1. mars 2010

Eldhústöfrar

Ég eeeeeelska uppskriftabækur - og þessi ást mín er í engu samræmi við afrek í eldhúsinu. Löngu áður en ég kunni svo mikið sem sjóða kartöflur gat ég setið og blaðað í blöðum og bókum um matreiðslu. Ég meina, what´s not to love? Ég elska mat – elska bækur og matreiðslubækur sameina þetta tvennt.

Í þrjátíu ár kunni ég ekki að töfra fram neitt nema ræs krispís kökur – mér til varnar verður að segjast að þær voru (og eru) sérstaklega góðar hjá mér. En svo allt í einu einn daginn kom ég heim úr vinnunni og bjó til kjúklingarétt, daginn eftir steikti ég nautasnitzel og á þriðja degi bjó ég til grænmetislasagna – þetta var nú svona misgott en fyrstu skrefin voru tekin og það er fyrir öllu. Síðan hef ég ekki litið um öxl nema rétt til að gera ræs krispís kökuna góðu öðru hverju.IM-1697-Mickey-Mouse-Cookbook-1975

En matreiðslubækur eru auðvitað ekki allar jafn spennandi eða jafn góðar. Ég er voða hrifin af bókum sem sýna með góðum myndum hvernig á að gera ákveðna „einfalda“ hluti sem „allir“ kunna. Cook Simply Everything (ritstj. Jill Norman, DK 2007) er ein slík og Stóra matreiðslubókin hennar Nönnu Rögnvaldar önnur. Þar er t.d. sýnt hvernig karamellan á að líta út í pottinum á mismunandi þroskastigum og þá er öruggt að maður er á réttri leið. Þar má líka sjá hvernig er best að skera niður alls kyns misflókið grænmeti og ávexti og hvernig á að úrbeina kjúkling (hef reyndar ekki prófað þetta síðastnefnda).

Það verða helst að vera myndir í matreiðslubókum...nema hugsanlega Silfurskeiðinni (Bjartur 2009) af því maður veit að það eru þrautreyndir réttir. En það er samt miklu skemmtilegra að hafa myndir. Textinn „kjúklingapottréttur með rótargrænmeti“ kitlar bragðlaukana ekki á sama hátt og stór (helst emaléraður) pottur með girnilegu mallandi soði sem kjúkingaleggir og gulrótar endar stinga höfði (eða legg) tælandi upp úr. Að ég tali nú ekki um eftirrétti – „súkkulaðimús með ís og berjum“ hljómar svo sem ágætlega en myndirnar t.d. í Súkkulaðiást ....(Nói og Síríus 2009) ach maður hreinlega tárast!

Fyrsta matreiðslubókin sem ég eignaðist var hin fagurlega myndskreytta Matreiðslubókin mín og Mikka (Setberg 1980). Sjálf man ég ekki eftir að hafa tekist á við neitt þar nema Karamelluepli Gláms sem mislukkuðust hroðalega, urðu glerhörð og enduðu í ruslinu en það dró ekki úr gleði minni með bókina sem ég á enn og ég kunni myndirnar utan að.

Ég þoli hins vegar illa þegar bækurnar er nískar á upplýsingar og neyða mann til að giska til að fylla upp í eyðurnar: „steikið rækjurnar við hæfilegan hita og kryddið passlega“. Má ég þá heldur biðja um óþarflega nákvæmar upplýsingar: „saltið eftir smekk - þess sem við á“. Þegar maður er að stíga sín fyrstu skref í eldhúsinu er ekkert til sem heitir of miklar upplýsingar – hins vegar eru til of flóknar upplýsingar en það er allt annar handleggur.

Ég trúi því að góð bók (og tilraunamennska í eldhúsinu) geti gert úr hverri manneskju kokk og það þarf ekki einu sinni að vera matreiðslubók – þegar ég var barn sáu amma og mamma yfirleitt um eldamennskuna á okkar heimili en þegar pabbi fór svo að láta til sín taka í eldhúsinu kom innblásturinn úr reyfurum eftir Robert B. Parker þar sem Spencer var ekki bara eitursnjall spæjari heldur líka galdramaður í eldhúsinu. Þaðan kom hinn prýðilegi réttur svínakótilettur með ananas! Hvaða bækur gerðu gæfumuninn í ykkar eldhúsi?

