Kannski rámar einhver ykkar í frétt úr erlendum dagblöðum frá árinu 2007. Fréttin sagði frá heimspekingi sem ásamt eiginkonu sinni stytti sér aldur í sumarhúsi þeirra austur af París. Fyrir það sem á eftir kemur er ágætt að rifja það upp.
Dag einn síðla í september, þegar hreingerningarstúlkan sem þjónaði André og Dorine Gorz, kom að húsinu til að sinna skyldum sínum, sá hún að miði hafi verið festur á útidyrnar: „Hringið á lögregluna. Ekki koma upp.“ Hjónin fundust svo látin hlið við hlið í hjónarúminu. Dorine hafði átt við erfið veikindi að stríða árum saman og þau gátu ekki hugsað sér að skiljast. Hann var 84 en hún 83 ára.
Ári áður kom út í Frakklandi bókin Lettre à D. Histoire d’un amour þar sem Gorz ávarpar konu sína. Bréfið naut mikilla vinsælda meðal franskra lesenda og kom út í enskri þýðingu að Gorz látnum.
Til að byrja með var ég var á báðum áttum. Eintal aldraðs heimspekings hljómar ekki sérlega áhugavert lesefni. Ég hef satt að segja ekki tölu á þeim bókum eldri manna sem legið hafa á mínu náttborði og eru ritaðar undir einhverju yfirskyni, en eru í raun bara röfl og sjálfsupphafning þar sem minnst er á aðra merka menn, eina og eina konu í framhjáhlaupi og blessuð námsárin. Ég þurfti ekki að lesa lengi til að átta mig á því að bréfið hans Gorz er laust við allt það sem svo gjarnan einkennir slíkar sjálfsbókmenntir.
Rithöfundurinn, blaðamaðurinn og aktívistinn André Gorz var nokkuð áhrifamikill maður á sinni tíð. Hann var af austurrísku bergi brotinn, fæddur í Vín en flúði til Sviss í síðari heimsstyrjöldinni. Þaðan fluttist hann til Parísar fyrir tilstilli Sartre, en Gorz kynntist Sartre og Beauvoir þegar þau voru á ferðalagi í Sviss. Í París starfaði Gorz sem blaðamaður og rithöfundur allt sitt líf. Á fræðilega sviðinu var hann undir sterkum áhrifum af marxisma. Hann skrifaði mikið um vinnu, framleiðslu og annað eftir því. En hann var líka einn aðalfrumkvöðullinn á sviði pólitískrar vistfræði og helgaði sig þeim fræðum á síðari árum. Sjálf heyrði ég fyrst um hann í gegnum verk Ivan Illich en þeir voru nánir vinir og samstarfsmenn.[1]
Gorz hitti hina bresku Dorine fyrst haustið 1947 og lýsir hann fundum þeirra sem ást við fyrstu sýn. Þau voru saman upp frá því. Giftu sig fljótlega, bjuggu saman, unnu saman og voru óaðskiljanleg. Þau voru ólík. Hún var lífsglöð, afslöppuð og hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Hann var þyngri í skapi og botnaði aldrei í því að þessi ómótstæðilega kona skyldi kæra sig um að leggja lag sitt við hann. Þau voru um margt óvenjulegt par. Þau gátu ekki án hvors annars verið í nokkra klukkutíma og þau ákváðu snemma að samband þeirra skyldi vera barnlaust. Gorz lét síðar hafa það eftir sér í blaðaviðtali að hann hefði ekki getað hugsað sér að deila Dorine með neinum, ekki einu sinni börnum þeirra.
