Síðan langaði mig í kaffi svo ég fór í bakaríið. Þar er kaffitería og hægt að setjast niður og lesa. Í hillu voru nokkrar bækur, m.a. ljóðasafn Einars Más Guðmundssonar, skrásetningar frá skyggnilýsingum með Hafsteini miðli og Saga Sauðárkróks eftir Kristmund Bjarnason í mörgum bindum. Ég valdi sagnaþætti eftir Benedikt frá Hofteigi og á meðan ég drakk kaffið las ég kenningar um að Reynistaðabræður hefðu drepist úr einhverskonar eitrun. Þegar klukkan var orðin tólf og ég vissi að búið var að opna bókasafnið í bænum (ég kannaði auðvitað opnunartímann fyrirfram) fór ég að Safnahúsinu. Í dyrunum stóð Gyrðir Elíasson á spjalli við nokkra innfædda.
Bókasafnið er á efri hæð Safnahússins. Þangað hefði alveg mátt senda nokkra seðla í hinu svokallaða góðæri, gólfteppið í lestrarsalnum er ekkert til að halda upp á. En landsbyggðin naut líklega lítils þegar meintir peningar flæddu á Íslandi. Ég byrjaði á að athuga bókakostinn. Auðvitað kannaði ég fyrst það sem að mér og mínum snýr en fann því miður ekki bækur eftir þær sem skrifa á þessa síðu og eftir leit í Gegni sannfærðist ég um að hvorki Sláttur, Skrælingjasýningin né Leyndarmál annarra eru í eigu bókasafnsins á Króknum. Þá var ég auðvitað að hugsa um að fara í fýlu og finna mér dapurlegan bar til að hanga á fram á kvöld röflandi yfir kúltúrleysinu í Skagafirði. Önnur hugmynd sem kom upp var að ég færi í Skagfirðingabúð og keypti eintök (þar fást allavega Sláttur og Leyndarmál annarra, ég fann enga bókabúð í bænum) og reyndi að pranga þeim inn á bókasafnið, eða í versta falli gefa því þau. Það endaði samt á að ég settist niður, hlustaði með öðru eyranu á mann ræða náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar (sem hann gaf lítið fyrir) við bókavörðinn og gluggaði í nokkrar bækur. Meðal þeirra voru Æviskrár Kjósarmanna, þar sem ég fann klausu um langafa minn
og samtöl við Hitler, sem ég nennti nú ekki að lesa mikið í. Hitlersbókin kom út 1940.
Eftir langa lestrarstund á bókasafninu, þar er líka hægt að komast í tölvu í klukkutíma fyrir 200 krónur, fór ég út og ók sem leið lá út á bryggju, þangað sem ég átti erindi. Á þeirri leið bókstaflega neyddist ég til að gerast druslubókapapparazzinn! Þegar ég rúllaði framhjá gulu húsi sá ég Egil Helgason og Gyrði Elíasson á spjalli. Algerlega óvart var ég með myndavél við hliðina á mér og smellti af einu skoti út um framrúðuna. Það er auðvitað dónalegt að taka myndir í laumi en ég bara breyttist í forhertan Jesúíta og ákvað að tilgangurinn yrði að helga meðalið. Þetta var of gott stöff til að sleppa því.
Egill og Gyrðir spjalla saman við gult hús á Sauðárkróki |
Þú massar papparazzi-inn, Þórdís, ég fyllist lotningu! (Nú fara örugglega að birtast hérna alls konar siðlausar myndir teknar í laumi.)
SvaraEyðaOh, annars elska ég náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar, mikið er gaman að heyra að hún lifir góðu lífi í daglegu spjalli manna...
-Kristín Svava
Ýmis atvik? Voru það ekki ýmsar nauðsynja-orsakir?
SvaraEyðaJú auðvitað, það voru nauðsynja-orsakir!
SvaraEyðaNoh, þú hefur aldeilis hitt vel á. Þeir kumpánar sýnist mér standa fyrir utan æskuheimili Gyrðis við Hólmagrund sem var ekki svona gult þegar hann bjó þar heldur rústrautt. Höfundarferill hans hefur örugglega markast af því.
SvaraEyðaSR
Þetta er einn besti pistill sem ég hef lesið lengi. Úrvals greining á menningarlífi íslensks smáþorps! Fær maður ekki að lesa fleiri svona?
SvaraEyðaTakk. Ætli einhver sé til í að styrkja okkur til að fara um landið í menningarkönnunarleiðangra?
SvaraEyðaSveitarfélagið Skagafjörður er ekki aðili að Gegni og Bókasafnið á Sauðárkróki er þarafleiðandi ekki skráð þar. Það er því ekki skrýtið að þú finnir ekki þessa titla þar :)
SvaraEyðaVesen þegar bókasöfn eru ekki í Gegni. En leit í skrám safnsins skilar reyndar alveg sömu niðurstöðum, þ.e. að umræddar bækur séu ekki til þar.
SvaraEyðahttp://www.skagafjordur.is/displayer.asp?cat_id=667
Einmitt, ég leitaði líka á síðu bókasafnsins sjálfs (en láðist að geta þess). Bækurnar eru ekki til.
SvaraEyðaEn burtséð frá því þá bara verða óskráð bókasöfn að koma sér í gegni. Það hlýtur að vera hægt að koma því við (fá t.d. atvinnulaust fólk í atvinnubótavinnu).
SvaraEyðaBráðskemmtilegur pistill! Þú ert mjög efnilegur papparazzi Þórdís.
SvaraEyðaBókasafnið hér í smáþorpinu er ekki skráð í Gegni en hér eru til margar sjaldgæfar og ansi hreint merkilegar bækur. Tölvan sem bókasafnið ræður yfir er aftur á móti svo eldforn og hæggeng og nettengingin svo tæp að safnvörðurinn nær varla að tengjast Gengni, hvað þá meira.