Maríanna Clara

16 ummæli:

  1. Kristín í París1. mars 2010 kl. 06:53

    Ég fletti Mikka í tætlur og bakaði muffins upp úr henni mjög reglulega. Síðar voru það bækurnar Nú bökum við, Áttu von á gestum og þriðja sem ég get ekki munað hvað heitir (ég á hana því miður ekki en mig minnir að hún sé appelsínugul) sem inspíreruðu mig. Fullkomnar myndir sem leiða mann í gegnum ferlið og fullt af ekta frönskum réttum, sem ég prófaði einn á fætur öðrum á fjölskyldunni. Man sérstaklega hvað allir voru lítið hrifnir af fljótandi eyjum og hef aldrei lagt í að prófa að gera þann furðulega rétt aftur. Hins vegar er eini nauðsynlegi jólabaksturinn minn enn í dag fylltu hornin úr Nú bökum við, og ef ég hef tíma geri ég líka kanelsnúða með marsípani. Þetta er borðað upphitað á jóladagsmorgni og heitt súkkulaði með rjóma drukkið með.

    SvaraEyða
  2. Ég fjárfesti í áskrift að Det Store Danske Madleksikon í 21 bindi þegar ég var í námi í Danmörku, þaðan koma margir uppáhaldsréttir, Nönnu bækur hafa hins vegar tekið við sem uppflettibækur núna, madleksikonið er aðeins farið að úreldast, svo höfum við gert um helming réttanna í 100 góðum pastasósum, held að það sé sú bók hér heima sem hefur hæst nýtingarhlutfall. Núna nýlega fengum við svo Curry Lover's Cook Book sem er algjör snilld þó yngri unglingur á heimilinu sé pirraður á öllum þessum indversku tilraunaréttum og vilji helst fá kjöt og kartöflur.

    Uppskriftabækurnar hér skríða núna vel yfir hundraðið og margar eru í miklu uppáhaldi.

    SvaraEyða
  3. Þegar ég sá myndina af Matreiðslubók mín og Mikka voru það einmitt bévítans karamellueplin sem komu strax upp í hugann. Ég man enn tilhlökkunina og spennuna í upphafi þegar lagt var í að búa þau til og svo vonbrigðin þegar við mamma sátum með brennda putta í eldhúsinu að reyna að naga grjótharðan afraksturinn.

    SvaraEyða
  4. já, þetta er sorglegt með karamellueplin...ég hélt eiginlega að þetta væri bara léleg bók þrátt fyrir stórskemmtilegar og innspírerandi myndir en svo kom í ljós að maðurinn minn hafði sem barn eldað helminginn af uppskriftunum og verið hæstánægður með útkomuna....þó ekki karamellueplin....

    Kanelsnúðar með marsipani....mmmmm....

    Maríanna

    SvaraEyða
  5. Matreiðslubók Mikka var einnig mikið lesin og mikið notuð á mínu heimili. Hvít skúffukaka með smjörkremi var mikið bökuð sem og múffurnar og eitthvað fleira sem var allt saman mjög gott.
    Nönnubækurnar eru mjög mikið notaðar á mínu heimili sérstaklega þegar búa á til eitthvað basic eins og kjötsúpu eða eitthvað slíkt - annars tek ég matreiðslubækur með mér uppí rúm rétt eins og hverja aðra skáldsögu.

    SvaraEyða
  6. Karamellueplauppskriftin í Mikkabókinni var alveg hræðileg, það hafði örugglega eitthvað með edikið að gera. Svo er hitt, að Bandaríkjamenn kunna ekki góða karamellu að meta og bryðja almennt eitthvað grjóthart ógeð.

    Matreiðslubókin mín og Mikka kom inn í líf mitt og tók við af handskrifaðri uppskriftabók mömmu þegar ég var 9-10 ára og ég eldaði heilmikið upp úr henni. Kosturinn einmitt hvað leiðbeiningarnar voru aðgengilegar. Upp úr henni lærði ég að hræra egg, baka muffins og elda kjúkling. Í dag nota ég vefinn meira, held mikið upp á www.epicurious.com.

    SvaraEyða
  7. Fyrsta matreiðslubókin sem ég átti var "Ánægjustundir í eldhúsinu" frekar sérstök barnakokkabók sem kom út 1953 og ég erfði eftir mömmu. Þar mátti meðal annars finna uppskriftina "kertasalat". Ég hef alla ævi verið síeldandi og síborðandi.

