15. september 2010

Land draumanna

land draumannaLand draumanna eftir norðmanninn Vidar Sundstöl er fyrsti hluti þess sem á baksíðu bókarinnar er kallað Minnesota-þríleikurinn. Eins gott því ef Land draumanna ætti að standa ein og óstudd væri hún svona frekar endaslepp – en þarsem henni fylgir loforð um tvær í viðbót þá sleppur þetta alveg.

Lance Hansen er lögreglumaður, eða einhverskonar sambland af skógarverði og lögreglu, verkefni hans þartil atburðir bókarinnar eiga sér stað hafa að mestu falist í því að skamma fólk fyrir að tjalda á röngum stöðum og fæla burt unglinga sem hópast saman í skógarrjóðrum til að reykja eða gera annan óskunda sem unglingum dettur í hug. Þetta breytist daginn sem hann gengur fram á nakinn norskan ferðamann í miklum hugaræsingi og finnur í kjölfarið líkið af félaga hans. Framhaldið er svosem að flestu leyti týpísk glæpasaga. Hún er ágæt aflestrar og það sem kannski skilur hana aðeins frá öllum hinum glæpasögunum sem maður drekkur í sig er að hún er full af skemmtilegum lýsingum á bæjarbrag, náttúrufari, fólki – og menningu Ameríkana af norskum ættum. Það sem var samt áhugaverðast við söguna að mínu mati var fjölskyldutengingin – en án þess að ætla að fara nákvæmlega ofaní hvað gerist – þá hefur Lance Hansen rökstuddan grun um að morðið sem er til rannsóknar tengist fjölskyldu sinni. Þetta er líka sá hluti sögunnar sem nauðsynlegt er að þróa betur í þeim tveim bókum sem eiga að fylgja í kjölfarið og mynda „Minnesota þríleikinn“ – Land draumanna gerir í raun ekki meira en að setja sviðið fyrir dýpri og meiri umfjöllun um þann hluta. Þýðingin, sem er eftir Kristínu R. Thorlacius, er fín - rétt á einstaka stað sem mér fannst ég hnjóta um textann, en það gæti fullt eins verið sökum eigin óvana við að lesa sögur af þessu tagi á íslensku. Ég hlakka amk til að lesa meira um afdrif þessa morðmáls og fylla upp í eyðurnar um leyndarmál Hansen klansins.

Sigfríður

Engin ummæli:

Skrifa ummæli