2. september 2011

Heitar lummur, heimavinnandi faðir og taugaveikluð trjágrein!

Um daginn brá ég mér á flóamarkað sem er nú kannski ekki í frásögu færandi nema af því þar rakst ég á sjaldséðan grip – sem mætti jafnvel kalla gullmola – Kusu í stofunni eftir norska barnabókahöfundinn Anne-Cath. Vestly. Bókin er úr einum þekktasta bókaflokki hennar – um Ömmuna og börnin átta í skóginum. Þessar bækur komu flestar út í Noregi á sjötta áratug síðustu aldar og voru þýddar á íslensku nokkrum árum síðar en eru nú því miður allar uppseldar og ófáanlegar hér á landi. Ég komst yfir þó nokkuð af bókum Vestly sem barn en þó vantar heilmikið í safnið – því er Kusa í stofunni mikill happafengur.

Anne-Cath. Vestly, sem er fædd 1920 og lést árið 2008, hefur verið kölluð Astrid Lindgren þeirra Norðmanna þó að persónur hennar séu kannski ekki allar jafn heimsfrægar og Lína Langsokkur eða Emil í Kattholti. Vestly var afkastamikill höfundur og skrifaði vel yfir 50 bækur – flestar fyrir börn – en hún var einnig þekkt sem leikkona og lék meðal annars sjálfa ömmuna í vinsælum sjónvarpsþáttum sem gerðir voru eftir áðurnefndri barnabókasériu hennar um ömmuna og börnin átta.


Fyrsta bók hennar sem kom út árið 1953 fjallaði þó um drenginn Óla Alexander Fílíbom bom bom sem var kallaður svo af því hann var svo heillaður af trommutakti lúðrasveita sem honum fannst kalla á sig með nafni. Óli Alexander sló í gegn og bækurnar um hann urðu einar 12 talsins.


Af öðrum eftirminnilegum bókaflokkum Vestly má telja áðurnefndar bækur um börnin átta sem búa í blokk í Osló en flytja svo út í skóg þar sem amma býr og lenda þar í ýmsum ævintýrum eins og þegar þau, undir leiðsögn ömmunnar, taka sig til einn kaldan vetrardag og baka kynstrin öll af lummum sem þau svo selja við vegarkantinn. Þegar ég var barn hvarflaði ekki annað að mér en að orðatiltækið „seljast eins og heitar lummur“ væri komið frá þessu ævintýri. Þegar ég tala um ævintýri í bókum Vestly þá er vert að taka það fram að aðalsmerki hennar eru hversdagurinn og ævintýri hans. Hér missir enginn foreldra sína, er sveltur og barinn eða seldur í þrælahald en engu að síður eru bækur hennar bæði spennandi og viðburðaríkar því höfundurinn kann þá list að gera hversdaginn merkingarbæran og ævintýralegan. Enda lét höfundurinn sjálf hafa eftir sér í viðtali: „Hverdagen er de flotteste. De er fulle af eventyr.“ Sem mætti útleggjast sem hversdagurinn er bestur – hann er fullur af ævintýrum. Svo eru bækurnar líka bráðfyndnar svo engin hætta er á að foreldrum sem lesa fyrir börnin sín leiðist.

Þótt bækurnar hafi flestar verið skrifaðar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og skorti því ýmislegt af því sem myndi teljast til daglegs lífs í nútímanum – eins og farsíma og tölvur – þá býr í þeim annars konar raunsæi sem skiptir ekki síður máli - skilningur á tilfinningalífi barna sem breytist ekki þótt þrátt fyrir tækninýjungar.

