22. janúar 2010

Hver skrifaði bækurnar eftir Stieg Larsson?

stieg

Enn eina ferðina er allt að verða tjúllað út af Stieg heitnum Larssyni. Vinur hans, Kurdo Baksi, gaf nýlega út bókina Min ven Stieg Larsson þar sem hann segir Stieg hafa verið meðalmenni í blaðamannastétt en sambýliskona Stiegs segir bókina óhróður og níð. Og ekki nóg með það, fyrrverandi kollegi Stiegs úr blaðamannastéttinni, Anders Hellberg, segir í meira lagi grunsamlegt að Larsson hafi skrifað bækurnar vinsælu um Lisbeth Salander og Mikael Blomqvist. Hann grunar kærustuna, Evu Gabrielsson, hreinlega um að hafa stýrt pennanum. Anders Hellberg segir að Stieg hafi verið hugmyndaríkur rannsakandi en að hann hafi hreinlega ekki kunnað að skrifa og hafi Eva Gabrielsson verið með puttana í handritunum sé það ekki í fyrsta skipti sem ástkonur karlkyns rithöfunda hafi átt meiri þátt í þeirra verkum en almennt sé viðurkennt. Anders Hellberg heldur því fram að til þess að skrifa sögur á borð við verk Stiegs Larssons þurfi menn vissulega að búa yfir kostum sem höfundurinn (meinti) hafi haft en hins vegar hafi skriftir verið hans veika hlið. Hellberg fullyrðir að eftir að hafa árum saman, oft kvöld eftir kvöld, lesið það sem Stieg skrifaði, hafi hann gert sér grein fyrir því að sjálft handverkið var ekki hin sterka hlið þessa fjölhæfa manns. Fyrir þá sem vilja lesa meira um deilurnar eru hér krækjur á grein Anders Hellbergs í Dagens nyheter og meira um deilurnar í Politiken. En á meðan klögumálin ganga á víxl eru bækurnar rifnar út og um helgina ætla ég að horfa á bíómyndina um stúlkuna sem lék sér að eldinum.

Þórdís

8 ummæli:

  1. Kristín í París22. janúar 2010 kl. 11:56

    Ég var einmitt að klára fyrstu bókina á íslensku. Sagan er fín, Lisbeth er töff og Mikael er skemmtilegur konstrast við hana. En mér finnst samt bókin ekkert sérlega mikið snilldarverk, ekki miðað við þá athygli sem hún hefur fengið. Ég get ekki komið með skýr dæmi, en ég man sérstaklega eftir lokum einhvers kafla þar sem sagt er eitthvað á þessa leið: Mikael og Lisbeth voru greinilega komin af stað í mál sem var mun stærra í sniðum (eða alvarlegra eða eitthvað) en þau hafði grunað. Æ, ég veit það ekki, komu svona óþarfa setningar og langlokur stundum sem fóru pínulítið í taugarnar á mér. Svo kannski er það rétt að hann hafi bara ekkert verið sérlega góður penni hann Monsieur Larsson?

    SvaraEyða
  2. Já, ég rak augun í þetta í morgun. Ég held að þetta snúist meira um sífellt örvilnunarkenndari tilraunir DN til að selja dagblöð en nokkuð annað. Kulturhlutinn er smám saman að breytast í einhvers konar slúðurrit - skemmst að minnast heimatilbúinna manifestóslagsmála frá því síðasta haust - http://www.norddahl.org/2009/11/manifesto-fyrir-nyjan-aratug-i-bokmenntum/

    SvaraEyða
  3. Það er sitthvað til í þessu Eiríkur Örn. Blöð sem sífellt seljast í færri eintökum bregðast við slúðurvæðingunni!

    SvaraEyða
  4. Kristín, spennan byrjar ekki fyrir alvöru fyrr en um miðja bók nr. 2.

    SvaraEyða
  5. Það segir auðvitað ekkert um ritfærni hans sem höfundar á tíunda áratugnum hvernig hann skrifaði sem blaðamaður á þeim sjöunda og áttunda. En hafi Larsson verið óskrifandi á það svosem við fleiri höfunda. Til þess eru ritstjórar og prófarkalesarar forlaga.

    SvaraEyða
  6. Heldur betur Arngrímur, sumir kunna varla að draga til stafs :)

    SvaraEyða
  7. Mér dauðleiddust þessar bækur. Mér verður flökurt af því að hugsa um þær. Mér fundust þær afspyrnuilla skrifaðar, en ég virðist einhverra hluta vegna vera einn um þá skoðun. Þetta var meinhorn dagsins.

    SvaraEyða
  8. Takk Gunnar, við elskum meinhorn. Lét Bjurman þig alveg ósnortinn?

    SvaraEyða