    SvaraEyða
  8. Kertasalat??? Þetta krefst nánari útskýringa Þórdís!

    www.epicurious.com lítur mjög vel út - takk fyrir tipsið!

    Maríanna

    SvaraEyða
  9. Kertasalat er banani sem troðið er upp á rönd í ananassneið og kirsuber og þeyttur rjómi (minnir mig) efst.

    SvaraEyða
  10. Nanna er æði, mögulega eins konar nútíma-Helga Sig. Ég sá að það var verið að endurútgefa eina af bókunum hennar í fyrra eða hittífyrra en leikur hugur á að vita, ef einhver hér hefur kynnt sér það, hvort eitthvað hafi verið átt við leiðbeiningar um eldunartíma réttanna síðan í fyrri útgáfu? Ein af fyrstu bókunum hennar er til uppi á Árbæjarsafni og þar er ekkert kjöt soðið skemur en tvær klukkustundir og fiskurinn allavega í hálftíma. Mjög skemmtileg bók samt sem áður, með réttum á borð við hrossakjötsbuff og rauðaldinsúpu.

    SvaraEyða
  11. Kristín í París2. mars 2010 kl. 17:21

    Þú hlýtur að vera að tala um Helgu Sig og suðutímann, nafna Svava. Ég veit að Nanna hefur skoðað hana mikið og gæti alveg hafa haft puttana í útgáfu, en veit það þó ekki. Nanna er frábær, bækurnar hennar meiriháttar og svo er svo auðvelt að fá ráð hjá henni, á blogginu eða facebook, hún svarar alltaf um hæl. Ég á einhverjar Helgu Sig en hef aldrei eldað upp úr þeim, meira flett þeim mér til gamans, en lærði í þeim bókum að kúrennur eru litlu bragðgóðu rúsínurnar sem kallast "raisins de corinthe" hér í Frakklandi og fást einmitt í bökunardeildinni.
    Svo má ekki gleyma einni mjög skemmtilegri matreiðslubók sem fer reglulega á náttborðið hjá mér: Hratt og bítandi sem var gefin út eftir lát höfundarins, matkrákunnar Jóhönnu Sveinsdóttur. Fullt af mjög góðum uppskriftum og bráðskemmtilegur texti um allt og ekkert og fallegar myndir eftir Áslaugu Snorradóttur.

    SvaraEyða
  12. Ég fær massíft nostalgíukast við tilhugsunina um Matreiðslubókina mína og Mikka. Eggjasnaps bjarnarins Balú gerði ég oftar en ég hef tölu á (skil ekkert í því núna!) og kókostoppar Mikka mús eru enn gerðir fyrir jólin á bernskuheimili mínu. Prófaði ýmislegt annað líka en síðan eru liðin mörg ár. Nú fyllist ég löngun til að halda matarboð með þessa bók sem þema!
    Veit ekki hvaða bók, ef einhver, gerði gæfumuninn í eldhúsinu hjá mér en það er alveg ljóst að mikilvægasta matarbókin á heimilinu er Matarást. Hún er annars áhugaverð undantekning frá þeirri reglu að myndir séu mikilvægar - en umbrotið á henni er reyndar stórgott sem er grundvallaratriði. Eiginlega held ég að mér finnist gott umbrot í matreiðslu- og matarbókum mikilvægara en myndir.

    SvaraEyða
  13. Já, ég átti altso við Helgu með suðutímann, Nanna er með mjög heilbrigðan eldunartíma.

    SvaraEyða
  14. Matarboð byggt á Mikka og co. er stórkostleg hugmynd!
    Hratt og bítandi og Matarást eru báðar mjög flottar - ég á þær því miður ekki sjálf (og held að Hratt og bítandi sé uppseld og ófáanleg) en ég glugga stundum í Matarást í bókabúðinni...
    Maríanna

    SvaraEyða
  15. Matur er mannsins megin eftir Jóhönnu Sveins er frábær bók, ég fékk hana í krossgátuverðlaun Þjóðviljans þegar ég var barn og notaði hana þegar ég notaði matreiðslubækur til að elda uppúr. Hratt og bítandi sá ég í fyrsta skipti í fyrra í Góða hirðinum og hún er líka ansi skemmtileg.

    SvaraEyða
  16. Hratt og bítandi fékk ég á bókamarkaði Perlunnar i fyrra, minnir mig. Gæti verði til þar.
    Maríanna: Mikki og co næsta þema?

    SvaraEyða