31. mars 2011

Uppvakningar, eitrað gas og gufupönk

Cherie Priest er afar afkastmikill bandarískur rithöfundur. Hún hefur skrifað fantasíur, vísindaskáldskap og hrylling, og einhver á Wikipedia flokkar skrif hennar sem „Southern Gothic“, eða gotneskar sögur sem gerast í Suðurríkjum Bandaríkjanna.
Undanfarið hefur hún þó einbeitt sér að gufupönki og hefur skapað heilan heim sem hún kallar Clockwork Century. (Og fyrir þá sem ekki þekkja gufupönk (e. steampunk) þá er það vísindaskáldskapur sem oft er staðsettur á Viktoríutímanum þar sem snjallir vísindamenn hafa skapað hin undarlegustu tól og tæki sem öll eru knúin áfram af gufu)

Sögusviðið í Boneshaker, sem er fyrsta bókin í Clockwork Century bókaflokkinum, er Seattle árið 1863. Bandaríska borgarastríðið geisar en Seattle er draugaborg. Því vísindamaður að nafni Leviticus Blue byggði ógurlega borvél fyrir Rússa sem þeir ætluðu að nota til að grafa eftir gulli í Klondike, en þegar hann prufukeyrði maskínuna gróf hún í sundur borgina (og undir alla bankana og gullhlaðnar hirslur þeirra) og úr iðrum jarðar slapp eitrað gas sem drap alla sem komust í tæri við það. Og ekki nóg með það, heldur risu sumir aftur upp frá dauðum, ófrýnilegir og rotnandi, og fóru að borða þá sem sluppu við eitrið. Eftirlifendur húrruðu þessvegna upp vegg og híma fyrir utan í menguninni og draga fram lífið í sollinum.
Ekkja uppfinningamannsins, Briar Wilkes, býr þar við þröngan kost með sautján ára syni sínum Zeke, þangað til hann hverfur einn daginn. Hún fer að grennslast fyrir um ferðir hans og kemst að því að hann hefur haldið inn fyrir vegginn til að leita að ummerkjum um föður sinn. Briar dustar rykið af gasgrímunni sinni, dregur fram byssuna og fær far með loftskipi inn í mengaða miðborgina. Þar hittir hún skrítna Kínverja og kynlega kvisti og berst við blóðþyrsta uppvakninga og brjálaðan vísindamann.

Briar er afar hörð í horn að taka og leggur allt í sölurnar til að bjarga syni sínum. Hún getur séð um sig sjálf og sjálfstæðið er svo mikið að hún á erfitt með að þiggja hjálp þegar hún er í boði. En auðvitað áttar hún sig á hinu fornkveðna: Enginn er eyland, og sérstaklega ekki þegar maður er með gasgrímu með stífluðum filterum yfir vitunum og þúsund uppvakninga á hælunum og valið stendur á milli þess að vera étinn eða slást í för með handalausri konu, brynklæddum risa og klæðskiptingi sem var einusinni indíánaprinsessa.

Priest er sem stendur að skrifa fjórðu bókina í Clockwork Century heiminum. Hún heldur úti bloggi þar sem hún leyfir lesendum að fylgjast með skrifunum og ég mæli sérstaklega með fyrir rithöfunda sem vilja fá minnimáttarkennd.
Því henni finnast tvö þúsund orð á dag nefnilega vera „low end of respectable“.

Hildur

Engin ummæli: