Mér hefur alltaf þótt áhugavert þegar ég hef komið í sumarbústaði starfsmannafélaga að kanna bókakostinn. Stundum virðist hafa tekist að betla einhvern pakka út úr bókaforlögum fyrir lítið, líklega einhverjar bækur sem hafa selst illa og taka upp mikið pláss á lagernum. Algengast er kannski að sjá einhvern samtíning af bókum sem fólk hefur skilið eftir og ekki verið neitt sérstaklega annt um, gjarnan reyfara og nokkrar rauðar ástarsögur. Og svo er oft einhver slatti af barnabókum. Á hótelum og gistiheimilum geta svo líka verið hillur með bókum fyrir gesti og það væri afar intressant stúdía að skoða hvernig bækur lenda í því hlutverki að vera til taks fyrir ferðalanga á hinum ýmsu stöðum. Í raun væri ekki vitlaust að gera heildarskrá yfir þetta bókaúrval, svona ef einhvern ferðaglaðan bókasafnsfræðinginn skyldi vanta verkefni.
Undirrituð var nýlega á ferðalagi og leggur hér fram blábyrjunina á þessari kortlagningu. Fyrir valinu varð skáli Ferðafélags Íslands í Hvanngili (ég mun auðvitað aldrei ljóstra því upp að ég hafi verið þar hölt að bíða eftir ferðafélögum mínum og mér hafi leiðst). Eins og gefur að skilja má þarna finna allnokkra árganga af Árbók Ferðafélags Íslands. Reyndar láðist mér að gera úttekt á árbókinni og ég get því ekki frætt ykkur um það hvort einhver ár vantar þarna inn í safnið. Auk árbókanna hefur skálinn að geyma nákvæmlega þrjár bækur og engin þeirra er einhver dæmigerð sumarbústaðabók. Satt að segja er engin þeirra þessleg að maður ímyndi sér að einhver hafi farið að drösla henni með sér í hálendisferð, en það er svo sem allur gangur á því hvað fólki dettur í hug.
Fyrst ber að nefna Mannfagnað eftir Guðmund Finnbogason sem gefin var út af Ísafoldarprentsmiðju árið 1937. Bókin er safn af tækifærisræðum sem Guðmundur hafði haldið hér og þar af hinum ýmsu tilefnum. Efnisyfirlitið er nánar tiltekið svona: Minni kvenna, Full jarðar, Dans og skautaferðir, Bogastrengurinn, Barnseðlið, Útburðir, Minni Íslands, Jónas Hallgrímsson, Björnstierne Björnson, Dætur Göngu-Hrólfs, Svartiskóli, Hannes Hafstein, Skáldaþjóðin, Matthías Jochumsson, Umboðsmaður Vestur-Íslendinga, Einar Benediktsson, Stephan G. Stephansson, Guðmundur Friðjónsson, Íslenzkar konur, Að gera hreint fyrir sínum dyrum, Minni Frakklands, Dr. Helgi Péturss, Þjóðsöngvar vorir; Framtíðin í Flóanum, Minni Jóns Sigurðssonar, Á réttarvegg, Lesa og skrifa list er góð, Minni kvenna, Prófessor Magnus Olsen, Fáninn, Heill dagr!, Einar H. Kvaran, Minni prentaranna, Ávarp til Vestur-Íslendinga, Kennslukaupið, Sumardagurinn fyrsti, Hafnarfjörður, Upphaldsmenn, Stúdentar, Minni sjómanna, Sextugur, Scheherasade og Dinarsade, Íþróttamenn, Kristmann Guðmundsson, Hallgrímur Pétursson, Minni Rangárþings, Íþróttahyggja, Kjarval, Matthías Jochumsson, aldarminning, Jólagleðin, Sænska listsýningin, Vatn er bezt.
Guðmundur (1873-1944) var sálfræðingur og lagði stund á ýmis fræðastörf, var ritstjóri Skírnis á ýmsum tímabilum, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og háskólarektor í tvö ár. Auk þess fékkst hann við þýðingar og barðist fyrir úrbótum í menntamálum og starfaði sem landsbókavörður. Stundum er talað um hann sem heimspeking fremur en sálfræðing og kannski má segja að hann hafi fengist við hvort tveggja, heimspeki og sálfræði. En tækifærisræðurnar eru ekki fræðilegar greinar heldur þankar Guðmundar um hitt og þetta, misháfleygir.
Ég las nú ekki alla bókina heldur greip niður hér og þar og verð að játa að það sem ég las fannst mér lítið meira spennandi en gerist og gengur með tækifærisræður. Þetta safn hefur núna, 74 árum síðar, vissulega ákveðið heimildagildi og gaman að skoða það af þeim sökum en mikið þyrfti mér að leiðast til að ég legði í að lesa þetta spjaldanna á milli. Og það þrátt fyrir lofgjörð Richards Beck um ritið sem birtist í vestur-íslenska dagblaðinu Heimskringlu þann 6. júlí 1938.
