Glæpasögur geta verið vandasamar umfjöllunar, a.m.k. ef forðast skal að ljóstra of miklu upp um söguþráðinn. En reyndar má segja að söguþráður flestra glæpasagna sé líka oftar en ekki, og eðli þeirra samkvæmt, fyrirsjáanlegur að meira eða minna leyti: glæpur er framinn, hetja kynnt til sögunnar (og er iðulega karlkyns, iðulega dularfull og troubled, iðulega rannsóknarlögregla eða spæjari). Glæpur er rannsakaður, þræðir plottsins byrja að rekjast sundur en einnig að flækjast enn frekar, samfara því að fleiri persónur, mögulegir sökudólgar og/eða hjálparkokkar hetjunnar, eru kynntar til sögunnar. Uppgjör verður að lokum og ávallt svöl hetjan leysir gátuna.
Svona getur þetta verið í sinni einföldustu mynd – svona atburðarás þætti eflaust fullgilt framlag inní glæpasöguhefðina, þótt mörgum kynni að þykja hún klisjukennd og, já, fyrirsjáanleg. En ef til vill má einnig líta á þessi viðbúnu fyrirsjáanlegheit formsins sem skemmtilega áskorun fyrir glæpasagnahöfund: að fylgja hefðbundnu glæpur–rannsókn–farsæl lausn -plottinu, en skrifa samt sem áður læsilega og spennandi sögu – t.d. með því að ná að telja lesandanum tímabundna trú um að í annað stefni. Nú, og svo má að sjálfsögðu halda í þau grunnelement sem gera sögu að glæpa- : glæpur er framinn, glæpur er rannsakaður, en sneiða framhjá mestu klisjunum, t.d. með því að neita glæpnum um að leysast á hinn hefðbundna, snyrtilega hátt.
Sjálf hef ég alls ekki lesið mikið af glæpasögum í seinni tíð (eða varla síðan á Agöthu Christie -tímabilinu í grunnskóla) og því kunna þessar hugleiðingar frekar að bera vott um það sem ég held um formið en það sem ég tel mig vita. Þannig hef ég varla neitt lesið af norrænum samtímaglæpasögum og ekkert eftir Arnald Indriðason – enda grunar mig líka að ég eigi margt annað og girnilegra ólesið. Án þess að ég telji glæpasögur í heild sinni endilega tímasóun, þá verður að segjast að þær sem ég hef þó lesið upp á síðkastið hafa ekki heillað mig sérstaklega. Í vor skrifaði ég um eina arfaslaka eftir Camillu Läckberg og nú hef ég nýlega lokið við Skindauða, fyrstu bók Norðmannsins Thomas Enger, sem Uppheimar gáfu út á íslensku fyrir skömmu. Hún er reyndar töluvert mikið betri en Morð og möndlulykt Läckberg er og, þrátt fyrir að ná engum umtalsverðum hæðum, hreint ekki slæmt byrjandaverk.
Þýðingin er sæmileg en illa (eða ekki?) prófarkalesin. Einnig fannst mér „frjálslegt“ orðfærið stundum einkennilegt – sorrí og plís í samhengi sem að mínu mati hefði einfaldlega virkað eðlilegra að nota fyrirgefðu og gerðu það. Kannski virkar það betur á norsku, en þetta getur auðvitað verið smekksatriði.
