Sumir geta ekki án glæpasagna verið. Ég er ekki ein af þeim en stundum fæ ég fiðringinn, sérstaklega þegar tekur að vora, ekki veit ég af hverju það er, en svona er þetta bara. Og nú er komið vor og ég er búin að skella mér í gegnum tvær nýlegar, þýddar glæpasögur, það er annars vegar Nemesis eftir hinn norska Jo Nesbø og svo Vetrarblóð eftir Svíann Mons Kallentoft.
Nemesis er önnur bókin sem kemur út eftir Jo Nesbø á íslensku en hinsvegar sú fyrsta sem ég les. Mér skilst að hann sé búinn að skrifa margar bækur um söguhetjuna og lögreglumanninn Harry Hole sem er um margt týpískur skandinavískur glæpasagnalögreglumaður með allskonar undirliggjandi persónuleg vandamál og ber þar að sjálfsögðu hæst áfengismisnotkun. Í bókinni koma fyrir margir misárennilegir samstarfsmenn Hole sem ég reikna með að séu margir hverjir fastagestir í öðrum bókum um kappann. Í þessari bók hefur verið framið bankarán en bankaræninginn tekur sig til og skýtur gjaldkerann sem "afgreiðir" hann á færi og þar með kemst málið í hendur Hole og kollega hans hjá morðdeildinni. Ég var býsna hrifin af þessari glæpasögu en það er fyrst og fremst vegna þess að plottið er ljómandi vel unnið, tekur allskonar beygjur og sveigjur og kemur manni nokkuð hressilega á óvart. Það fer nefnilega fátt jafn mikið í taugarnar á mér og glæpasögur með léleg og fyrirsjáanleg plott, svæsnasti sósjalrealismi með tilheyrandi fylleríum og framhjáhöldum bjargar glæpasögu aldrei að mínu mati ef plottið er lélegt (ég er nú reyndar farin að leggja slíkar bækur frá mér eftir ca fyrstu 50 síðurnar, maður verður svo meðvitaður um tímanotkun þegar maður er orðinn miðaldra). Það fer líka í taugarnar á mér þegar glæpasögur sem eru hluti af seríu setja mann ekki nægilega vel inn í aðstæður, þ.e. þegar reiknað er með að lesandinn hafi lesið fyrri bækur. Það fer líka í taugarnar á mér ef of miklu púðri er eytt í slíkar lýsingar, það er vandlifað. Í Nemesis er þetta hinsvegar vel gert, lesandinn fær alveg hæfilega miklar upplýsingar til að fá áhuga á persónunum er ekki kaffærður með óþarfa bakgrunnspælingum. Það eru líklegast meðmæli með bókinni að ég hef þegar tryggt mér eintak af Rauðbrystingi, fyrstu bókinni sem kom út um Harry Hole.

Þorgerður E. Sigurðardóttir
2 ummæli:
Ég las Rauðbrysting eftir Nesbö og þótti bókin mjög góð en lagði þessa frá mér eftir fyrstu blaðsíðurnar, meikaði engan veginn eina bókina til þar sem söguhetjan er í hroðalegum mínus og þarf að sannfæra alla um að hann/hún sé ekki morðinginn. Kannski maður ætti að endurskoða ákvörðunina. Þessi erkitýpa, drykkfelldi og depressífi lögreglumaðurinn er orðin pínu þreytt samt.
Greinilega mjög í tísku að þessi glæpadrömu eigi sér stað í miklum kuldum. Åsa Solberg eða hvað hún heitir sem fjallar um ólétta kvenlöggu í Kiruna og -40, Arnaldur með Vetrarborgina og nú var eg að lesa bók eftir Lindu Castillo þar sem öllum er voðalega kallt. Gott ef hún Lehtiainen eða hvað hún heitir í Espoo, er ekki alltaf í kraftgalla - svo maður tali nú ekki um blessaða Auðnina hennar Yrsu. Svo er líka yfirleitt mjög hryssingslegt hjá Wallander blessuðum. Maður fær bara hroll.....
Skrifa ummæli