Bók númer tvö er svo Dóttir Rómar (ít. La Romana) eftir Alberto Moravia sem kom út hjá Setbergi 1951 í íslenskri þýðingu Andrésar Kristjánssonar og Jóns Helgasonar. Réttast er að birta hér það sem stendur aftan á kápunni:
„Með öruggum skilningi á atburðum og sálarlífi og jafnöruggum frásagnarhætti lýsir Moravia hugrenningum og tilfinningum portkonunnar með hennar eigin orðum. Hún segir ævisögu sína á hógværan og látlausan hátt, segir jöfnum höndum af sjálfri sér og þeim mönnum, sem lagt hafa lag sitt við hana, og lætur aldrei glepjast af volulegri tilfinningasýki, þrátt fyrir dapurleg örlög. Stundum er að vísu þunglyndisblær á frásögn hennar, en hún kvartar ekki. Hún sættir sig við tilveruna eins og hún er. Í rauninni á hún ekki sjálf mikla sök á því, að hún dregst niður í svaðið. Aðrir hafa átt drjúgan þátt í því – móðir hennar, unnusti og kunningjar. En enginn þessara aðila gerir sér fyllilega ljóst, hvað þeir hafa gert. Þeir hafa aðeins verið hlekkir í keðju atvikanna, sem leiddu stúlkuna út á götuna. Þessi framvinda er svo blátt áfram, miðað við persónur og umhverfi, að manni finnst, að öðruvísi hefði alls ekki getað verið. Það er ekki hægt að ásaka stúlkuna. Enginn getur leyft sér að líta niður á hana. Hún er hvorki betri né verri en margir aðrir, sem kallað er að lifi heiðarlegu lífi á borgaralega vísu. Hún er raungóð manneskja, sem knúin er af atburðarás, er hún fær ekki við ráðið, út á eymdarbraut saurlifnaðarins.“Þetta segir bókmenntagagnrýnandinn mag. arg. E. K. Westergaard um „Dóttur Rómar“. Að lokum skulu undir strikuð ummæli C. P. Snow í Sunday Times, þegar hann segir um Alberto Moravia: „Ég held, að hann sé einn af beztu rithöfundum, sem nú eru uppi.“
Þessi bók finnst mér nógu áhugaverð til þess að ég náði mér í hana á öðru bókasafni eftir að ég var komin í bæinn og er núna í miðju kafi að lesa hana. Það er aldrei að vita nema ég skrifi síðar ítarlegri umfjöllun um hana. En í millitíðinni læt ég nægja að vísa hér á stutta en áhugaverða umfjöllun um Moravia og á heldur neikvæðan dóm úr The New York Times frá 1956 um kvikmyndina sem gerð var eftir þessari bók með Ginu Lollobrigida í hlutverki Adríönu, söguhetjunnar.
Þriðja bókin, sem ég útvegaði mér líka eftir að komið var í bæinn, er Drekinn skiptir ham. Ferðapistlar úr Kínaför (sæ. Den förvandlade draken. En resa i Kina) eftir Artur Lundkvist, sem kom út hjá Máli og menningu 1956 í íslenskri þýðingu Einars Braga Sigurðssonar. Eins og titillinn gefur til kynna er þetta frásögn af ferð Arturs Lundkvist til Kína en jafnframt full bjartsýni í garð hins nýja alþýðulýðveldis. Það er líklega ekki rétt að kalla þetta hreina lofgjörð, því inn á milli bregður fyrir einni og einni krítískri athugasemd, en það fer ekki á milli mála að bókarhöfundur er fullur hrifningar af þjóðfélagsþróun í Kína og að hann bindur miklar vonir við kínverskan kommúnisma. Í ljósi sögunnar má finna margt broslegt í þessum skrifum. Og kannski er líka eitthvað einfeldningslegt við þau; Lundkvist virðist svo sannarlega hafa gleypt allt hrátt sem að honum var haldið á ferðum hans. Í umfjöllun sinni um „rannsókna- og játningafundi“ þá sem haldnir höfðu verið í þeim tilgangi að uppræta spillingu segir hann til dæmis: „En meginárangur þessarar baráttu er aukinn skilningur almennings á hinni nýju hagsmunalegu samstöðu þegnanna og ábyrgð hvers og eins gagnvart þjóðarheildinni. Heiðarleiki, sparsemi, refjalaust réttlæti gagnvart hverjum manni urðu ófrávíkjanlegar þjóðfélagsskyldur“ (bls. 292).
