Um daginn lofaði ég frekara bloggi um Dóttur Rómar eftir Alberto Moravia og nú er mál að efna það. Bókin kom fyrst út 1949 og vakti talsverða athygli, enda var Moravia velþekktur á þeim tíma. Hún var á eftirstríðsárunum mestselda ítalska skáldsagan í Bandaríkjunum. Í umsögnum má meðal annars finna ummæli á borð við þau að Moravia máli þar napra og afhjúpandi mynd af fasistaríkinu Ítalíu og að hann veiti djúpa innsýn í líf vændiskvenna. Satt að segja fannst mér þessi bók þrugl og kjaftæði frá upphafi til enda og hér fylgja einhverjar skýringar á þeirri skoðun minni.
Bókin er fyrstupersónufrásögn Rómarstúlkunnar Adríönu frá því að hún er sextán ára og eitthvað fram eftir þrítugsaldri (sennilega, það er ekki greint frá því nákvæmlega hve mörg ár hafi liðið). Hún býr ein með móður sinni, fátækri saumakonu, sem hefur þann metnað helstan fyrir hönd dóttur sinnar að hún noti íturvaxinn líkama sinn sér til framdráttar í lífinu. Þannig hefur Adríana starfsferil sinn sem fyrirsæta málara meðan hún lætur sig dreyma um hjónaband, börn og lítið sætt hús. Eftir að afbrýðisöm vinkona narrar hana út í aðstæður þar sem henni er drukkinni nauðgað af lögreglustjóra sem á að heita ástfanginn af henni og unnusti hennar reynist harðgiftur svikahrappur ákveður Adríana á nokkuð yfirvegaðan hátt að gerast vændiskona. Móðir hennar, sem hafði ætíð sett sig upp á móti því að Adríana giftist, virðist hæstánægð með þessa ákvörðun, enda hafa þær mæðgur meiri peninga milli handanna eftir þessar breytingar á starfsvettvangi hennar.
Persónur bókarinnar eru meira og minna allar flatar og ótrúverðugar og ég stóð sjálfa mig að því að hrista höfuðið við hvert skrefið á fætur öðru í söguþræðinum og tauta fyrir munni mér að þetta væri nú ekki sannfærandi. Jafnframt er tilgangurinn óljós, í það minnsta átti ég í basli með að átta mig á því hvað það væri sem höfundur væri að reyna að koma á framfæri. Ég næ ekki að rýna í þetta allt saman hér og held mig við tvö þemu; vændið og ástina.
Á sínum tíma þótti bókin meðal annars merkileg fyrir þær sakir að vændiskonunni væri sýndur skilningur, engin tilraun væri gerð til að áfellast hana fyrir hegðun hennar heldur væri hún sýnd eins og hver önnur manneskja. Að vissu leyti er þetta rétt; Adríana er alls ekki látin vera slæm manneskja og sú mynd sem dregin er upp af henni er í raun jákvæðari en af mörgum af kúnnunum hennar. Hins vegar fyllir afstaða hennar til vændisins mig efasemdum. Hún er til dæmis látin segjast hafa mjög sterka kynhvöt og það er sett fram sem einhvers konar skýring á því hvers vegna henni líkar starfið bara nokkuð vel. Hún virðist nefnilega vera tiltölulega ánægð með starfið. Einstaka sinnum hellist yfir hana einhver örvænting en þess á milli og yfirleitt virðist hún bara sátt. Ekki virðist hún þjökuð af kynsjúkdómum (hún minnist reyndar einu sinni á að hún fari reglulega í læknisskoðun) og það er aðeins einn kúnni af hinum fjölmörgu sem henni stendur einhver ógn af. Það er óhjákvæmilegt að fara að velta því fyrir sér hvort Moravia hafi yfirleitt haft einhverjar forsendur til að draga upp mynd af upplifunum og líðan vændiskonu. Ætli hann hafi tekið viðtöl við vændiskonur við undirbúninginn? Ætli hann hafi átt ættingja eða vinkonur sem stunduðu vændi? Einhvern veginn fæ ég á tilfinninguna að helsta viskan þarna um sálarlíf vændiskonunnar sé upprunnin í hugarheimi Moravia, enda eru þarna ýmsar dæmigerðar karlaklisjur.
