekki ... hún flutti úr húsinu og hélt samt áfram að sækja um skilnað ... ég bað og reyndi allt en samt, ekkert gekk. Byltingin kom þegar einhver kynnti mig fyrir þessum frábæra, frábæra galdramanni sem að lokum hjálpaði mér ... Ég hef aldrei verið aðdáandi slíkra hluta en ákvað bara að reyna treglega vegna þess að ég var örvæntingarfullur og átti ekkert val ... Hann gerði sérstakar bænir og notaði rætur og kryddjurtir ... Innan 7 daga hringdi hún í mig og vorkenndi öllu tilfinningalega áfallinu sem hún hafði kostað mig, flutti aftur heim og við höldum áfram að lifa hamingjusöm, börnin eru líka hamingjusöm og við eigum von á þriðja barninu okkar. Ég hef kynnt hann fyrir mörgum pörum með vandamál um allan heim og þau hafa haft góðar fréttir ... Hélt bara að ég ætti að deila reynslu minni vegna þess að ég trúi því mjög að einhver þarna úti þurfi á því að halda ... Þú getur sent honum tölvupóst í gegnum (drpellar@gmail.com) Ekki gefast upp ennþá, munurinn á 'Venjulegur' og 'Extra-Venjulegur' er 'Extra' svo leggðu þig meira fram við að bjarga hjónabandi þínu / sambandi.
SvaraEyða