19. september 2011

Óyfirstíganleg bókavandræði


Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að kaupa mér rafbókalesgræju. Fyrir nokkrum árum fannst mér hugmyndin fáránleg en núna er ég að reyna að selja sjálfri mér þá hugmynd að ég þurfi ekki að kaupa mér nýjar bókahillur (sem er til marks um sjálfsblekkingu á háu stigi) ef ég hætti einfaldlega að kaupa bækur í pappírsformi. En þetta er ekki svona einfalt, upp koma ýmis vandamál:

1. Hvað með bækurnar sem fyrir eru í hillunum? Er ekki eitthvað fáránlegt að hætta allt í einu að kaupa pappírsbækur og hafa gömlu bækurnar samt í hillunni? Þá halda gestir að ég hafi hætt að lesa bækur árið 2011 (gisp!). Á maður þá kannski gefa allar bækur nema uppáhaldsbækurnar, hætta einfaldlega að vera með bækur í hillum? Þetta finnst mér óyfirstíganlegt. Fréttir herma að IKEA ætli nú að setja á markað dýpri Billy bókaskápa (já, ég veit, fáránleg hugmynd, þeir eru of djúpir sem stendur) fyrir þá sem ætla ekki að hafa bækur í bókaskápunum, nema þá kannski einstaka menningarhornstein. IKEA býr sig þannig undir rafbókabyltinguna, í framtíðinni verða ekki bækur í bókaskápum, bara eitthvað dót. Hillurnar verða þannig aðalmálið en ekki bækurnar.

2. Ég er svona týpa sem grannskoða bókahillur heima hjá fólki. Fyrir mér eru bækur í hillum nefnilega vitnisburður um eiganda þeirra. Ég veit að þetta er ekkert sérlega gáfuleg árátta, hún býður upp á allskonar sleggjudóma og vitleysu. Ég hef tildæmis mikla fordóma fyrir þeim sem raða bókunum sínum í stafrófsröð eða eru mjög harðir á Dewey kerfinu. Svo segja bækur auðvitað stundum nákvæmlega ekki neitt um eigandann. Fyrir mörgum árum vann ég í bókabúð á Laugaveginum. Þangað kom einu sinni alþekktur nýríkisdrengur sem vildi kaupa bækur sem áttu að passa í nýjar, sérsmíðaðar hillur í piparsveinsíbúðinni hans. Hann mætti með hönnuðinn með sér til að kaupa réttu bækurnar sem áttu fyrst og fremst að líta vel út í hillu en þurftu einnig að endurspegla einhverja tilbúna sjálfsímynd drengsins, ef ég man rétt. Bókasafn þessa drengs endurspeglaði sumsé bara einhverja þvælu. Punkturinn er semsagt þessi. Ef enginn sér bækurnar mínar, hvernig getur fólk þá vitað hversu stórkóstlegan og víðfeðman bókmenntasmekk ég hef? Lætur maður kindelinn ganga í matarboðum eða....?


3. Hér kemur svo alvöru vandamál. Hvernig græju á maður að velja? Er ekki glatað að eiga Kindle af því að maður verður að kaupa bækurnar á amazon? Á ég þá að kaupa ipad? Ef ég kaupi ipad er þá ekki líklegt að ég noti hann bara til að leggja kapal í strætó? Hætti ég þá kannski að lesa af því að það er baklýsing (eða af því að það er ekki baklýsing, hvort er aftur betra?).

Ef einhver á svona græju og getur sagt reynslusögu/r þá er það vel þegið...eða bara fordómasögur...eða aðrar skemmtisögur...

14 ummæli:

  1. Í viðtali við bókaristjóra Times um daginn, taldi hún einn galla rafbóka einmitt vera þann að ekki væri hægt að sjá hvað fólk væri að lesa. Ég ákvað að prófa þetta um daginn þegar maður hinum megin við ganginn í flugvél frá Cork til London las kyndilinn sinn af áfergju. Hann er einmitt ekki baklýstur og því gott að lesa á hann jafnvel úr nokkurri fjarlægð svo við mér blasti gríðarlega magnaðar gay kynlífslýsingar, sem maðurinn hefur haldið hann gæri verið í friði með svona rafbókarvæddur og fínn - ég afsannaði það sumsagt snarlega...

