28. maí 2011

Kajsa Ingemarsson í Norræna húsinu

Miðvikudagskvöldið 1. júní kl. 8 verður höfundarkvöld í Norræna húsinu þar sem ég ætla að spjalla við sænska rithöfundinn, fjölmiðlakonuna og fyrrverandi diplómatinn og gagnnjósnarann Kajsu Ingemarsson. Í fyrra kom út eftir hana bókin Sítrónur og saffran og á næstu dögum kemur bók sem heitir Allt á floti.


26. maí 2011

Uppgjafarbækur

Rétt áðan lenti ég á þræði hjá facebookvinkonu þar sem verið var að ræða höfundinn Ian McEwan. Það kom í ljós að fleiri en ég heillast ekki umtalsvert af hans bókum. Ég gafst upp, fyrir ekki svo löngu, á Booker-verðlaunabókinni Amsterdam, mér fannst hún óáhugaverð og leiðinleg þó að allt öðru væri haldið fram á kápunni og ég væri spennt þegar ég byrjaði að lesa. Amsterdam fór samt ekki í neinn af kössunum með u.þ.b. hundrað bókum sem ég sendi í Góða hirðinn um daginn. Ég hef sennilega hugsað mér að gera aðra lestrartilraun því þetta hlyti að vera misskilningur hjá mér og bókin í alvörunni rosalega góð, en líklega verður hún send burt í næstu umferð. Önnur bók sem ég gafst upp á fyrir ekki svo löngu er Áform eftir skræfuna Houellebecq (sem þorði ekki til Íslands af ótta við að verða strand hér í öskuskýi). Hún höfðaði ekkert til mín.

Vill ekki einhver segja okkur frá reynslu sinni af meintum góðum bókum sem hafa síðan reynst ólesandi?

20. maí 2011

Arsenikturninn

Nú liggja eflaust fyrir ýmsar lærðar úttektir á móðurinni í bókmenntum hinna ýmsu þjóða og innan margvíslegra bókmenntastefna en ég verð að viðurkenna að hafa ekki kynnt mér þær né haft á efninu nokkurn marktækan áhuga. Það að lesa, með stuttu millibili, tiltölulega nýlegar bækur tveggja norrænna (önnur norsk hin sænsk) kvenhöfunda, eða þeirra Anne B. Ragde og Mariu Ernestam, varð til þess að ég fór aðeins að velta þessu „þema“ fyrir mér.

Í báðum bókum, þ.e. Arsenikturninum og Eyrum Busters koma fyrir mæður sem eru svo langt frá öllum stereotýpum um hina mildu og góðu móður að það er eiginlega alveg met. Þær eru illar, grimmar, ofbeldishneigðar, lygnar og ég veit ekki hvað. Þær eru eiginlega svo ómögulegar þessar konur að manni líður hálf illa yfir því og vill helst fara í að lesa eitthvað þar sem mamman er góð og ljúf kakóhitandi heimavinnandi húsmóðir. Í Eyrum Busters fær maður svosem aldrei neina skýringu á því afhverju mamman er þessi grimmi gallagripur, hún er bara svona og fær makleg málagjöld, ef svo má að orði komast. Arsenikturninn gerir tilraun til útskýringar á hegðun Malie, móður Rubyar og ömmu Therese. Að mínu mati er sú útskýring a.m.k. að hluta til trúverðug, þ.e. maður skilur að einhverju leyti hvað það var sem mótaði hana sem persónu og hvað olli þeim hroðalegu skemmdum sem hún burðast með í gegnum lífið. Það sem er skemmtilega gert er að hún fær að vera þversagnakennd, yndisleg amma þó hún hafi verið kolómöguleg mamma. Skemmtileg, lífleg og glöð og svo algjör andstæða þess þegar sá gállinn var á henni.

