Scarlett Thomas (f. 1972) er enskur rithöfundur og einna þekktust fyrir bókina The End of Mr Y, sem út kom árið 2006 og komst inn á ýmiss konar metsölulista í Bretlandi, auk þess sem hún var m.a. "longlisted" til Orange-bókmenntaverðlaunanna. Því var eins farið með mig og marga lesendur - fallegar og mystískar kápurnar á bókum Thomas kræktu í mig og ég festi kaup á skáldsögunni PopCo, sem kom út árið 2004 en náði í raun ekki athygli bókabéusa fyrr en í kjölfar vinsælda The End of Mr Y. Það kom mér raunar á óvart að uppgötva að áður hafði Thomas skrifað heilar sex skáldsögur; hún hefur sumsé verið nokkuð þrautseig.
Það sem öðru fremur einkennir bækur Scarlett Thomas er að útgangspunkturinn er einhver ákveðin hugmynd, eitthvert "concept" sem hún eins og skrifar skáldsöguna í kringum. Söguþráðurinn og persónurnar virðast spretta út frá þessari þungamiðjuhugmynd. Í The End of Mr Y er það hið svokallaða "Troposphere", sem er eins konar yfirvitundarheimur en honum kynnist söguhetjan Ariel (doktorsnemi í ensku) í gegnum dularfulla bók sem einmitt nefnist The End of Mr Y. Skáldsaga Scarlett Thomas er einhvers konar metafictional og sjálfvísandi könnun á víddum, vitund mannsins, póstmódernískum hugmyndum, skammtafræði og hugsanabrellum. En dokið við, þetta er ekki eins agalegt og það hljómar því öllum þessum pælingum er komið á framfæri í eins konar ævintýra-, vísindaskáldskapar-, spennusöguformi. Sagan er á köflum líkust reyfara og framvindan knúin hratt áfram. Engu að síður finnst mér uppspretta bókarinnar of áberandi; hún er mjög greinilega skáldsaga prjónuð í kringum "concept" og persónurnar fyrir vikið ansi þunnar, auk þess sem takturinn í bókinni verður stundum undarlegur þegar koma þarf á framfæri stórum hugmyndum og flóknum upplýsingum.
PopCo er hins vegar sú sem ég las á undan og á uppi í hillu. Aftur er hér á ferðinni skáldsaga sem hverfist um tilteknar hugmyndir; annars vegar er það stærðfræði og dulmál, og hins vegar blekkingar markaðssamfélagsins. Aðalpersónan, Alice Butler, er líkt og Ariel úr Mr Y fremur augljóst alter-egó eða óska-egó höfundarins - bókhneigð og gotnesk grænmetisæta, eldklár og sexí en um leið hlédræg og dul. Dálítið klisjukennd, sumsé, og náði að fara í taugarnar á mér oftar en einu sinni. Alice vinnur hjá risafyrirtækinu PopCo sem framleiðir leikföng og leiki. Hún er stærðfræði- og kóðasnillingur, sérhæfir sig í þrautaleikjum og á sér dularfulla fortíð. Alice ólst upp hjá afa sínum og ömmu en afinn var mikill stærðfræðingur og æfði telpuna í reiknilistum. Alice er send í eins konar hópeflisbúðir með fyrirtækinu, sem stærir sig af því að vera frábær og skapandi vinnustaður fyrir fólk sem hugsar út fyrir rammann. Smám saman fer Alice þó að átta sig á því hversu vafasamar aðferðir fyrirtækisins eru, samhliða því sem henni taka að berast nafnlaus, dulkóðuð skilaboð.
Andkapítalisminn eins og hann birtist í bókinni er raunar fremur einfalds eðlis - marxismi 101, eiginlega - og ekkert í þeim þætti sögunnar kemur sérlega á óvart, a.m.k. ekki ef maður hefur sjálfur áhuga á þessum málum og er kominn lengra í pælingunum. Það truflaði mig þó ekki mikið enda las ég PopCo fyrst og fremst sem spennusögu með áhugaverðum stefjum. Það sem hins vegar framkallaði grettu á fésinu á mér var endirinn, sem er í miklum predikunartóni og breytir sögunni skyndilega í fyrirlestur um vegan-mataræði (án gríns). Grátandi móðurkýr og dauðir kálfar eru algjörlega út úr kú í þessu samhengi (pun intended).
Scarlett Thomas er ekki besti penni sem ég hef rekist á, en hún hefur þó kynnt mig fyrir ýmsum skemmtilegum vangaveltum og er hin sæmilegasta skáldskaparútgáfa af poppvísindabókum. Ég efast um að ég leggi mig eftir að lesa meira eftir hana, en sé ekkert eftir tímanum sem fór í lesturinn á bókum hennar. Ég hef lúmskt gaman af bókum sem innihalda dulmálslykla og dularfull skilaboð ... en þess má raunar geta að ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið af því tagi síðustu árin var reyndar barnabók, Chasing Vermeer eftir Blue Balliett. Barnabækur eru oft skemmtilegastar, þannig er það bara ...
Takk fyrir að kynna mig fyrir þessum höfundi en ég sé ekki alveg að ég myndi endast til að lesa þetta.
SvaraEyðaÞessi pistill fær mig bæði til að dauðlanga til að lesa bækurnar og hugsa með mér að ég ætti sennilega að láta það vera. Hef ekki hugmynd um hvort verður ofan á!
SvaraEyðaÞetta er svona love/hate-dæmi ... ég er afar hraðlæs svo ég spæni í mig alls kyns bækur sem ég myndi eflaust ekki sækja í ef ég læsi hægar. En það er samt eitthvað skemmtilegt við hana Scarlett vinkonu mína. Ég mæli alveg með því að tékka á henni, ef maður hefur gaman af svona fjölvídda-/heimapælingum (sem ég hef). Hún er dálítið svona pseudo-klár, en alls ekki leiðinleg.
SvaraEyðaAnnars er kápan og útlitið allt á The End of Mr Y nógu falleg til að réttlæta lesturinn ...
SvaraEyðaMér finnst kápan á þeirri bláu sérlega lagleg.
SvaraEyðaSammála þér Salka, þegar ég last The End of Mr. Y fór afar mikið í taugarnar á mér hve stelpan var greinilegt óska-ego höfundarins. En ég er nógu mikill sökker fyrir því að rithöfundar vitna í Foucault og Deleuze til apð lesa hana þótt predikunin virki fráhindrandi. Keypti Mr. Y akkúrat út af bókakápunni!
SvaraEyða