31. mars 2011

Viðtalsbók við afkastamikinn höfund

Joyce Carol Oates er með rosalegt plan, það er gígantískt prójekt í gangi og sennilega má tala um köllun. Hún virðist vera að reyna að fanga Bandaríki nútímans, koma böndum á þau og lýsa þeim í allskonar flóknu samhengi og til þess notar hún skáldskapinn. Ég hef bara lesið eina bók eftir Joyce Carol Oates, Blonde, sem er skálduð ævisaga Marilyn Monroe og mikill múrsteinn. Ég var frekar ánægð með þá bók, sem ég las skömmu eftir að hún kom út árið 2000. Neðst á Wikipedia-síðu um Oates er listi yfir verk hennar, ég nenni ekki að telja þau en þetta er gríðarlegt höfundarverk svo ekki sé meira sagt. Oates er reglulega orðuð við Nóbelinn, en kannski tapar skáldkonan á afköstunum, hugsanlega nennir sænska akademían ekki að þvælast í gegnum höfundarverkið auk þess að þurfa stöðugt að vera að lesa eitthvað nýtt sem kemur út eftir hana. En kannski er hún líka mjög mistæk, ég er of illa að mér til að geta sagt til um það.

Joyce Carol Oates vaknar snemma, byrjar strax að vinna og vinnur og drekkur te til klukkan tvö. Síðan hjólar hún eða skokkar og svo les hún handrit seinnipartinn en hún rekur bókaútgáfu og gefur út bókmenntatímarit með manninum sínum (eða gerði það allavega þegar viðtalsbókin við hana kom út árið 2003, nú er maðurinn sem hún átti í áratugi dáinn og hún á nýjan mann). Hún vinnur alla daga ársins og tekur sér aldrei frí!

Bókin sem ég var að lesa heitir Joyce Carol Oates - Samtal med Stig Björkman. Þetta er sem sé viðtalsbók kvikmyndagerðarmannsins Björkmans við skáldkonuna, en hann hefur áður gert svona viðtalsbækur, m.a. eina ágæta við Woody Allen. Bókin var unnin þannig að Björkman tók viðtöl við Joyce Carol Oates í eigin persónu, hringdi stundum í hana, þau skrifuðust á og síðan skrifaði Stig Björkman líka eigin ritgerðir um verk Oates og birtir þau í bókinni. Þau höfðu ekki tölvupóstsamskipti því Oates var búin að loka tölvuna inni í skáp og notaði bara ritvél og blöð og blýanta því henni fannst óþægilegt að nota tölvu.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók þótt óneitanlega hefði ég þurft að vera betur lesin í verkum Oates, það er mjög mikið fjallað um einstakar bækur hennar. En viðtölin við hana þar sem hún ræðir um uppvöxt sinn, ævi og bandarískt þjóðfélag eftirstríðsáranna eru mjög áhugaverð.

Oates skrifar skáldskap um fjölskyldulíf Ameríkana, börnin og nágrannana, stútfullu matvöruverslanirnar, drive-in bíóin og lífið í úthverfunum, stéttaskiptinguna, fátækt sumra og ríkidæmi annarra, valdaleysi einstaklingsins og ofbeldið sem allsstaðar er sýnilegt. Í bókunum hennar er mikið um fjölskyldur sem eru að leysast upp, hún rýnir í samfélagið og gagnrýnir. Oates hefur áhuga á allskonar hlutum, til dæmis hefur hún mikinn áhuga á box-íþróttinni og hefur skrifað um hana og tengir hana stríðsþorsta, sem hún telur vera innbyggðan í manneskjuna (ég held nú reyndar að hún sé eitthvað úti að aka í þessu).

Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið þýtt eftir Joyce Carol Oates á íslensku en lestur þessarar viðtalsbókar varð til þess að mig langar að lesa meira eftir hana.

Þórdís

3 ummæli:

Guðrún Lára sagði...

Æ, þú stalst frá mér færslu sem ég var búin að ákveða að skrifa. Hún átti að fjalla um hvernig ég ákvað fyrir nokkrum árum að veðja á Joyce sem Nóbelsverðlaunahafa og vinna í því að lesa sem mest eftir hana þannig að ég gæti verið ótrúlega fróð og töff þegar tilkynnt yrði um verðlaunin.

En mér gengur sem sagt ekkert rosalega vel með markmiðið. Er bara búin að lesa tvær bækur, einmitt Blonde, sem ég elskaði, og We were the Mulvaneys sem mér fannst ógeðslega leiðinleg. Spurning hvort ég verði að skipta um hest í miðri á?

Unknown sagði...

Ég er einmitt að lesa Black girl, white girl eftir Oates þessa dagana. Hún fer a.m.k. vel af stað.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það má stela færslum sem einhver ætlar að skrifa ;)