Lundkvist fer fremur lofsamlegum orðum um Maó, segir frá betlikerlingu sem komist hefur til metorða undir hinu nýja þjóðskipulagi, glæstri menningu, munaðarleysingjaheimili fullu af hamingjusömum börnum þar sem kaþólikkar hefðu áður rekið hálfgerðar útrýmingarbúðir og fleiru í svipuðum dúr. Lundkvist segir af mikilli hrifningu frá framförum í fangelsismálum í kaflanum „Afbrotamenn og skækjur, sem hafa bætt ráð sitt“. Þar heimsækir hann eina „af fimm betrunarstofnunum Sjanghæborgar“: „Það kemur í ljós, að flestir vistmannanna teljast hafa fengið fullan bata, en dveljast hér áfram af frjálsum vilja og fá greidd laun eftir vinnuafköstum, frá 170 000 til 700 000 yuan á mánuði auk fæðis og húsnæðis“ (bls. 155). Val á viðmælendum í fangelsisheimsókninni virðist ekki vekja tortryggni hans: „Við biðjum um að fá að tala við nokkra af vistmönnunum, og okkur er leyft að velja tvo úr hópnum, en stjórnendur stofnunarinnar velja aðra tvo (til að tryggja það, að við náum tali af mönnum, sem raunverulega hafa frá einhverju að segja og geta það)“ (bls. 156).
Bókin er skreytt ljósmyndum úr ferðinni, sem gaman er að skoða. Ýmislegt fleira mætti segja um hana og hún er vel þess virði að vera lesin en ég ætla hér að enda á tilvitnun sem mér fannst óborganleg:
Aðstöðumunur karls og konu hefur einnig verið afnuminn eftir föngum. Konurnar eru loksins orðnar jafningjar karlmannanna og virðast fremur reyna að dylja kvenleika sinn en hampa honum. Sökum þess að þær eru klæddar eins og karlmenn, eru margar þeirra einnig mjög áþekkar karlmönnum í vexti – engan veginn víst, að mjaðmirnar og vel falin brjóstin komi upp um þær. (Og allt um það hafa þær brjóst, sem þær geta allt í einu og feimnislaust töfrað fram: kona sem býður barni sínu svellandi mjólkurríkt brjóst.)
Hjá kínverskum konum vottar ekki fyrir ytri tilraunum til kynörvunar. Yfirleitt bera kínverjar kynferðislegar hneigðir ekki utan á sér. Kynlífið virðist vera þeim svo eðlilegt og sjálfsagt, að þess verði naumast vart. Sjálfsafneitun að ætla mætti, en getur allt eins stafað af algjörum skorti á tilhneigingum til sjálfsafneitunar.
En sannarlega eru þær frelsaðar að sjá, kínversku konurnar, sem hafa verið svo lengi innilokaðar og niðurlægðar. Allt í einu hafa þær skundað fram á sjónarsviðið, ótrúlega frjálslegar, fullar af þrótti og lífshungri, tekið við stöðu sinni sem jafningjar karlmannanna, vinnufélagar þeirra og lífsförunautar. Og frjálsastar allra virðast hláturmildu ungu stúlkurnar, sem sveifla löngum fléttunum eða kasta til klipptu sléttu og hrafnsvörtu hárinu (bls. 15).
Þetta þykir mér sannarlega verðugt rannsóknarefni!
SvaraEyðaOg einhverntímann á lífsleiðinni ætla ég að taka mér frjálsar kínverskar konur til fyrirmyndar og TÖFRA fram brjóst.
Rosalega held ég að Dóttir Rómar sé spennandi bók! Aftanákáputextinn er allavega algjör snilld.
SvaraEyðaNúna langar mig til að lesa þessar bækur, nema kannski Mannfagnað, en það liggur nú við því samt...
SvaraEyðaÉg las dóttur Rómar þegar ég var barn (fékk hana á Bókasafni Hafnarfjarðar) og fannst hún frábær en man samt ekkert eftir henni.
SvaraEyðaÉg les kannski tækifærisræður Guðmundar allar með tölu við tækifæri. Bókin var í útláni hjá Landsbókasafninu þannig að einhver hefur greinilega áhuga á þeim.
SvaraEyðaEn Guðrún Elsa, gættu þess bara að lenda ekki á eymdarbraut saurlifnaðarins.
Brillíant færsla og efni í mikinn bálk. Það fyrsta sem ég geri á gististað er yfirleitt að skanna lesefnið - þ.e.a.s. þegar ég er búin að lesa gestabókina, sem mér finnst vandræðalega skemmtilegt. Mér þætti forvitnilegt að vita hvernig bókakosti er háttað á erlendum gististöðum. Þetta er eitthvað svo séríslenskt safn alltaf hreint, og eins og frá öðrum tíma.
SvaraEyðaÉg hef tvisvar sinnum gist á Mornington-hótelinu á Nybrotgatan í Stokkhólmi. Þar er æðislegur bar fullur af gömlum bókum, gestamótakkan er eiginlega eitt risastór bókasafn og maður má alveg taka með sér bækur upp á herbergi. Þetta er auðvitað uppáhaldshótelið mitt í Stokkhólmi. http://www.mornington.se/stockholm/Restaurant.aspx
SvaraEyða