Ýmsar af bókum Jo Nesbø um Harry Hole hafa haldið fyrir mér vöku. Þær hafa einfaldlega verið svo spennandi að ég hef ekki með nokkru móti getað farið að sofa fyrr en að lestrinum loknum. Gjenferd – eða Afturganga – sem kom út í Noregi fyrr á árinu er níunda bókin í flokknum en búið er að þýða 3.–6. bókina á íslensku.
Af ýmsum ástæðum er Harry utangarðs á nýjan hátt í Gjenferd. Þótt ýmsir kollegar hans hafi verið skíthælar og átökin við þá áberandi í bókaflokknum, þá hefur hann einnig átt gott samstarfsfólk gegnum tíðina sem hefur reynst honum vinir í raun þótt það hafi haft fullmikla tilhneigingu til að deyja frá honum. Nú eru flest tengsl rofnuð eða a.m.k. trosnuð. Fortíðardraugarnir sækja að Harry og hrinda atburðarásinni af stað því Oleg, sonur Rakelar, fyrrverandi kærustu hans, situr í gæsluvarðhaldi í upphafi sögunnar, sakaður um morð. Samband Harrys við þau mæðginin var fokið út í veður og vind en hann einsetur sér að hreinsa Oleg af ásökununum og hefur sjálfstæða rannsókn. Harry var lengi einhvers konar föðurímynd fyrir Oleg og þótt það sé ekki orðað beint, þá er sektarkennd Harrys yfir að hafa brugðist sonarígildinu drifkrafturinn í frásögninni. Fjölskyldukomplexar af þessu tagi sem einkenna svo margar norrænar glæpasögur hafa ekki verið í forgrunni í bókunum um Harry Hole til þessa. Hér setja þeir aftur á móti rækilega mark sitt á söguna, það hefði getað orðið klisjukennt en Nesbø heldur nógu vel á spilunum til að þeir gefa bókinni þvert á móti aukna dýpt.
Þótt hasarinn í Gjenferd sé á köflum heilmikill að vanda er sagan að ýmsu leyti innhverfari en þær fyrri. Harry hefur vissulega verið einfari alla tíð en einsemdin hefur sjaldan verið eins tilfinnanleg og hér. Og þótt líf hans hafi oft verið nöturlegt, einkum vegna yfirþyrmandi alkóhólisma, verður það jafnvel ennþá átakanlegra hér. Reyndar er Harry að mestu edrú í þetta skiptið sem hefði getað verið skref upp á við en aðrir ljósir punktar í lífi hans eru vandfundnir og framtíðarhorfurnar í bókarlok eru sennilega myrkari en nokkru sinni fyrr. Ég var ekki eins viðþolslaus af spennu við lesturinn á þessari bók og ýmsum þeirra eldri en þegar til kom kláraði ég hana samt í einum rykk og sagan reyndist töluvert áleitin. Ég er ansi forvitin að sjá hvað Nesbø gerir næst.
- - - - - - - - - - - - - -
Bókin er fáanleg á Borgarbókasafninu og bókasafni Norræna hússins.
Ég er einmitt að lesa eina Hole bók á sænsku sem heitir Pansarhjärta, veit ekki alveg hvar hún er í röðinni en hún er a.m.k. ekki komin út á íslensku,ætli hún sé ekki 7. eða 8. í röðinni. Hún er rosalega spennandi en ég les hana bara þegar ég er að bíða eftir strætó eða bíða eftir einhverjum á kaffihúsi, hún er sko töskubók hjá mér þessa dagana. Þess vegna fer ég stundum voða snemma út á stoppistöð.
SvaraEyðaJá, Panserhjerte (eins og hún heitir á norsku) er áttunda bókin. Trúi því vel að þú reynir að lengja biðtímann á strætóstoppistöðvunum. Tekst þér alltaf að taka þann strætó sem þú ætlar eða fara út á réttum stað?
SvaraEyðaJá...ég get nefnilega ekki lesið í strætó, þá verður mér óglatt.
SvaraEyðaMæli með bókinni, Doktor Proktor og prumpuduftið, eftir Jo N. Glettin og gríðarlega húmorísk bók fyrir börn á öllum aldri.
SvaraEyða