Um fimmtugt veiktist Dorine af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún ákvað að kljást við veikindi sín án aðstoðar hefðbundinna lyfja og vestrænna lækninga, enda má skilja það af skrifum Gorz að veikindi hennar hafi einmitt orsakast af íhlutun læknisfræðinnar. Nokkrum árum áður var litarefni sprautað í Dorine til þess að taka röngenmynd af mænu hennar og líkaminn náði ekki að losa sig við efnin. Eftir að Dorine veiktist vörðu þau hjón tíma sínum að mestu út í sveit, þar sem þau ræktuðu matjurtir, stunduðu jóga og voru sjálfum sér nóg. Gorz tók virkan þátt í að gagnrýna nútíma læknis- og lyfjafræði meðan Dorine reyndi að lina kvalir sínar með öllum tiltækum ráðum. Síðar greindist hún með illvígt krabbamein til viðbótar við taugasjúkdóminn.
Letter to D hefur öll þau sígildu einkenni sem alvöru ástarjátning þarf að hafa til að bera. Gorz lýsir konunni sinni í smáatriðum – líkama hennar og anda, háttum hennar og hvernig annað fólk sá hana og brást við henni. Lesandinn getur ekki annað en orðið ástfanginn af þessari bresku stúlku. Hún er svo óvenjuleg, klár og skemmtileg. Hún laðar að sér manneskjur og dýr. Hún eldar hollan og góðan mat. Hún fyrirlítur prjál og neyslu, neitar að tolla í tískunni en er alltaf klassísk, svo óumræðanlega glæsileg og tímalaus.
Það er eitthvað yfirmáta tragískt við þessa ástarsögu. Það er eftirtektarvert hversu harður Gorz er við sjálfan sig. Honum finnst hann alls ekki hafa verið samboðinn Dorine og hann iðrast. Til dæmis er honum ofarlega í huga myndin af Dorine sem hann dró upp í sögunni The Traitor, sem hann skrifaði um þrítugt og er að hluta sjálfsævisöguleg. Stúlkan sem þar birtist lesendum er óframfærin og öðrum háð, talar lélega frönsku og á erfitt með að eignast vini. Hann þráspyr sig hvers vegna í ósköpunum hann hafi lýst henni á þann veg, þegar hún var í raun algjör andstæða þess – lífleg, afslöppuð og eftirsótt. Maður getur ekki annað en fundið til með þessum gamla manni, sem ásakar sjálfan sig svo mjög fyrir eitthvað sem maður áttar sig ekki stundum á hvað er. Hann talar sjálfan sig svo niður að stundum spyr maður sig sömu spurningar og hann sjálfur: hvað sá hún eiginlega við hann?
Bókin er stutt, enska þýðingin telur ekki nema 130 síður með eftirmála. Hún er minnisstæð samtímalýsing. Við sjáum Evrópu rísa upp eftir seinni heimsstyrjöldina, fylgjumst með stúdentaóeirðum í París og hræringum í fjölmiðlum. Við verðum vitni að ofurtrú samfélags á nýjustu tækni og baráttu hugsandi fólks gegn henni.
En fyrst og fremst er ástarbréfið heimild um manninn André Gorz og konuna hans Dorine. Lesið bréfið. Það mun koma út á ykkur tárum.
Hilma
[1] Handahófskennd leit í marxískum fræðum heimilisins leiddi í ljós að Gorz er getið víða. Negri og Hardt vísa til dæmis í hann á nokkrum stöðum í Empire bls. 422 (nmgr 16), 458 (nmgr. 18) og 472 (nmgr. 5) og Deleuze og Guattari ræða hugmyndir hans á bls. 238 í Anti-Oedipus.
4 ummæli:
Takk fyrir gott bókablogg! Mig langar að lesa þessa.
Ég er sammála Guðrún Elsa, þessi bók hljómar eins og ég gæti kunnað að meta hana.
Sammála, mjög spennandi. Ég man vel eftir fréttinni um þau, en hef aldrei gefið mér tíma í að rannsaka þetta fólk nánar. Sé nú að það eru mistök, sem verður að laga brátt.
hér vantar LIKE takka, en ef hann væri til staðar þá myndi ég ýta á hann.
Skrifa ummæli