26. febrúar 2011

Þrjú atriði sem gott er að hafa í huga áður en maður les Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson


Fyrir um það bil þremur vikum byrjaði ég að lesa Grámosinn glóir. Ég ætlaði að klára hana fyrir kennslustund á mánudegi og byrjaði að lesa helgina áður, en svo tókst mér bara að lesa um það bil sextíu blaðsíður vegna þess að ég sofnaði, ítrekað, á meðan á lestrinum stóð. Það var ekki að ástæðulausu sem ég sofnaði – ég fell iðulega í djúpt dá á meðan á löngum umhverfislýsingum stendur og svo fannst mér þetta líka allt saman svolítið ruglingslegt. „Af hverju eru elskendurnir sem voru í svona góðum fíling nokkrum blaðsíðum fyrr grátandi næst þegar þau hafa samfarir?‟ hugsaði ég önug rétt áður en ég sofnaði í þriðja skiptið. Jú, það var af því að þetta var ekki sama fólkið. Það eru tvö, jafnvel þrjú, pör af elskhugum í sögunni.

Jæja, nú ætla ég að hætta á það þessi færsla hljómi eins og kafli úr sjálfshjálparbókum á borði við þessa eða jafnvel þessa og koma með örfáar ábendingar til þeirra sem vilja lesa þessa ágætu bók.

1. Ég fékk heimapróf í vikunni sem krafðist þess að ég kláraði þessar tvöhundruð blaðsíður sem ég átti eftir af bók Thors. Ég úthlutaði sjálfri mér einn dag til að lesa bókina og svo óheppilega vildi til að ég þurfti líka að hjálpa mömmu í IKEA þennan sama dag – ég hafði ekki mínútu aflögu fyrir blund. Ráð: þegar þið lesið lýsingar á náttúrunni, sem skáldið „nemur með yrkjandi auga‟, gangið þá um gólf og lesið upphátt, helst með tilþrifum. Og verið alveg róleg, það er allt í lagi að gera þetta í almannarými, t.d. í IKEA – ef fólk má í sífellu vera blaðrandi í gsm-síma í kringum mann, þá má alveg lesa upphátt náttúruinnblásnar draumsýnir skálds í kringum þetta sama fólk. (Ég las að minnsta kosti tuttugu blaðsíður á meðan ég hjálpaði mömmu að velja skáp og leita að skóhorni). Upplestur gerir lýsingarnar skemmtilegri og enginn sofnar.

2. Sagan er hvorki í réttri tímaröð (allavega svona framanaf), né eru persónur kynntar til sögunnar með nafni. Þegar það eru tveir menn að ganga í náttúrunni í upphafi bókar, þá eru það Ásmundur sem er sýslumaður og skáld, og fylgdarmaður hans Þórir. Þeir eru á leiðinni austur á land, þar sem Ásmundur á að stjórna réttarhöldum yfir hálfsystkinunum Sæmundi og Sólveigu og dæma í máli þeirra. Í öðrum kafla bókarinnar „Laufskálaþætti‟, er Ásmundur í góðu stuði í Kaupmannahöfn, einhverju áður en hin eiginlega saga hefst (og Ásmundur fer til réttarhaldanna). Í þeim kafla er ein besta kynlífslýsing sem ég hef lesið – Ásmundur með ástkonu sinni. Í næsta kafla „Afmor‟ er ekki alveg jafn hress kynlífslýsing, en sá kafli fjallar líka um fyrrnefnd hálfsystkini og forboðna ást þeirra. Þetta eru aðalsöguþræðir bókarinnar, en inn á milli er sagt frá Svartármálinu svokallaða (Jón Jónsson drekkir óléttri ástkonu sinni í Svartá), en það er morðmál sem faðir Ásmundar hafði dæmt í stuttu áður og Ásmundur er að stúdera til að undirbúa sig fyrir komandi réttarhöld.

3. Það er líka gott að vita að bókin er byggð á sögulegum atburðum, Sólborgarmálinu svokallaða. Sólborg var ákærð fyrir að hafa átt mök við hálfbróður sinn og eignast með honum barn sem þau urðu svo að bana (ég segi ekki meir!). Einar Benediktsson skáld réttaði í málinu, en aðalpersónan, Ásmundur, er byggður á honum.

Jæja, nú takið þið fram eintökin ykkar af Grámosanum og einn tveir og byrja! Ég gef ykkur sólarhring. Þetta verður easy.

Guðrún Elsa

9 ummæli:

  1. Á morgun ætla ég að taka fram glósurnar mínar úr skáldsagnatímanum hjá Matthíasi Viðari og skoða þá og kannski birta valda kafla. (Ég er snillingur í að taka niður punkta úr fyrirlestrum.)

    SvaraEyða
  2. „Og hann fann safa hennar í ofgnótt svella og gjósa um gand hans allan.“ Orð sem ég gleymi aldrei.

    SvaraEyða
  3. "Og spennti sig áfjáð á móti honum með tryllingslegum rykkjum, ranghvolfdi augum og kom í örvita frygð."

    SvaraEyða
  4. þetta síðasta hljómar nú dáldið eins og the exorcist...

    SvaraEyða
  5. Ég var búin að gera þrjár tilraunir til að lesa þessa bók og hafði alltaf gefist upp á síðu 50, þegar ég neyddist til þess að ljúka henni vegna þess að hún var tekin fyri í bókmenntaáfanga. Þá komst ég að því að það er ekki fyrr en á síðu 52 sem eitthvað byrjar að gerast. Eftir að ég komst yfir síðu 52, varð ég heilluð af henni.

    SvaraEyða
  6. Eva: Já, þetta eru svona aðallega þrjú atriði til að komast auðveldlega í gegnum fyrstu 50 blaðsíðurnar. Svo fer allt að gerast.

    Maríanna: Já, jú, minnir kannski pínu á Exorcist. En það er eitthvað ósjálfrátt við ánægjuna hjá henni, afdráttarlaus játning á fullnægju. Ég held að Foucault hefði verið ánægður.

    SvaraEyða
  7. Ég er þeim ótrúlegu hæfileikum gæddur að ef ég byrja að lesa bók les ég hana til enda, sama hversu tyrfin og leiðinleg hún er. Þannig las ég til dæmis The Devil wears Prada þótt ég engdist og kvaldist í gegn um alla bókina úr leiðindum.

    Ég hef samt gert fleiri tilraunir en ég get talið á fingrum beggja handa að byrja að lesa Grámosinn glóir og alltaf mistekist, þótt mig langi óstjórnlega til þess, enda hefur Sólborgarmálið alltaf heillað mig. Ég ætla að fara eftir þessum ráðum (það er kannski auðveldara að lesa hana á sænsku?)

    SvaraEyða
  8. Prófaðu að lesa hana á sænsku og láttu okkur vita.

    SvaraEyða
  9. Eins og GH hef ég magnað langlundargeð gagnvart hinum misjöfnustu bókum (m.ö.o. fæ eitthvað öfugsnúið samviskubit yfir að klára þær ekki), en þessa hef ég einmitt alls ekki getað. En kannski má láta reyna á þessar ráðleggingar...

    SvaraEyða