Vestly var fyrsti norski barnabókahöfundurinn sem skrifaði sérstaklega um lífið í stórborginni fremur en sveitinni. Börnin átta í áðurnefndum sögum flytja reyndar út í skóg en systkinin Áróra og Sókrates í samnefndum sögum búa í blokk X í úthverfi Osló og eiga þar litríka daga með foreldrum sínum á tíundu hæð. Kunningi minn sem nýlega varð faðir í annað sinn spurði um daginn hvar feður í barnabókum væri eiginlega að finna. Nú má reyndar segja að í mörgum sígildu barnabókum séu foreldrar yfir höfuð lítt sýnilegir –barnabækur (sérstaklega þær frá síðari hluta 19. aldar og upphafi þeirri 20.) fjalla skuggalega oft um munaðarleysingja –nægir þar að nefna Önnu í Grænuhlíð, Pollyönnu, Stykkilsberja Finn og Oliver Twist. Foreldraleysið heldur svo áfram vel inn í 20. öldina í Narníu séríunni, sögum Enyd Blyton og mörgum bókum Astrid Lindgren svo eitthvað sé nefnt. Barnabækur fjalla iðulega um ævintýri barnanna þegar foreldrarnir eru víðsfjarri. Hins vegar er sennilega alveg rétt athugað hjá kunningja mínum að það er meira um mæður en feður í barnabókum.

En Anne-Cath. Vestly er hér þá undantekningin sem sannar báðar reglurnar – bæði koma foreldrar mikið við sögu og í bókunum um Áróru og Sókrates er það faðirinn sem er heimavinnandi á meðan móðirin, sem er lögfræðingur, sér fyrir heimilinu. Faðirinn er reyndar að vinna að doktorsritgerð sinni í fornaldarheimspeki og í síðari bókunum að verja sömu ritgerð. Þegar bækurnar komu fyrst út árið 1966 vöktu þær talsverða hneykslan – bæði hjá körlum en ekki síður konum sem sárvorkenndu hinum vesalings heimavinnandi föður. Það er líka áhugavert að þessi svokallaði viðsnúningur á kynhlutverkum er ekki endalaus uppspretta kátínu og brandara heldur stendur pabbinn sig bara prýðilega í starfinu– en hér var Vestly langt á undan sinni samtíð – í bandarískum gamanmyndum frá níunda áratugnum voru blóðmjólkuð plott þar sem grínið gekk út á það að karlmenn gátu ekki skipt á bleyjum eða sett í vél þegar skuggalega metnaðarfullar eiginkonur þeirra eða barnsmæður fóru út á vinnumarkaðinn. 20 árum áður gekk Játvarði, föður Áróru, prýðilega með þetta allt saman á tíundu hæð í blokk X. Þótt Áróru, Sókratesi og pabba finnist hið besta mál að fjölskyldufaðirinn sé heima þá er samfélagið ekki endilega á sömu skoðun og rétt eins og konurnar gagnrýndu Vestly þá vorkenna húsmæðurnar í blokk X hinum verðandi doktor í heimspeki alveg gríðarlega og ekki síður hinum „móðurlausu“ börnum. Í fjórðu bókinni – sem heitir einfaldlega Áróra og Sókrates kemur þó upp ákveðið vandamál því pabbi er þá búinn með doktorsritgerðina og býðst staða við háskólann þrjá daga í viku. En nú eru góð ráð dýr því það eru biðlistar á leikskóla og dagheimili (sumt breytist víst aldrei) og Áróra heyrir mömmu og pabba rífast um hvað eigi að gera við börnin meðan þau eru í vinnunni. Áróra og Sókrates strjúka því út í skóg en komast aldrei lengra að húsinu þar sem amman góða úr hinum bókaflokknum (um börnin átta) býr. Þar fá þau vöfflur og gefa hænunum og vandamálið með barnagæsluna leysist að lokum þannig að amma kemur í heimsókn í blokk X og passar systkinin meðan pabbi er í skólanum. Pössunin verður töluvert ævintýri fyrir þau öll þar sem amma er hreint ekki vön blokkum og þorir í fyrstu ekki upp í lyftunni – en Áróra kennir henni á þetta tækniundur og fyrsta daginn þjóta þær margar ferðir upp og niður í blokkinni meðan Sókrates sefur. Áður en dagur er úti er Amma orðin eins og atvinnulyftustjóri og tekur óumbeðin að sér að ferja fólk með lyftunni upp og niður:
„Hvert ætlið þið að fara?“ [spyr hún hóp af mönnum] „Við ætlum niður.“ „Ég skal keyra ykkur, “ sagði amma. Mennirnir urðu hissa, en þeir komu sér ekki að því að segja neitt, því að amma stóð þarna stíf eins og herforingi og þrýsti á hnappa, svo lyftan fór í gang. „Við þökkum [þér] fyrir“ sögðu þeir, þegar þeir komu niður. „Það er ekkert að þakka, “ sagði amma og þaut aftur upp á tíundu hæð. „Nú verðum við að fara inn til Sókratesar,“ sagði Áróra. „Það verður víst svo að vera,“ sagði amma og andvarpaði. Nú hefði hún einmitt miklu heldur viljað vera lyftustjóri en barnfóstra, en við því var ekkert að gera. (Bls. 26-27.)