    SvaraEyða
  2. Þú ert ekki lokaðri á Kindle en iPad – getur fengið bækur alveg jafn víða, getur lesið .pdf og .mobi auk Amazon formatsins .azw. Mér skilst á þeim sem eiga iPad að þeir dugi fyrst og fremst til þess að lesa lengri greinar – drægnin fer úr 2 síðna bloggi á tölvu í 30 síðna ritgerð en nái sjaldan upp í skáldsögu. Ég reikna með að þar sé baklýsingunni að kenna - það er tölvuskjár á iPadinum, ekki á kindlinum. Ég les mikið á kindlinum – og þá skiptir lengdin ekki nokkru máli (lengsta sem ég hef lesið só far er Atlas Shrugged, ég man ekki hvað hún er nákvæmlega löng en hún er a.m.k. alveg fokk löng). Amazon er auðvitað dálítið tja bara Amazon, en það er ekki verra eða betra en Apple og iTunes og iBookstore. Vandamálið er fyrst og fremst að það vantar almennilegar rafbókaverslanir á netið, aðrar en þær sem eru miðaðar að tilteknum tækjum og eru reknar af ákveðnum framleiðendum.

    SvaraEyða
  3. Ef þú hefur nær eingöngu hugsað þér að lesa skáldverk og annan texta sem að langmestu leyti er lesinn línulega, þ.e. án þess að flakka mikið fram og til baka, þá er kyndillinn betri en iPad. Ef þú villt létt tæki, þá er Kyndillinn málið. Hafir þú hugsað þér að lesa utandyra, tekur Kyndillinn iPad í nefið. Rafhlöðuending Kyndilsins mælist í vikum, rafhlaðan iPad dugir einhverjar klukkustundir. Ef þú hinsvegar villt lesa myndskreytt efni, eða gerir mikið af því að lesa í bútum hér og þar, og flakkar fram og til baka er iPad betri kostur. iPad hefur líka mun víðara notkunarsvið; hentar ágætlega til að vafra um netið, horfa á sjóvarpsþætti eða til að sýna ljósmyndir.

    SvaraEyða
  4. Ég á kyndil og mér finnst hann æði! Í honum les ég bækur og word-skjöl og pdf og batteríið endist næstum því að eilífu.

    SvaraEyða
  5. Ég er þegar sest niður við að skrifa forrit að kyndilbókahillu. Þetta er svona rammi, eins og rafrænu ljósmyndarammarnir sem fólk er voða mikið með núna. Í hann hleður þú inn kilinum á bókinni þegar þú kaupir hana á rafrænu formi, kjölurinn raðast upp við hliðina á hinum sem þú hefur þegar hlaðið inn. Þú getur tekið kilina og raðað í stafrófsröð, litaröð eða hvað sem þér dettur í hug. Svo renna þessir kilir mjög hægt og rólega í gegnum rammann, á sama hraða og augu færs bókasafnsskoðunarfólks (nýyrði!) renna yfir bókaskáp gestgjafa. Voilà!
    Ég lýg því reyndar að ég sé að skrifa forritið, ég kann ekki að forrita. Þessi hugmynd er alveg ókeypis fyrir þann sem það kann.

    SvaraEyða
  6. Mér finnst bækur alltaf svo vinalegar og myndi held ég ekki fyrir nokkurn mun geta fórnað bókalestrinum... en ég hef reyndar ekki prófað Kindilinn... og mér finnst heimili án bókahillna ekki vera heimili (jæja okei kannski aðeins yfir strikið þarna) en já... bækur er vinir mínir ;)

    SvaraEyða
  7. Eitt sem ég hef heyrt um kyndlana er að það geti verið óþægilegt að lesa fræðibækur í þeim, þar sem þú vilt kannski hafa fótnóturnar innan seilingar.

    -Kristín Svava

    SvaraEyða
  8. Bækur eru ágætar, maður les þær og lætur þær svo ganga áfram til vina eða fátækra. Þá þarf maður ekki nýjar hillur. Ég ákveð hvað ég má eiga margar bókahillur og þegar þær fyllast þá bara losa ég mig við (t.d. fór ég með sjö kassa í nytjagám Sorpu í vetur og svo gaf ég ævisögur Kristmanns Guðmundssonar í afmælisgjöf um daginn og þá myndaðist gott pláss fyrir nýjar bækur).

    SvaraEyða
  9. Þessi Dewey-öfund þín Þorgerður er frekar dapurleg.

    En skemmtilegar pælingar í pistlinum samt. Billy-dýptin er óskiljanleg.
    Æsa

    SvaraEyða
  10. Gat nú verið að þú værir svona Dewey týpa, Æsa. Djísus kræst!

    SvaraEyða
  11. Úff, ég er einmitt búin að vera að fussa yfir dýpt Billy-hillanna í íbúðinni okkar. Þær henta undir matreiðslubækurnar mínar + tímaritin en kiljur líta agalega undarlega út í þeim. Þar af leiðandi geymum við núna matreiðslubækur, möppur og gin í þeim.

    Ég get því miður ekki frætt Þorgerði um rafbækur. Ég er svo forpokuð og gamaldags að ég keypti mér ekki gemsa fyrr en 2002. Rafbækur eru eitthvað sem ég kynni mér kannski á elliheimilinu.

    SvaraEyða
  12. Ég keypti mér kyndil um daginn og er mjög ánægður með græjuna - a.m.k. enn sem komið er. Ég hef reyndar ekki enn prófað að kaupa bók í hann, en sótt þeim mun meira af gömlu efni á Gutenberg-síðuna. Eins og Hildur benti á hér að ofan les kyndillinn ýmsar skráategundir og auk þess eru til ýmis forrit til að breyta á milli sniða.

    Ég hleð líka skýrslum og greinargerðum fyrir vinnuna inn á kyndilinn og get þá lesið þær í strætó án þess að þurfa að prenta þær út. Gröf og töflur koma ágætlega út á skjánum, en litmyndir síður.

    Kyndillinn hefur samt (enn) ekki komið í staðinn fyrir bækur á heimilinu - og heima glugga ég frekar í bók en kyndilinn. Hann er hins vegar mjög praktískur sem afleysing fyrir strætó-, flugvéla- og ferðalagabækurnar - og til að lesa útlenska klassík sem maður hefði hvort eð er keypt sem forljótar kiljur.

    SvaraEyða
  13. Ég á kyndil og finnst hann frábær í bækur og pdf skjöl sem maður les frá upphafi til enda. Mér finnst hann mjög þægilegur sem töskubók og í ferðalög og svo er frábært að lesa hann í sól. En eins og einhver sagði þá finnst mér ekki gott að lesa fræðibækur í honum, ekki svo mikið vegna neðanmálsgreinanna, heldur vegna þess að í þess háttar bókum er ég alltaf að fletta fram og til baka og lesa búta hér og þar og ef maður þarf að vitna í bækurnar getur komið upp ruglingur með blaðsíðutölin. Hins vegar getur maður fengið fræðibækur eins og aðrar bækur um leið og mann vantar þær í gegnum netið sem er ótrúlegur munur (en getur verið svolítið dýrt:-)
    kv. Ásdís

    SvaraEyða
  14. Pabbi minn átti kindle.. las rosa mikið í honum, allstaðar sem hann var staddur. Hann geymdi hann stundum í rassvasanum. Svo settist hann og kindle-inn dó.

    Ég er meira svona bókartýpa :)

    SvaraEyða