Ég hafði mjög gaman af lestri Arsenikturnsins – náði að lifa mig inní söguna a.m.k. að hluta til og margar lýsingar og atvik sem sagt er frá eru einkar vel gerð og eftirminnileg. Mér fannst t.d. atvikið þegar Ruby kemur loks heim til tengdamóður sinnar í Noregi alveg magnað. Sagan færir sig smám saman aftar og aftar í tíma og gerir það bara nokkuð vel. Saga Rubyar höfðaði mjög til mín og eins það litla sem maður fékk að fylgjast með dóttur hennar Therese. Þrátt fyrir að sögur þeirra Malie og Mogens séu um margt etv áhugaverðari þá fannst mér ekki takast alveg eins vel til með þær. Frásögnin af uppvexti Mogens var dálítið einsog maður væri kominn í þann heim sem lýst er í Fiskerne eftir Hans Kirk, og svosem allt gott um það að segja, en það vantaði aðeins uppá að þetta virkaði sem skyldi í heildarsögunni. Tengingin sem mér fannst vera gerð milli móður Mogens og svo Malie var einhvernvegin aðeins of þunn. Frásögnin af æsku og og uppvexti Malie sjálfrar var áhugaverð lesning, en náði fyrir minn smekk samt ekki alveg að vera fyllilega trúverðug miðað við það sem á eftir kom.

Þegar á heildina er litið er Arsenikturninn einkar vel heppnuð bók, mæli óhikað með henni fyrir þá sem ánægju hafa af sögum sem flæða vel áfram og fjalla um mannlegt eðli og hegðun. Er sjálf í startholunum að taka til við lestur á fleiri bókum eftir Anne B. Ragde – Berlínaraspirnar bíða t.d. eftir mér í bókahillunni!

Sigfríður

17. maí 2011

Að dæma bókina af kápunni (með loðkraganum)

Ég er búin að lesa margar lélegar glæpasögur að undanförnu, allt of margar. Þeirra verst var þó án efa fyrsta bókin í flokknum um Daisy Dalrymple, Death at Wentwater Court eftir Carolu Dunn. Hvers vegna í ósköpunum ég er alltaf að lenda í lélegum glæpasögum veit ég ekki nema að í tilviki Daisyar var það sennilega þar sem ég fylgdi ekki hinu gamalkunna ráði að dæma ekki bókina af kápunni. Ég rakst nefnilega á aðra bók úr sama bókaflokki í ensku bókabúðinni hér í heimabæ mínum og fannst bókakápan svo ægilega fín. Á henni var mynd af lekkerri dömu, væntanlega Daisy sjálfri, í huggulegri kápu með loðkraga í stíl þriðja áratugarins, með fagurlega formaðan hatt á höfði og hneppta hanska. Og ég hugsaði með mér að þetta væri nú eitthvað fyrir mig, blóðug morð í bland við silkisokka, dúnmjúka púðurkvasta og gamla kjóla. Ég ákvað strax að ég yrði að lesa um ævintýri Daisyar og þar sem ég vil alltaf byrja á byrjuninni dreif ég mig í að panta fyrstu bókina í flokknum (sem að vísu var með afar ljótri bókakápu) og hóf lesturinn spennt.

Ég sé það eftir á að ég hef sennilega leyft mér að draga allt of miklar ályktanir um bókaflokkinn af kápumyndinni einni saman, mér var auðvitað aldrei lofað neinni útrás fyrir flóamarkaðsáráttuna. Ég held að mér hafi bara þótt þetta svo góð hugmynd, að blanda saman heilaslettum og undirkjólum. Og hvers vegna ekki? Fyrst það er hægt að fá krimma fyrir tónlistarunnendur jafnt sem sagnfræðiáhugafólk og fyrst Camilla Läckberg getur til dæmis skrifað glæpasögur sérstaklega miðaðar að smábarnaforeldrum fannst mér einhvern veginn ekkert svo út í hött að einhver hefði skrifað glæpasögu fyrir áhugamenn um gamalt dót og vintage föt. Í ljós kom hins vegar að Carola Dunn var ekkert sérstaklega ginnkeypt fyrir svoleiðis vitleysu. Í staðinn fyrir undirkjólana og silkisokkana var áherslan á klassískt breskt hefðarsamfélag, ættaróðul, stöðugt teþamb og skonsuát, pinnstífa einkaþjóna og lafðir sem líður yfir við minnsta álag. Sem sagt, kannski frekar bók fyrir anglófíla en ekki okkur sem höfum gaman af að róta í skápunum hjá ömmu.

