30. júní 2011

Öll mín fjölmörgu líf

Rithöfundurinn Edmund White er mikil kanóna í bandarískri samtímamenningu. Hann stendur nú á sjötugu og eftir hann liggur bústin ritaskrá. Sem ungur maður lærði hann kínversk fræði í háskólanum í Michigan og starfaði sem blaðamaður í New York áður en hann sneri sér alfarið að skáldskap og rannsóknum á lífi annarra rithöfunda. White hefur skrifað ýmislegt, meðal annars ellefu skáldsögur sem sumar hafa notið mikilla vinsælda. Sú fyrsta, Forgetting Elena, kom út 1973. Hún þykir vera nokkuð vel heppnuð satíra á kúltúr samkynhneigðra í Bandaríkjunum og raunar snúast flest skrif hans á einn eða annan hátt um vanda og vegsemd þess að vera hommi. Allir sem vildu vera hipp og kúl á áttunda áratugnum lásu Elenu. Nabokov lofaði hana í hástert og Susan Sontag sagði „loksins, loksins“.

Um áratugaskeið dvaldi White í Frakklandi við rannsóknir og hefur hann skrifað hnausþykkar ævisögur skáldanna Proust, Genet og Rimbauds. Hann hefur líka ritað ferðasögur, leikrit, kynlífsleiðbeiningarrit (The Joy of Gay Sex (1977)) og menningarrýni af ýmsu tagi. Þekktasta bókin hans er líklega A Boy´s Own Story (1982) sem hann byggði lauslega á eigin lífi. Þar kynnast lesendur unglingspiltinum Kevin, vaknandi líkama hans og óslökkvandi þrá. Oscar Wilde og Salinger í einni sæng sögðu sumir. White fylgdi sögunni eftir með tveimur öðrum sjálfsævisögulega innblásnum verkum The Beautiful Room is Empty (1988) og The Farewell Simphony (1997). Síðustu ár hefur White kennt í fínustu creative writing prógrömmunum vestanhafs meðfram sínum eigin skrifum, nú síðast í Princeton. White er mikill aktívisti og hefur barist fyrir HIV-smitaða allt frá því að veiran greindist fyrst í mönnum um 1980.

Ég hafði vitað af Edmund White í nokkur ár og lengi ætlað mér að lesa sjálfsævisöguleg skrif hans. Þegar ég sjálf fluttist á æskuslóðir hans varð það mitt fyrsta verk að verða mér út um eitt af hans nýrri verkum, My Lives: An Autobiography (2005).

White er uppalinn í Miðvestrinu, mekka landbúnaðar og iðnaðar – hjarta Ameríku sem dældi gylltum rjóma og holdmiklum steikum inn í þjóðarlíkamann ásamt því að sjá honum fyrir bílum og öðrum iðnaðarafurðum í massavís. Margar af stærri borgum Miðvestursins mega muna fífil sinn fegurri og hafa átt í erfiðleikum með að fóta sig í feni hnattvæðingar og annars fjára nútímans. Myndaseríur af niðurníddu iðnaðarhúsnæði sem eitt sinn ólgaði af sprelllifandi kapítalisma hafa vakið athygli. Fræg er til dæmis sería ljósmyndarans Sean Hemmerle, American Rustic Belt, sem sýnir meðal annars yfirgefnar verksmiðjur Detroit. Út úr þessum byggingum streymdu forðum gljáandi Buickar og Kadilakkar sem íslenskir sveitastrákar létu sig dreyma um. Nú er allt búið og Detroit eins og dauðs manns gröf.



En nóg um það og aftur að White. Í My Lives dregur hann upp nákvæmar og oft kómískar myndir af fjölskyldu sinni og samferðamönnum. Lýsingar hans á foreldrum sínum eru sérlega athyglisverðar. Maður þráir ekki beinlínis að kynnast íhaldssömum vinnualkanum föður hans sem hlustaði á Brahms á kvöldin meðan hann snyrti á sér naglaböndin. Sálfræðingurinn móðir hans virkar frekar ógeðfelld í alla staði. Þau skildu þegar hann var sjö ára. White segir móður sína hafa girnst sig kynferðislega en sjálfur vildi hann helst af öllu sænga hjá föður sínum sem langaði mest í dóttur sína. Huggulegt.