Rifrildi foreldranna er auðvitað dramatísk upplifun fyrir börnin en fyrst og fremst er þetta liður í raunsæinu sem einkennir bækur Vestly. Rifrildið þýðir ekki að þau séu slæmir foreldrar eða að þau elski ekki börnin sín – þvert á móti – en Vestly veit sem er að allir foreldrar rífast. Bækurnar eru auðvitað skrifaðar út frá sjónarhóli barnsins en fullorðnir eru líka manneskjur og þótt sumir séu skilningslausir á hvað raunverulega skiptir máli í heimi barnsins þá eru engu að síður flestir hin bestu skinn og hafa jafnvel margt gott til málanna að leggja. Vandamálin sem upp koma í bókunum eru þannig raunveruleg og raunsæisleg en þó spennandi og oftar en ekki fyndin – eins og lyftuvandræði Ömmu. Hversdagslegir en þó alvöruþrungnir atburðir marka í minningunni djúp spor í barnssálina og mér er minnisstætt að þegar botnlanginn var tekinn úr öðru foreldri mínu þá vissi ég nokkuð vel við hverju var að búast þar sem pabbi Áróru og Sókratesar hafði nýverið gengið í gegnum það sama og allir sloppið lifandi frá þeirri reynslu.

Þótt raunsæi og hversdagur séu mikilvægur þættir hjá Vestly þá er ímyndunaraflið einnig mikið eins og til dæmis í bókunum um litla bróður og Stúf. Bækurnar fjalla um litla bróður – sem er litli bróður Filippusar stóra bróður - en þeir bræður falla þó í skuggann af besta vini litla bróður sem heitir Stúfur. Stúfur þessi er reyndar lítil trjárót en það breytir því ekki að hann er ein eftirminnilegasta persóna Vestly. Stúfur er ekki – eins og margir ímyndaðir vinir í barnabókum – sífellt að koma öðrum í vandræði með uppátækjum sínum. Enda er hann auðvitað ekki ímyndaður þótt hann sé ekki af holdi og blóði í bókstaflegri merkingu. Hann er þvert á móti fremur áhyggjufullur og taugaveiklaður og oft ansi svartsýnn á það sem litli bróðir tekur sér fyrir hendur. Hann er þó vinur í raun og Vestly gerir sambandi þeirra litla bróðurs frábær skil. Hér er ekki um að ræða einmana dreng sem talar við trjárót af því hann skortir leikfélaga heldur er þetta óður til fordómalauss ímyndunarafls barnsins sem getur lært og skilið ýmislegt um lífið af vini sínum þótt vinurinn sé úr tré. Slíkt getur jafnvel verið lykillinn að úrvinnslu barns á umhverfi sínu og það skilur Vestly. Hún er meistari þess að sýna lesandanum smám saman heim barnsins í öllum sínum lifandi og litríka fjölbreytileika.

(Þessi pistill var áður fluttur í Víðsjá 11. júlí sl.)

9 ummæli:

  1. Þrusupistill! Þessar bækur las ég sundur og saman, en man reyndar eftir því að erfitt hafi verið að nálgast sumar þeirra, þá þegar á níunda áratugnum. Ég átti tvær Árórubækur en hinar fékk ég á bókasafninu. Margt hafði verulega sterk áhrif á mig, t.d. hugsa ég ennþá um pabba hennar Áróru þegar talað er um doktorsvörn! Þessar þarf ég að rifja upp, ætli það sé ekki best að byrja á því að athuga hvað til er á Borgarbókasafninu. Mikið vildi ég annars að einhver endurútgæfi þessar bækur.

