21. september 2011
Bækur í eyrun
Eitt af því sem ég sakna frá Bretlandsárum mínum er mikil og vönduð umfjöllun um bókmenntir, bæði í blöðum, útvarpi, tímaritum og sjónvarpi. Það er þó bót í máli að á netinu má finna mikið af slíku efni og þar á meðal er hinn stórskemmtilegi bókaklúbbur Guardian-dagblaðsins, The Guardian Book Club, sem finna má hér. Mánaðarlega er valin bók sem er svo fjallað um í greinum og umræðuþráðum, yfirleitt út frá tilteknu þema; höfundurinn svarar spurningum lesenda á netinu og síðast en ekki síst er hægt að hlaða niður podcasti með spjalli við höfundinn, sem mér þykir skemmtilegasti þáttur síðunnar. Auk þess fer bókaklúbburinn iðulega í heimsóknir á bókmenntahátíðir, upplestra og þvíumlíkt. Yfirumsjónarmaður klúbbsins, John Mullan, er reyndar ekki með skemmtilegustu rödd í heimi - en það venst og hann spyr oftast skemmtilegra og áhugaverðra spurninga. Höfundarnir eru að sjálfsögðu misgóðir spjallarar, en ég mæli t.d. með spjallinu við David Mitchell, höfund hinnar stórfenglegu Cloud Atlas, við Sue Townsend (þekktust fyrir Adrian Mole-bækurnar), Kiran Desai og Terry Pratchett.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli