13. apríl 2011
Þegar vinkona mín keypti mér óvart metsölubók
Ég óskaði eftir Amazon kyndli í útskriftargjöf í haust. Það var auðsótt mál, en þegar hann kom til landsins voru flutningsgjöld og tollar hærri en verðið fyrir gripinn sjálfan og ég fékk svo mikið samviskubit að ég borgaði það sjálf.
Og þarsem kyndillinn minn er eina gjöfin sem ég hef fengið og síðan fundið mig knúna til að niðurgreiða, þá hét ég sjálfri mér því að vera dugleg að nota hann. Ég hef staðið svona þokkalega vel við það, enda er þetta hin fínasta græja og þægileg í umgengni. Það sem mér finnst best við hana er hvað maður er fljótur að kaupa sér bækur, maður þarf ekki að fara útí bókabúð eða bíða spenntur eftir sendingu frá útlöndum lengur, heldur ýtir maður einfaldlega á nokkra takka og glæný bók birtist á skjánum. Kaupferlið er þó ef til vill aðeins of auðvelt, einsog ég komst að þegar ég leyfði vinkonu minni að skoða gripinn í örskotsstund og hún keypti mér óvart metsölubók. Amazon gerir sér væntanlega grein fyrir vandamálinu, því það á víst að vera hægt að fara inn á síðuna þeirra og leiðrétta svona mistök, en ég fann ekki útúr því í fljótu bragði og ákvað því bara að treysta á kosmósinn og lesa metsölubókina.
Metsölubókin heitir Water for elephants og er eftir Söru Gruen. Hún er áreiðanlega á metsölulistanum af því að bráðum kemur út kvikmynd sem er byggð á henni með engan annan en Robert Pattinson, Tvælæt-sjarmörinn sjálfan, í aðalhlutverki. Bókin kom víst út á íslensku árið 2008 í þýðingu Karls Emils Gunnarssonar og ég geri fastlega ráð fyrir því að hún verði endurútgefin í kilju með Robert Pattinson á kápunni bráðlega. Bókin fjallar um ungan mann, Jacob Janowski*, sem er við það að ljúka dýralæknanámi þegar hann missir foreldra sína í hræðilegu bílslysi og verður (eðlilega) svo um og ó að hann getur ekki klárað lokaprófið og hleypur út í buskann og stekkur síðan um borð í lest sem brunar framhjá. Lestin reynist tilheyra sirkus sem ferðast um Bandaríkin þver og endilöng. Sirkusstjórinn kemst að því að Jacob er næstum því dýralæknir og býður honum starf. Jacob er ungur og svolítið saklaus. Í sirkusnum er lífsbaráttan hörð og hann lærir ýmislegt af góðhjartaða fílnum Rosie og hinum skepnunum sem hann kynnist þar, og kemst fljótt að raun um að mannskepnan er versta skepnan. Og auðvitað verður hann svolítið ástfanginn líka.
Gruen er sambandið á milli manna og dýra greinilega hugleikið og mér þótti oft nóg um grimmdina sem sirkusdýrin sæta í sögunni. Hún virðist hafa rannsakað söguefni sitt vel, og ég (sem hef eiginlega aldrei skilið hvað fólki finnst svona heillandi við sirkusa) las hana í einum rykk og skemmti mér bara prýðilega vel við lesturinn.
Það eina sem fór í taugarnar á mér var hvað Marlena, aðalkvenhetjan í bókinni, var bjargarlaus. Hún er næstum einsog sirkusdýrin sem sæta illri meðferð; Fallegur sakleysingi sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og Jacob þarf að bjarga.
*Þessi nafngift persónunnar á alveg áreiðanlega eftir að rugla alla Team Jacob liðana í Edward vs. Jacob Tvælæt stríðinu ákaflega mikið í ríminu.
Metsölubókakaup af gáleysi ... það er greinilega hægt að lenda í ýmiss konar slysum!
SvaraEyðaÉg hef annars alltaf verið svolítið veik fyrir sirkusbókum eftir að hafa lesið bókina 'Jonni og Lotta í sirkus' eftir Enid Blyton a.m.k. tíu sinnum á ári mörg ár í röð á barnsaldri. Þar var einmitt líka góðhjartaður fíll. Kannski ég ætti að tékka á þessari bók og athuga hvort hún stenst samanburðinn.
Já hún er skemmtileg, hef held ég ekki lesið Jonna og Lottu svo ég veit ekki hvort hún standist samanburðinn.
SvaraEyðaOg skv. nýjustu fréttum frá Forlaginu verður hún því miður ekki endurútgefin með R.Patz í fráhnepptri skyrtu á kápunni. Áhugasamir verða víst að láta sér kvikmyndina nægja til að skoða hann almennilega.
Hildur
Jonna og Lottu í sirkus las ég líka aftur og aftur. Ef ég man rétt hjálpaði góðhjartaði fíllinn í þeirri bók til við handtöku á glæpamanni. Það gat hann vegna þess að fílar gleyma engu (eða svo segir í bókinni).
SvaraEyðaJá, þú manst rétt. Þjófurinn (mig minnir annars að hann hafi verið þjófur) hafði verið andstyggilegur við fílinn mörgum árum áður og það var sko geymt en ekki gleymt.
SvaraEyðaEn svo ég víki talinu aftur að bloggfærslunni, þá er ég ennþá að flissa yfir hættunni á Jacob/Edward-ruglingnum hjá óðu Twilight-aðdáendunum!
SvaraEyðaJá ég spái því að þetta eigi eftir að valda einhverjum usla.
SvaraEyða