    SvaraEyða
  2. Áróra í Blokk X var í sérlegu uppáhaldi hjá mér, þar er pabbinn að fara að verja ritgerðina "Um hina gömlu Grikki". Hér er gömul smáfærsla um Anne-Cath Vestly: http://bokvit.blogspot.com/2008/12/anne-cath-vestly.html

    SvaraEyða
  3. Ó, mér finnst bara eins og ég sé fimm ára gömul á Barónstígnum eftir þennan lestur! Takk góða besta Maríanna!

    SvaraEyða
  4. Held að ég hafi lesið hverja einustu bók eftir Anne-Cath. Vestly oft og mörgum sinnum en á ekki eina einustu þeirra sem er fáránlegt. Nú langar mig að lesa þær allar einu sinni enn.

    SvaraEyða
  5. Vestley skrifaði líka bókaflokk um hana Gro sem ég held að hafi aldrei verið þýddur á íslensku. Þar reyndar hefur pabbi Gro dáið, áður en að sagan hefst, og Gro og mamma hennar flytja úr sveit í borg. Til að sjá fyrir þeim fær mamma Gro vinnu sem húsvörður í blokk því hún kann að mála, smíða og skipta um perur. Það eru líka frábærar bækur sem taka á annars konar fordómum um hlutverk kynjanna.
    kv. Ásdís

    SvaraEyða
  6. Já, ég sé í norsku Wikipediu að það eru til ýmsar bækur eftir ACV sem hafa ekki verið þýddar á íslensku, þar á meðal þessar um Guro (heitir hún víst) og þar að auki eru Áróru-bækurnar sjö en það voru bara fjórar þeirra þýddar á íslensku!
    http://no.wikipedia.org/wiki/Anne-Cath._Vestly

    Sé í skrám bókasafns Norræna hússins að a.m.k. sumar af þessum bókum eru til þar. Ég ætla þangað strax á morgun!
    http://alvar.nordice.is/mikromarc/

    SvaraEyða
  7. ég þakka góðar undirtektir! En já - ACV er dásamleg - ég datt alveg í endurlestur þegar ég var að skrifa þennan pistil.
    Hún er líka miklu fyndnari en mig minnti - ég man hana (sem barn) frekar sem notaleg og á köflum dramatíska - en nú veltist ég um af hlátri. Mögulega er hér um að ræða nett írónískt lag sem fór fram hjá barninu...

    SvaraEyða
  8. En hvað þetta var gaman að lesa og notalegt að rifja upp gamla lestrartíma í Ásabyggðinni og ferðir á Amtsbókasafnið!

    SvaraEyða
  9. Takk fyrir að minna mig á Áróru og Sókrates!

    Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér í sambandi við pabba í barnabókum:
    Eru þeir nokkuð færri en mæðurnar? Eru þeir kannski ekki einmitt fleiri?

    Það eru náttúrulega fleiri dæmi frá Norðurlöndunum: Pabbi Einars Áskells efstur í huga. Þar er hvergi minnst á neina mömmu.

    Svo dettur mér í hug Rasmus fer á flakk eftir Lindgren - Reyndar ekki blóðfaðir stráksins, en ótrúlega skemmtileg pabbafígúra sem ættleiðir strákinn á endanum.

    Svo eru það gömlu ævintýrin, Hans og Gréta, Mjallhvít, Öskubuska... Alltaf rosa góðir pabbar og vondar stjúpur, en engar mömmur.

    Fleira: Nancy Drew, Lísa í Undralandi - Rosa góðir og frábærir pabbar eiga heiðurinn að því hve dætur þeirra eru klárar og sniðugar.

    Steríótýpan segir að mömmur séu ekki til neins nema til að fæða mann og hugga. Fáum dettur í hug að þær geti verið skemmtilegar og fyndnar og sniðugar. Ekki merkilegir karakterar í bækur.

    Þess vegna legg ég mikið upp úr því að vera fyndin og sniðug með stráknum mínum.

    Og hana nú!

    SvaraEyða