Sviðssetningin var sem sagt klisjukennd og margtuggin. Við höfum lesið um hana í hundrað milljón bókum, til að mynda öllum glæpasögum Agöthu Christie. Það segir sig eiginlega sjálft að ef maður ætlar að fara inn á svið sjálfrar drottningar glæpasagnanna þá þarf maður annað hvort að skrifa betri morðgátu en hún eða notfæra sér klisjurnar á skapandi hátt, með því að snúa upp á þær og tefla hinu óþekkta gegn hinu þekkta. Carola Dunn gerir hvorugt.

Sagan segir frá hinni siðprúðu blaðakonu Daisy sem dvelur í nokkra daga á Wentwater setrinu til að skrifa um það tímaritsgrein. Meðan á dvöl hennar stendur finnst einn gestanna myrtur og að sjálfsögðu liggja engir undir grun aðrir en þeir sem dvelja á setrinu. Geðþekkur rannsóknarlögreglumað mætir á svæðið og fær Daisy til að aðstoða sig. Það reynist mikið gæfuspor því í ljós kemur að Daisy hefur undraverða hæfileika til að leysa morðgátur með innsæinu einu saman. Hún getur nefnilega séð það á svipbrigðum og andlitsdráttum fólks hver er góður og hver er vondur, hver elskar hvern, hver hatar hvern og allt þar á milli. Málið leysist farsællega á augabragði og glæpamaðurinn játar bljúgur. Hér eru engin óvænt sönnunargögn sem varpa nýju ljósi á málið, engar „rauðar síldir“ né nokkuð annað sem hefði getað gert gátuna spennandi.

Lélega gátu hefði þó mögulega mátt fyrirgefa ef þessi útvatnaða samfélagsmynd hefði verið afbyggð með einhverjum hætti. En Death at Wentwater Court gerir ekkert annað en að festa í sessi bæði hefðbundin kynjahlutverk og stéttasamfélag. Þjónustufólkið slúðrar (á cockney að sjálfsögðu), dömurnar eru hjartahreinar og herrarnir hugdjarfir. Það er að vísu snemma gefið í skyn að lafðin á setrinu hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu og maður fer strax að vona að þar leynist ef til vill eitthvað krassandi sem snúi þessu öllu á hvolf. Vonbrigðin eru algjör þegar í ljós kemur að hið myrka leyndarmál hennar er að hún hafði búið um tíma með manni án þess að þau hafi gengið í formlegt hjónaband! Hún er að sjálfsögðu uppfull af eftirsjá og þakklát lávarðinum eiginmanni sínum fyrir að fyrirgefa sér þessi bóhem mistök! Það má vel vera að þetta sé raunsæ lýsing á þeim óraunhæfu kröfum sem gerðar voru til yfirstéttarkvenna á þessum tíma. En langar mig að lesa um þær frá gagnrýnislausu sjónarhorni árið 2011 (nú eða 1994 þegar bókin kom fyrst út)? Svo sannarlega ekki.

Death at Wentwater Court er mögulega tilgangslausasta bók sem skrifuð hefur verið. Hana skortir algjörlega spennandi og sannfærandi fléttu sem ætti annars að vera frumskilyrði glæpasögunnar. Og þeir möguleikar sem felast í því að staðsetja atburðarásina í fortíðinni eru ónýttir með öllu. Nei, fjandinn hafi það, loðkragi eða ekki, ég fell ekki aftur í þá gryfju að dæma bókina af kápunni!

