Það getur verið vandræðalegt að skrifa um bækur sem maður er rosalega hrifinn af, rétt eins og rosaleg hrifning almennt getur verið vandræðaleg. Maður hættir að minnsta kosti á kjánaskap og væmni. En verandi svona hrifinn er manni náttúrlega alveg sama.
Í maí síðastliðnum heimsótti ég Bandaríkin í fyrsta skipti og keypti þar slatta af bókum, sumum nýjum en fleiri notuðum. Ef ekki hefði verið takmarkað rúmmál ferðatöskunnar hefðu þær orðið mun fleiri. Ein hinna notuðu sem varð fyrir valinu var lítil, þykk og gulnuð bók að nafni Wonderland (1971), fjórða skáldsaga hinnar bandarísku Joyce Carol Oates.
Ég hafði ekkert lesið áður eftir Oates en kannaðist við nafnið, án þess að muna hvaðan (sem kom á daginn að var úr druslubloggi Þórdísar síðan í vor). Undralandið fylgdi mér semsagt frá Ameríku og hófst lestur fljótlega eftir heimkomuna.
Ekki líkaði mér allskostar við hana í fyrstu. Það var líkt og eitthvað við upphaf og inngang sögunnar passaði ekki við þá mynd sem ég hafði gert mér af henni fyrirfram, byggt á káputexta og -mynd (og óljósum fordómum í garð gamalla Bandaríkjakvenna sem hafa gefið út bækur í fleirtölu á ári, áratugum saman).* Kjánaleg ályktun þegar ég hugsa hana upphátt og eftirá, en einhverra hluta vegna átti ég bágt með að trúa að þessar upphafssíður, sem mér virtust takmarkaðar, yfirmáta morbid og vonlitlar, gætu leitt þangað sem þær virtust þó myndu þurfa að fara.
Nú hef ég lesið fimm skáldsögur og nóvellu eftir Oates og efast ekki lengur um að sögurnar hennar komist hvert sem þær þurfa. Það er einmitt einkenni á sérstaklega lengri skáldsögunum að teygja sig gríðarlega langt og vítt, yfir löng tímabil og gegnum miklar breytingar á bæði ytri þjóðfélagsaðstæðum og lífi persónanna, án þess þó að tapa trúverðugleikanum hið minnsta. Sögur eins og Wonderland eða The Gravedigger‘s Daughter láta lítið yfir sér í byrjun en síðan líkt og stigmagnast í margar áttir samtímis, þó aldrei úr augsýn. Þetta eru sögur af því taginu að geta verið epískar að umfangi, skelfilegar og átakanlega hræðilegar, um morð og sjálfsmorð, fátækt og örbirgð, nauðganir, ofbeldi, kúgun og ótta - en líða samt áfram svo átakalaust og eðlilega, líkt og öðruvísi hefðu hlutirnir ekki getað farið. (Eins og lífið!) Fjölskyldur slitna sundur, persónur ganga gegnum ótrúlegar hörmungar, flýja upprunann tilneyddar og móta sér nýtt sjálf við nýjar aðstæður á ótrúlega grípandi og sannfærandi hátt. Ég skrifa ótrúlega og ótrúlega, en á auðvitað einmitt við það að einhvernveginn tekst Oates að gera skil öllum þessum margbrotnu atburðum og tilfinningum á ofur trúlegan og jafnvel hversdagslegan hátt.
Það mætti ætla að höfundurinn Oates byggi yfir algerum skilningi á mannskepnunni – en við nánari umhugsun gengur það ekki upp, enda sumir hlutir þannig að enginn fær skilið til fulls. Líklega má kalla það innsýn frekar en skilning, einnig inn í það að ekki þarf alltaf að skilja allt - að það getur samt verið hægt að lýsa því. Hún lýsir óskiljanleika lífsins. Um leið deilir hún hart á kúgara í ýmsum myndum, fátækt og ójöfnuð og ameríska drauminn og er líka femínísk almennt (raunar myndi ég kalla öll verk hennar sem ég hef lesið mjög femínísk, með eins vel heppnuðu móti og skáldverk geta yfirhöfuð verið pólitísk). Svo ég leyfi mér að vitna í ofannefnda bloggfærslu Þórdísar: „Hún virðist vera að reyna að fanga Bandaríki nútímans, koma böndum á þau og lýsa þeim í allskonar flóknu samhengi og til þess notar hún skáldskapinn“ – ég er ekki frá því að það sé að takast hjá henni.
Ég gæti skrifað miklu meira um Oates, einstök verk og stíl almennt – t.d. hvernig hún notar sendibréf og tölvupósta í textanum – en í bili læt ég duga þá fullyrðingu að hún skrifar alvöru skáldskap. Án þess að vera viss um hvers konar skáldskapur fengi þá falleinkunn fyrir alvöru finnst mér henni rétt lýst þannig. Auðvitað hef ég oft lesið skáldsögur sem mér fundust ekkert spes. Mér finnst skáldsögur líka geta verið góðar án þess að vera brillíant, og mér finnst þær reyndar mjög sjaldan brillíant. En Joyce Carol Oates finnst mér algjörlega brillíant.
*) Oates virðist ansi forvitnilegur karakter, skrifar náttúrlega ofurmikið (m.a. einhverjar einkennilegar fabúleringar um fagurfræði boxíþróttarinnar, að mér skilst). Hún segist þó ekki endilega skrifa á hverjum degi, hvað þá allan daginn. (Í framhjáhlaupi má nefna að samkvæmt viðtali við Sofi Oksanen sem ég las um daginn vinnur hún 10-12 tíma á dag, ALLA daga. Og á sér engin áhugamál utan vinnunnar.)
Hún er brilljant. Ég minni á stutta færslu frá því um daginn um bók eftir Oates: http://bokvit.blogspot.com/2011/07/kennarablti-og-hamskipti.html
SvaraEyðaJá! vel á minnt.
SvaraEyðaÉg hef líka lesið ansi magnaðar smásögur eftir hana og mér fannst Beasts alveg frábær.
SvaraEyðaOg svo las ég líka eina úllabók eftir hana sem hét Sexy og var ekkert spes.
Blonde er ein magnaðasta bók sem ég hef lesið! Þegar ég kláraði hana var ég orðinn æstur Oates aðdáandi og ákvað að halda með henni í "Óskarnum" þar til yfir lyki og ætlaði að lesa allar (!) bækurnar hennar. We were the Mulvaneys olli mér hins vegar svo miklum vonbrigðum að ég hef ekki lesið neitt síðan. Ekki að hún hafi verið illa skrifuð, hún var þvert á móti mjög vel skrifuð en umfjöllunarefnið, eitthvað svona uppbrot amerísku kjarnafjölskyldunnar, höfðaði ekki alveg til mín. En ég þarf að fara að komast á Oates sporið aftur, vill einhver mæla með bók?
SvaraEyðaVið þurfum að bjóða Oates á næstu Druslubóka-bókmenntahátíð.
SvaraEyðaHvað er úllabók?
SvaraEyðaÉg er búin með, auk Wonderland og Gravedigger's Daughter: The tattooed girl, Rape - a love story, Foxfire - confessions of a girl gang og Big mouth, Ugly girl. Fannst þær allar góðar.
Úllabók er unglingabók. Afsakið slangrið.
SvaraEyðaOates er greinilega að verða næstum jafn elskuð hjá druslubókadömum og Camilla Läckberg er hötuð. Ég þarf greinilega að fara að lesa vel valdar bækur eftir hana.
SvaraEyða