Kynórar og kynlíf er þungamiðja My Lives. White lýsir því ítarlega þegar hann barn að aldri komst upp á sæmilegt lag með að veita sjálfum sér munngælur og við fáum að kynnast fyrstu elskhugum hans nokkuð náið. Við lauslegt gúgl má sjá að sumum lesendum finnst alltof miklu púðri eytt í þetta í bókinni og kann það vel að vera. En kynveran strúktúrerar lífið öðru fremur og á það einkar vel við í tilfelli White.

Ég ímynda mér að í dag sé erfitt að opinbera samkynhneigð í Miðvestrinu. Að minnsta kosti eru fréttir af hatursglæpum nokkuð tíðar og víða benda niðurstöður viðhorfskannana til þess að langt sé að bíða þess að hópurinn fái lagalega stöðu til jafns við gagnkynhneigða, hvað þá að fordómar verði kveðnir niður. Maður fær hreinlega hroll við það að hugsa um hvernig þessu var háttað fyrir hálfri öld eða svo þegar White var að byrja að skrifa. Samkynhneigð var af sálfræðingum enn talin vera einhverskonar röskun sem hægt væri að meðhöndla og formleg barátta hópsins fyrir réttindum hófst ekki fyrr en 1969 með Stonewall uppreisninni í New York sem White var reyndar þátttakandi í.

Tímabilið þegar HIV byrjar að grassera um 1980 er sögulega athyglisvert fyrir margra hluta sakir og í tilfelli White og vina hans er það sérstaklega harmrænt. Hvað gerir þú þegar þínir nánustu vinir byrja einn af öðrum að hrynja niður úr einhverri óskilgreindri óáran, sem enginn ber kennsl á, hvað þá að það sé til lækning? Það hlakkaði í sumum sem töldu að nú væri komið að skuldadögum og hommarnir myndu brenna í helvíti fyrir syndirnar. Fólk var hrætt og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Veiran hjó fljótt skarð í raðir samkynhneigðra listamanna og rithöfunda í Bandaríkjunum. White greindist sjálfur árið 1985 og missti franskan elskhuga sinn til margra ára úr sjúkdómnum auk margra náinna vina. Hommar voru á ný orðnir viðfang læknavísindanna líkt og þeir höfðu verið allt fram á sjöunda áratuginn þegar sérfræðingar allra landa reyndu að finna lækningu við þessari óæskilegu hegðun. White hellti sér fljótt út í aktívisma. Hann var einn af þeim fyrstu sem kom opinberlega fram og sagðist vera smitaður. Í félagi við vini sína stofnaði hann samtök, lagði áherslu á að fræða og fjármagna rannsóknir. Í My Lives fjallar White aðeins stuttlega um þennan tíma enda hafði hann gert honum ítarleg skil í The Farewell Simphony.

Sá skýri munur sem White gerir á þessari sjálfsævisögu og þríleiknum sem hann byggði á lífi sínu er athyglisverður hvað varðar sannleiksástina. „Hér er ekkert skáldað“ segir hann í eftirmála My Lives á meðan hann útskýrir að í þríleiknum hafi hann ekki haldið fast í það sem raunverulega gerðist.

Stíllinn á My Lives er hnyttinn og spjallkenndur. Stundum kannski einum of. Eins og þú sitjir á Ölstofunni með málglaðan blaðamann í fanginu. Hann þyrstir í trúnó. En hann er aldrei leiðinlegur. My Lives er ábyggilega ekki besta bók Whites en hún er svo sannarlega lestursins virði og ég ætla að lesa allar hinar. Næst ævisögu Jean Genet. Meira síðar.

1 ummæli:

  1. En fínn pistill, mig langar að tékka á honum White eftir lesturinn.

    SvaraEyða