3. júlí 2011

Meiri hellar, minna kynlíf

Þeir sem lágu yfir bókunum um Börn jarðar eftir Jean M. Auel þegar þeir voru litlir rétti upp hönd!

Nei, afsakið: Þeir sem lágu yfir bókunum um Börn jarðar® eftir Jean M. Auel rétti upp hönd! (Já, þetta er skráð vörumerki.)

Fyrir þá sem ekki vita þá fjalla bækurnar um konuna Aylu og manninn Jondalar, en þau eru Cro-Magnon fólk og sögusviðið er Suður- og Mið-Evrópa á ísöld. Þær fjalla um lífsbaráttu, óblíð náttúruöfl, ástir, uppfinningar og síðast en ekki síst samskipti Cro-Magnon fólksins við Neanderdalsfólk. Auel er greinilega mikill grúskari og ég las einhversstaðar að hún sé orðinn einn helsti fræðingurinn um mannlíf á ísöld. Hún skáldar að sjálfsögðu ansi mikið í eyðurnar, en kenningar hennar um hvernig lífið var þá eru a.m.k. áhugaverðar, þó mér vitrara fólk hafi sagt mér að hún sé oft komin út á hálan ís.

Fyrsta bókin, Þjóð bjarnarins mikla, kom út árið 1980 og sjötta og síðasta bókin, sem hefur ekki verið þýdd á íslensku en heitir The Land of Painted Caves á ensku, kom út á þessu ári. Þegar ég var níu ára las ég þær bækur sem þá voru komnar út upp til agna og lét mig dreyma um að eignast fjallaljón, temja villta hesta, búa til vopn úr leðurþvengjum og veiða hýenur og púmur.

(Svona eftir á að hyggja finnst mér kannski svolítið skrýtið að foreldrar mínir hafi ekkert fett fingur út í þennan lestur minn á þessum aldri, því bækurnar eru öðrum þræði afar erótískar og eiginlega ljósbláar. Miklu púðri er t.d. eytt í að lýsa því hversu vel vaxinn niður hann Jondalar er og hversu fimlega hann kann að beita bæði fingrum og tungu. Ástarleikjum hans og Aylu er lýst í minnstu smáatriðum, en hann leiðir hana í allan sannleikann um holdlegar nautnir. Annars man ég reyndar ekki til þess að nokkur fullorðinn hafi nokkurn tímann reynt að skipta sér af því hvað ég las og hvenær, fyrir utan konuna á bókasafninu í Melaskóla, en hún ætlaði ekki að vilja lána mér Mávahlátur því henni fannst ég of lítil. Ég þráaðist samt við og ég man að hún rétti mér hana og fussaði um leið.)

Þó það séu mörg ár síðan ég skildi við Aylu og Jondalar síðast þá sperrti ég nýverið eyrun þegar ég heyrði að síðasta bókin væri að koma út. Bókin fékk arfaslaka dóma, en ég keypti hana samt, því mig langaði að vita hvernig ævintýrið um æskufélagana endar.

Og ég varð fyrir fáránlegum vonbrigðum. Raunar svo miklum að ég nennti ekki að klára bókina. Hún er held ég rúmar 600 blaðsíður (ég keypti hana á kyndilinn svo ég er ekki alveg með það á hreinu), en það gerist eiginlega ekki neitt í henni (eða a.m.k. ekki í fyrri helmingnum sem ég er búin að lesa). Auel er líka afar slakur penni og hún skilur ekkert eftir handa lesandanum að ráða í. Margar senur voru á þessa leið:

Ayla vildi láta í ljós aðdáun sína á X án þess að vekja athygli hinna svo hún brosti fallega til hans. X sá bros Aylu og áttaði sig á því að hún vildi láta aðdáun sína í ljós án þess að vekja grunsemdir. Y sá Aylu brosa og viðbrögð X fór ekki framhjá henni og hún gladdist yfir því að Ayla hefði kosið þessa leið til að láta X vita af aðdáun sinni.

Auel hefur víst rannsakað söguslóðir (þar sem nú er Frakkland) nákvæmlega, sem skín allt of vel í gegn í bókinni. Því óburðugur söguþráðurinn virðist varla vera nema afsökun til þess að þvæla söguhetjum úr einum máluðum helli í annan. Auel lýsir svo hverju einasta málverki í hverjum einasta helli af sársaukafullri nákvæmni auk þess að lýsa lyktinni og bergmálinu og berginu o.s.frv.

Og svo veit ég ekki hvort minnið hafi svikið mig og bækurnar ekki jafn blautlegar og mig minnti eða hvort Auel sé vaxin upp úr kynlífsáhuganum (hún er orðin 75 ára), en ég var búin með nákvæmlega 25% af bókinni þegar fyrsta kynlífssenan kom. Og Ayla og Jondalar voru rétt að komast í gírinn og hefja seinni hálfleik þegar þau voru trufluð.

En ég gafst s.s. upp á bókinni og veit því enn ekki hvernig vegferð þeirra lýkur, og efast um að ég nenni að taka upp þráðinn og þræla mér í gegnum hana til að komast að því.

Það er kannski rétt sem sumir segja um að maður eigi að láta vera að lesa aftur bækurnar sem maður dýrkaði í æsku?

4 ummæli:

  1. Þetta minnir mig á þegar ég, tíu ára, fékk að horfa á "ævintýramyndina" Caligula eitt kvöldið. Lýsingar RÚV á bíómyndum að slá í gegn enn og aftur.

    SvaraEyða
  2. Hahaha, ég sá Caligula 24 ára og hef varla jafnað mig enn.

    Ég missti alveg af bæði Ísfólkinu og Þjóð bjarnarins mikla en man feiknalegar vinsældir þeirra vel. Konan á bókasafninu í Melaskóla fitjaði einu sinni upp á nefið yfir bók sem ég vildi taka, en það var nú bara hún Nancy Drew. Reyndi að pranga Önnu í Grænuhlíð inn á mig í staðinn, það er ein leiðinleg bók.

    SvaraEyða
  3. Einhverra hluta vegna las ég þessar aldrei, finnst að ég hafi vitað af þeim en þekkti engan sem var að lesa þær og man ekki eftir að hafa séð þær á bókasöfnum. Las Ísfólkið samt oftar en einusinni og enginn skipti sér af því (bókasafnskonan í Austurbæjarskóla reyndi bara einusinni að skipta sér af lesháttum mínum, í fjórða bekk, út af Agötu Christie). En ég á þær þá bara eftir! Og er ekki til bíómynd líka? Sá hana aldrei sjálf, en þegar við vorum svona 6-7 ára var vinkona mín nýbúin að sjá hana og sagði mér hvernig fólkið hefði farið hvert upp á annað einsog dýr (sem við föttuðum ekki alveg, en samt nógu mikið til að finnast það fyndið) og aðalpersónan hét Æla (sem var náttúrlega mega fyndið).

    SvaraEyða
  4. Jújú það er víst til arfaslök bíómynd með Daryl Hannah í aðalhlutverki. Auel var víst hundfúl yfir útkomunni. En annars er þetta svona bálkur sem væri hægt að gera ægilega tæknilegar myndir eftir, með tölvuteiknuðum mammútum og svona.

    SvaraEyða