16. maí 2011

Börn og menning


Vorhefti Barna og menningar árið 2011 kemur út í vikunni. Í ritinu eru þrjár greinar um múmínálfabækurnar eftir Tove Jansson; Erna Erlingsdóttir, íslenskufræðingur, fjallar um skáldsöguna Seint í nóvember, Sirke Happonen, kennari við Háskólann í Helsinki, skrifar um dansinn sem tjáningu persóna í múmínálfabókunum og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar grein með yfirskriftina Múmínálfarnir og hamskiptin. Af öðru efni má nefna umfjöllun Elinu Druker, kennara við Stokkhólmsháskóla, um nýja strauma í myndlýsingum sænskra barnabóka og einnig skrifa Gerður Kristný, Hallgrímur J. Ámundason, Rúnar Helgi Vignisson, Arndís Þórarinsdóttir, Brynja Baldursdóttir og Þórdís Gísladóttir greinar í blaðið um fjölbreytileg efni, auk þess sem í því má finna fréttir af öflugu starfi IBBY-samtakanna.
Börn og menning kemur út vor og haust og er þetta 26. árgangurinn. Það er alþýðlegt fræðirit um barnamenningu og eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um þann geira menningarinnar sem snýr sérstaklega að börnum.
Börn og menning er gefið út af IBBY á Íslandi, sem er skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People, en það eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru 1953 og starfa nú í sjötíu löndum. Markmið samtakanna er að vinna í anda stofnandans, Jellu Lepman, sem áleit að góðar barnabækur gætu byggt brú á milli þjóða heims og miðlað fróðleik og skilningi milli ólíkra menningarsamfélaga. IBBY á Íslandi hefur starfað frá árinu 1985.
Ritstjóri Barna og menningar er Þórdís Gísladóttir en aðstoðarritstjóri er Helga Ferdinandsdóttir, sem tekur alfarið við ritstjórninni frá og með haustheftinu 2011.

15. maí 2011

Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

Í dag voru í Gunnarshúsi afhentar Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi við hátíðlega athöfn.

Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu  en þær hlutu:

• Agnieszka Nowak og Vala Þórsdóttir fyrir frábæra frumraun á sviði
barnamenningar með pólsk-íslensku bókinni Þankaganga – Myślobieg sem
kom út á síðasta ári.
• Margrét Örnólfsdóttir fyrir margþáttað menningarstarf í þágu barna,
sérstaklega skáldsögurnar tvær um Aþenu sem komu út árin 2009 og 2010 við
góðan orðstír.
• Norræna húsið fyrir vandaða barnadagskrá árið um kring.
• Hljómsveitin Pollapönk fyrir metnaðarfulla barnatónlist sem öll fjölskyldan
getur notið saman.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær
að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.
Hér að neðan er mynd frá verðlaunaafhendingunni. Þar eru frá vinstri: Margrét
Örnólfsdóttir, Haraldur F.Gíslason, Heiðar Örn Kristjánsson, Elías Snær Einarsson,
Arnar Þór Gíslason, Freydís Balbina Aradóttir og Pia Viinikka.
Elías Snær og Freydís Balbina tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Agnieszku og
Völu og Pia var fulltrúi Norræna hússins.



Nánari upplýsingar veitir Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY á Íslandi, í síma 897 2772.

2. maí 2011

Druslubókadömur láta að sér kveða

Tvær Druslubókadömur senda frá sér bækur nú um þessar mundir.

Í síðustu viku kom Skrælingjasýningin, önnur ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur, út. Hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu allt frá því fyrsta ljóðabók hennar, Blótgælur, kom út árið 2007 og hlaut mikið lof.


Og á morgun kemur út bókin Sláttur, fyrsta skáldsaga Hildar Knútsdóttur, en hún fjallar um unga konu sem fór í hjartaskipti og er ákaflega forvitin um fyrri eiganda hjartans.


Báðar fást þær á afar sanngjörnu verði í öllum bestu bókabúðum landsins.