27. apríl 2010

Sumarbústaðabók um venjulega stelpu

Sítrónur og Saffran eftir Kajsu Ingemarsson er rólegheitabók, hentar vel til þess að taka upp í sumarbústað eða bara upp í rúm til að slappa af fyrir svefninn.

Sagan er um Agnesi, unga konu sem upplifir margt sem flestir upplifa eflaust einhvern tíma á ævi sinni, til dæmis það að missa vinnuna, kærasta og ástvin. Hún er þó svo heppin að eiga frábæra vinkonu og fjölskyldu sem vilja henni vel, svona fólk sem heldur alltaf með manni en mætti stundum skipta sér örlítið minna af. Í upphafi bókar reynir yfirmaður Agnesar að nauðga henni í vínkjallara fína veitingahússins sem hún vinnur á. Hún kemst af eigin rammleik undan krípinu, en er rekin og þarf að leita sér að vinnu án þess að geta vænst þess að fá meðmæli fyrir sitt mikilvægasta starf. Löngunin til að Agnes rísi upp og berjist gegn ruddalegum ríkum körlum sem misnota starfsfólk sitt í skjóli þeirra valda sem fjármagn gefur þeim kviknar vissulega hjá lesanda. Kannski er ekki hægt að búast við þessháttar baráttu í svona bók, en það er þó hressandi að lesa chick-lit sem fjallar ekki bara um verslunarferðir. Eftir þetta atvik fylgjumst við með tilraunum Agnesar til að koma sér aftur á lappirnar og reyna að halda lífinu í fyrra horfi, þegar breytingar virðast óhjákvæmilegar.

Bókin er létt og skemmtileg, en fjallar þrátt fyrir það um ýmislegt alvarlegt og erfitt. Þótt Agnes geti virst of venjuleg og lítið spennandi í byrjun bókar, finnst lesanda örlög hennar skipta máli, maður les smám saman hraðar, mann langar að stíga inn í bókina og segja Agnesi fyrir verkum, hrista hana mögulega til. Agnes er svo venjuleg að hún verður nokkurs konar everywoman, Jóna Jónsdóttir og þess vegna er afskaplega auðvelt að spegla sjálfan sig og þá sem maður þekkir í henni.

Guðrún Elsa


3 ummæli:

Gunnar Hrafn sagði...

Ég las þessa einmitt í sumarbústaðnum um árið og hef ekki hugmynd um hvað hún fjallar um.

Þórdís sagði...

Haha, þetta kemur fyrir besta fólk Gunnar Hrafn - en leið þér ekki bara vel meðan á lestrinum stóð?

Sítrónur og saffran – kilja « Forlagið – vefverslun sagði...

[...] „… létt og skemmtileg … það er hressandi að lesa chick-lit sem fjallar ekki bara um verslunarferðir …“ Guðrún Elsa / Druslubækur og doðrantar [...]