Þær hugmyndir sem settar eru fram um ást í bókinni þóttu mér ekki síður skrýtnar og þær urðu mér tilefni til þó nokkurra heilabrota. Lögreglustjórinn Astaríta, sem nauðgar Adríönu (og borgar henni svo fyrir) meðan hún er enn trúlofuð svikahrappinum Gínó og ekki einu sinni farin að hugleiða það að stunda vændi er sagður ástfanginn af henni. Hann gegnir nokkuð veigamiklu hlutverki gegnum alla bókina og ást hans á Adríönu er þar mikið hreyfiafl. Þessi ást (sem maðurinn tjáir svo sannarlega undarlega) á að hafa kviknað úr fjarlægð, áður en hann hafði svo mikið sem talað við hana. Og grunnurinn fyrir ást Adríönu á Giacomo (sem hún kallar líka Mínó—sem nota bene er ekki sama persóna og Gínó), sem á að vera hennar stóra og mikla ást, virðist lítið betri. Hún verður ástfangin af honum eftir að hafa hitt hann einu sinni, að því er virðist aðallega af þeirri ástæðu að hann hafnar henni. Hvernig er það, ætti manneskja sem hefur starfað sem vændiskona í einhver ár ekki að vera alvön alls konar undarlegri og óvæntri hegðun af hálfu viðskiptavinanna án þess að þurfa að hlaupa til og verða ástfangin af þeim fyrir vikið? Adríönu tekst nú svo eftir einhvern eltingarleik að fá Mínó til við sig en hann er allan tímann hinn mesti durtur við hana og veltist um í einhverri sjálfsvorkunn allan tímann, líka áður en hann gerist uppljóstrari og lendir í enn meiri krísu og verður enn leiðinlegri. Í þokkabót laðast Adríana svo líka á einhvern undarlegan hátt að illmenninu og morðingjanum Sonzogno, væntanlega vegna þess að hún heillast af krafti hans eða einhverju slíku. En ég fór að velta fyrir mér hvað Moravia væri að reyna að segja okkur um ástina. Er meiningin hjá honum kannski sú að ást sé alltaf yfirborðskennd, jafnvel þótt við viljum trúa því að svo sé ekki? Að það að vera ástfanginn hljóti alltaf að fela í sér að elska eiginleika sem maður ímyndar sér að viðfang ástar manns hafi, eða sem maður varpar á viðfangið, og þess vegna megi allt eins elska bláókunnuga manneskju? Eða hefur Moravia einhverjar svona naíf rauðuástarsöguhugmyndir um ást sem lýstur niður í fólk á tilviljanakenndan hátt?
Hinn svokallaði Bechdel-staðall hefur verið notaður sem aðferð til að leggja mat á kvikmyndir með tilliti til þess hvort þær gefi viðunandi mynd af konum. Til að standast prófið þarf kvikmyndin að uppfylla þrjú skilyrði: 1) Í henni þurfa að vera a.m.k. tvær konur, 2) konurnar þurfa að tala saman, 3) um eitthvað annað en karlmenn. Þar sem Dóttir Rómar er fyrstupersónufrásögn vændiskonu fannst mér áhugavert að máta hana við Bechdel-staðalinn, en hugmyndinni að beita staðlinum á bækur er stolið héðan. Niðurstaðan hlýtur að teljast neikvæð. Í bókinni talar Adríana við tvær konur, annars vegar við móður sína og hins vegar við Gísellu vinkonu sína. Við Gísellu talar hún bara um karlmenn. Við móður sína talar hún svo sem ekki eingöngu um karlmenn, strangt til tekið. Þær tala þó mikið um karlmenn og þegar samtalið snýst ekki beinlínis um karlmenn þá snýst það um þá óbeint, með því að fjalla um leiðir til að þóknast þeim eða eitthvað slíkt.
Bókin kom út í íslenskri þýðingu 1951 og er þýdd af Andrési Kristjánssyni og Jóni Helgasyni. Málnotkun þeirra er allsérstök, stíllinn svolítið tilgerðarlegur og oft koma fyrir orð sem þeir virðast hafa sérsmíðað, alla vega finnast þau ekki í orðabókum. Og nú er lag að enda hér á orðagetraun. Þeir lesendur sem geta fundið út hvað eftirfarandi orð (sem bæði koma fyrir í bókinni) merkja hljóta lofsyrði að launum:
1) spakhettur
2) vermóður
Spagettí og Vermouth?
SvaraEyðaAuðvitað spaghetti og vermouth. Í minni fjölskyldu er í alvörunni talað um vermóð. Ég las þessa bók þegar ég var svona 12 ára og fannst hún alveg meiriháttar.
SvaraEyðaÆ, það eru tveir búnir að segja það sem ég ætlaði að koma á framfæri þ.e. spaghettí og vermouth. En annars, skemmtilegur pistill og gaman að þessum Bechdel staðli, svolítið gaman að geta nýtt svona tæki og tól á menninguna!
SvaraEyðaÞið eruð allt of nösk, snillingarnir ykkar (ég lofaði víst lofsyrðum). Ég sem var að vona að einhver myndi halda að vermóður væri kynorka vergjarnrar konu, eða eitthvað slíkt.
SvaraEyðaMér datt nú ekki annað í hug en að vermóður væri lafmóður maður, eftir allt of mikið kynlíf. Ertu þá ánægð? Hitt var augljóst, svo ég hlýt að koma út á sléttu sem meðalmaður (hálfsnillingur-hálfidjót).
SvaraEyðaÞessi Bechdel-staðall er ágætur en mér finnst að frekar ætti að taka fyrir bækur út frá Beckett-staðlinum: 1) í verkinu eru fleiri en ein persóna 2) þær gera tilraunir til að eiga í raunverulegum samskiptum 3) þær tilraunir mistakast og manneskjan situr uppi í sinni nístandi tilvistarlegu einsemd.
SvaraEyðaHS