26. janúar 2010

Múmínálfar í sextíu og fimm ár

Árið 2010 er haldið upp á það víða að sextíu og fimm ár eru síðan fyrsta bókin um Múmínálfana kom út. Bókin heitir Småtrollen och den stora översvämningen og þar birtast í fyrsta skipti opinberlega Múmínsnáðinn og mamma hans. Þau voru pínulítið mjóleitari en síðar varð en annars sömu sætu mæðginin og við þekkjum flest. Ári síðar, 1946, kom bókin sem er forveri þeirrar stórmerkilegu bókar sem við köllum Halastjörnuna en hún hét upphaflega Kometjakten. Síðar var henni breytt dálítið og þá fékk hún nafnið Mumintrollet på kometjakt en árið 1968 fékk hún titilinn Kometen kommer, aftur aðeins endurunnin. Pípuhattur galdrakarlsins kom 1948 og síðan þær bækur sem við þekkjum (það er eð segja ef við höfum getað útvegað okkur eintök) Örlaganóttin 1954, Vetrarundur í Múmíndal 1957 og Eyjan hans Múmínpabba 1965.

Tove Jansson fæddist í Helsingfors 1914 og lést árið 2001. Foreldrar hennar voru Viktor Jansson, myndhöggvari frá Helsingfors og Signe Hammarsten, prestsdóttir frá Stokkhólmi, myndskreytir og frímerkjateiknari. Þau höfðu kynnst í myndlistarnámi í París og þar stundaði dóttirin líka nám löngu síðar. Tove starfaði sem myndlistarkona og rithöfundur í yfir sjötíu ár. Hún hóf ferilinn formlega árið 1928, þá 14 ára, sem myndskreytir í tímariti og fyrstu skopteikningarnar birti hún 15 ára. 19 ára átti hún fyrst verk á sýningu en 1943 hélt Tove sína fyrstu einkasýningu, þá var hún byrjuð að skrifa sögur sem birtust í ýmsum tímaritum og árið 1945 birtist, sem fyrr segir, fyrsta múmínálfasagan í bókabúðum, það var sem sé  Småtrollen och den stora översvämningen, en bókin var gefin út samhliða í Stokkhólmi og Helsingfors. Bókin fékk engar sérstakar viðtökur og aðeins einn ritdómur birtist um hana en á eftir henni fylgdu Kometjakten/Halastjarnan (1946) og Pípuhattur galdrakarlsins (1948) og þá má segja að höfundurinn hafi verið búin að skapa sér rithöfundarnafn í Finnlandi og Svíþjóð. Á 6. áratugnum varð Tove Jansson stór höfundur á heimsvísu, myndabækur um múmínálfana komu út í Englandi, bækurnar komu síðan út ein af annarri í ýmsum löndum, sett voru upp leikrit um múmínálfana á Norðurlöndum og snemma var hugmyndafræði og heimspeki þessara verka rædd á menningarsíðum blaða og í háskólum.

Margt hefur verið skrifað um Múmínfjölskylduna og margt á eftir að skrifa um þá fjölskyldu og vini þeirra en hér er krækja í viðtal við bróðurdóttur Tove Jansson sem birtist í Dagens Nyheter um helgina.

Þórdís

7 ummæli:

  1. Er ekki kominn tími til þess að endurútgefa þessar bækur á íslensku?

    SvaraEyða
  2. Það er alltaf verið að spyrja um þessar bækur í bókabúðum, svo mikið veit ég.

    SvaraEyða
  3. Ég hef stundum velt fyrir mér að fjölfalda mínar gömlu, binda inn og selja í sjóræningjaútgáfum á svörtum markaði.

    SvaraEyða
  4. Vetrarundur í Múmíndal og Örlaganóttin voru endurútgefnar fyrir nokkrum árum en ég held að þær hafi selst frekar fljótt upp. Ég myndi kaupa sjóræningjaútgáfur!

    SvaraEyða
  5. Kristín í París26. janúar 2010 kl. 21:38

    Mig langar líka í Múmínálfana, jafnvel í sjóræningjaútgáfu. Er ekki bara málið að koma þessu á rafrænt form?

    SvaraEyða