26. ágúst 2011

Krypplingar og tilviljanir

Það getur verið gaman að lesa ólíkar bækur um tengd efni. Stundum eru slík lestrarþemu meðvituð, fyrir ferðalög sæki ég t.d. oft í að lesa bækur sem gerast í landinu eða borginni þangað sem förinni er heitið og ekki er síðra að halda því áfram meðan á ferðalaginu stendur eða þegar heim er komið.

Sem annars konar dæmi um meðvitað lestrarþema má nefna að Eiríkur Örn Norðdahl einsetti sér í fyrrahaust að lesa einungis pólitískar skáldsögur í eitt ár. Um tíma bloggaði hann um lesturinn og nýlega velti hann einnig upp áhugaverðum flötum á því hvernig hægt er að skilgreina bækur sem pólitískar á mismunandi hátt eftir því hvort ætlun höfundar eða lesanda er lögð til grundvallar.

Kroppinbakur í Antiokkíu á 2. öld
Lestrarþemu eru þó ekki alltaf meðvituð og skipulögð. Stundum dúkkar sams konar atriði upp í hverri bókinni af annarri, algjörlega óforvarandis. Það getur komið skemmtilega á óvart að hnjóta um tengd efni í bókum sem eiga að öðru leyti fátt aða ekkert sameiginlegt.

Um síðustu helgi las ég t.d. fyrir einskæra tilviljun tvær bækur í röð þar sem krypplingar komu við sögu. Sú fyrri var Revelation eftir C.J. Sansom, fjórða bókin í flokki glæpasagna um Matthew Shardlake, kroppinbak og lögfræðing í London á 16. öld, en Maríanna fjallaði um bókaflokkinn í Víðsjárpistli í gær. Æsispennandi plottið og vel unnar lýsingar á tíðaranda, þ.m.t. eiginkvennadramanu kringum Hinrik VIII, trúarbragðaóróa og fölskum tönnum, heilluðu mig svo að ég pantaði samstundis fyrri bækurnar á Borgarbókasafninu (þær voru allar í láni).

Að því búnu velti ég fyrir mér hvað væri best að lesa næst. Það var nokkuð framorðið svo ég taldi upplagt að lesa stutta bók fyrir svefninn og greip Kaffihús tregans eftir Carson McCullers, bók sem kom í neon-bókaklúbbnum í fyrra og hafði farist fyrir að lesa. Kaffihús tregans var ágætis lesning en heillaði mig þó ekki sérstaklega. Kannski réð þar einhverju að ég var með hugann við annað, þ.e. óvæntu tenginguna við bókina sem ég var nýbúin að klára, því Lymon frændi, ein af aðalpersónunum, reyndist líka vera kroppinbakur. London á sextándu öld og suðurríki Bandaríkjanna á fyrri hluta 20. aldar eiga ekki margt sameiginlegt, bækurnar eru gerólíkar að allri gerð og krypplingar eru ekki á hverju strái þannig að mér fannst tilviljunin vægast sagt skondin.

Nú kemur sterklega til greina að halda áfram krypplinga-þemanu. Geta lesendur bent mér á aðrar bækur? Hringjarinn frá Notre-Dame kemur augljóslega til greina en ég er ólm í fleiri ábendingar!

Ég er þó ennþá forvitnari að heyra af sams konar tilviljunum hjá öðru fólki. Hafa ekki fleiri orðið fyrir því að uppgötva óvæntar tengingar milli bóka? Mælendaskráin er opin í kommentakerfinu!

9 ummæli:

  1. Í svipinn man ég ekki eftir neinni krypplingabók en þú gætir kannski fundið ævisögu John Merrick, hann var allavega eitthvað í áttina að krypplingi!

    SvaraEyða
  2. Mér dettur í hug The Secret Garden eftir Frances Hodgson Burnett. Hún er til í tveimur íslenskum þýðingum, sem Töfragarðurinn (frá 1944) og sem Leynigarðurinn (frá 1992). Þar er drengurinn Colin sem geymdur er falinn í herbergi í ranghölum hins stóra húss og hann er sagður kroppinbakur og auk þess er hann lamaður (hey, nú fékk ég skyndilega hugmynd að framtíðarbloggfærslu). Svo fara hin börnin að smygla honum út í ferska loftið og með tímanum, og ekki síst við það að stunda garðyrkjustörf, öðlast Colin fulla heilsu og losnar við kryppuna.

    SvaraEyða
  3. Kunningjakona mín les aðallega bækur um fólk með alvarlega sjúkdóma sem það nær sér af og um börn sem farið var illa með og verða svo rík og fræg á endanum. Það er auðvitað þema!

    SvaraEyða
  4. Það er hroðalegt þema. Einu sinni heyrði ég á tal kvenna á næsta borði á kaffihúsi þar sem ein var að hrósa sér hvað hún hefði lesið mikið á árinu (heilar þrjár bækur, held ég, og það var ábyggilega komið fram í nóvember!) og það voru bara svona bækur um illa meðferð á börnum eða illa meðferð á konum í fjarlægum löndum.

    SvaraEyða
  5. Ég tékka á The Secret Garden! Svo virðist vera komið af stað fatlaðra-þema í bloggfærslum á þessari síðu!

    SvaraEyða
  6. Það er kroppinbakur í 300 myndinni. Er hún ekki byggð á myndasögu sem þú getur lesið? Eða þú getur bara látið þér nægja að horfa á íturvaxna karlmenn í litlum skýlum í staðinn. Kroppinbakurinn í myndinni er sko meira að segja íturvaxinn, en reyndar bara öðru megin.

    En hann er nú svolítið íturvaxinn og sperrtur líka þessi Antiokkíski kroppinbakur á myndinni sem fylgir færslunni.

    SvaraEyða
  7. Jú, kvikmyndin er víst byggð á myndasöguseríu og það er sennilega réttast að ég kynni mér hvort tveggja. Íturvaxinn kroppinbakur hljómar allavega eins og eitthvað sem þarf að kanna nánar.

    Og mikið er ég ánægð með að fá (loksins) komment um myndskreytinguna með færslunni sem mér fannst sjálfri sérlega vel valin!

    SvaraEyða
  8. skemmtilegar tilviljanir, já, ég er svo mikið fyrir svoleiðis.
    ég las á svipuðum tíma the wind up bird chronicle eftir haruki murakami og rokkað í vittula eftir mikael niemi og í báðum var migið á mann ... reyndar voru aðstæður þeirra mjög ólíkar að öllu öðru leyti en mér fannst það samt doltið skemmtileg tilviljun.
    kveðjur til ykkar allra, druslurnar ykkar.

    SvaraEyða
  9. þú lest auðvitað Richard III eftir Shakespeare! Hann var víst ekki krypplingur í alvörunni - eða svo segir einhver Shardlake í "Sovereign" en hann er með kryppu í leikritinu svo það hlýtur að duga! Svo ertu þá líka búin að loka hringnum þar sem Richard kemur svona óbeint fyrir hjá Shardlake!

    Maríanna

    SvaraEyða