18. september 2010

Framfaragoðsögnin

SkärmklippFyrir mörgum árum sá ég viðtal í sænsku sjónvarpi við finnlandssænska heimspekinginn Georg Henrik von Wright. Mig minnir að viðtalið hafi að miklu leyti fjallað um kynni hans af Wittgenstein og ævi von Wrights en það fjallaði líka um heimspekina. Mér fannst það sem hann sagði svo áhugavert að ég las nokkrar af bókum hans og síðan eru rit hans í miklu uppáhaldi.

Georg Henrik von Wright var menntaður í Cambridge og nemandi Wittgensteins og síðar eftirmaður hans sem prófessor. Ungur var hann mjög tæknilega þenkjandi en fræðilegar áherslur hans breyttust mikið þegar á leið. Von Wright skrifar aðdáanlega skýran og læsilegan texta og það vill svo vel til að ein góðra bóka hans, Framfaragoðsögnin, er til í fínni íslenskri þýðingu Þorleifs Haukssonar. Framfaragoðsögnin er safn greina sem eiga það sameiginlegt að gagnrýna framfarahugmyndir nútímans. Í Moggaviðtali við Ólaf Pál Jónsson í tilefni útgáfu bókarinnar í desember árið 2003 má lesa:

„Framfarir er gildishlaðið hugtak eins og hugtakið góður,“ segir Ólafur,„en mælikvarðarnir á framfarir eru hinsvegar ekki gildishlaðnir, þeir tengjast tæknilegum atriðum eins og launum og framleiðslugetu. Wright bendir á að menn eigi til að rugla saman tæknilegum framförum og batnandi mannlífi.“ Wright ritar einnig í bókinni um alþjóðavæðingu, tæknihyggju og stöðu náttúrunnar í heimi mannsins.“

Framfaragoðsögnin á alltaf erindi, en núna, þegar enn einu sinni er töluvert hamrað á því að hagvöxtur sé sannur mælikvarði á velferð fólks, á hún sérstakt erindi.

Þórdís

Engin ummæli:

Skrifa ummæli