Sagan er löng, um 400 blaðsíður, en þótt mig hafi dálítið verið farið að lengja eftir úrlausn leiddist mér aldrei. Plottið er nefnilega lengst af spennandi, en lausnin sem fram kemur þegar dregur nær lokum svo fúttlítil – og gerir bara illt verra hvað hún er sett ofurdramatískt fram – að það kom síst á óvart þegar sýndi sig að hún var í raun falslausn og að meira bjó undir. (Að vísu var það einnig sterk vísbending í þá átt að um 50 síður voru þá eftir af bókinni...) Í söguþræðinum er m.a. snert á kynþáttaspennu í norsku samfélagi; íslamstrúaðir innflytjendur eru bæði í hópi fórnarlamba og grunaðra. Þetta þjónar m.a. því að vekja aðalpersónur (og þá væntanlega lesandann um leið) til vitundar um eigin fordóma, en annars fannst mér sú umfjöllun frekar þunn – hei, útlendingurinn er sko alls ekkert alltaf vondikallinn! – og lýsingarnar á pakistönsku persónunum flatar og fyrirsjáanlegar. Kannski þær hafi nú samt ekkert verið grynnri karakterar en t.d. norskar aukapersónur bókarinnar, en á móti kemur að þær eru þeim flestum fyrirferðarmeiri.
Aðalpersónan fannst mér þó skemmtilegur karakter, og það út af fyrir sig fleytir bók af þessu tagi ansi langt (lögga Läckberg í fyrrnefndri bók þótti mér einmitt sérlega sjarmalaus). Henning Juul er, mikið rétt, karlkyns og hann er mjög troubled (einhvernveginn tekst mér ekki að finna íslenskt orð yfir þetta – einhver?), en ekki er hann lögga heldur rannsóknarblaðamaður. Hann seilist þó iðulega ansi langt inná umráðasvæði lögreglunnar og veit af því, og löggan veit líka af því og lætur það fara í taugarnar á sér, en getur auðvitað ekkert sagt, því hann sér þeim fyrir svo ómetanlegum upplýsingum. Þótt þetta sé fyrsta sagan um Juul er hann síst óskrifað blað; harmleikur úr fortíðinni ásækir hann stöðugt og þar eru ekki öll kurl komin til grafar. Minnst er á í framhjáhlaupi að þetta sé ekki fyrsta málið sem hann leysir – auðvitað með glæsibrag, auðvitað undan nefinu á lögreglunni.
Ég fíla semsagt Henning Juul, myndi lesa meira um hann og í lok Skindauða er ýjað sterklega að því að tækifæri muni gefast til þess. Að sumu leyti er hann týpísk hetja – harður af sér (þótt að harmleikurinn og áfallið gefi einkar gott færi á að tengja lesandann hinum mýkri hliðum hans) og virðist hafa óbrigðulan hæfileika til að finna réttu slóðina. Hinsvegar er hann ekki myndarlegur og ekki vottar fyrir rómantík af neinu tagi í einkalífi hans, hvað þá erótík, aðeins rétt minnst á söknuð eftir fyrrverandi eiginkonu. Þó finnast í sögunni kynórar gagnvart samstarfskonu sem minna helst á lýsingarnar í bókunum um Stellu Blómkvist, en er bjargað frá ofurklisju með því að þeir spretta ekki úr hugskoti aðalpersónunnar sympatísku, heldur lögreglumanns sem er nokkuð hlægileg persóna til að byrja með og lesandanum á jafnvel að finnast dálítill skíthæll. Auk sjónarhorns söguhetjunnar Juul, sem lesandinn fylgir að langmestu leyti, er þessi innsýn í lögreglumanninn graða reyndar sú eina sem lesendur fá inní hugarheim annarra persóna svo nokkru nemi. Kannski það hafi þannig verið meðvitað af hálfu höfundar að láta hann þjóna (óhjákvæmilegu?) hlutverki erótískrar hugsanapípu, og kannski er einungis verið að magna upp spennuna fyrir innkomu nýrrar persónu í næstu bók, sem tekst með kvenleikann að vopni á við þá áskorun að draga Henning Juul út úr skel áfallsins... því hann á pottþétt eftir að reynast þessi sjarmerandi-ómyndarlega týpa. Reyndar man ég ekki hvort hann var nokkuð beinlínis sagður ómyndarlegur, eða því einfaldlega sleppt að minnast á slíkt – en hann er í það minnsta efnileg söguhetja, persóna sem ég mun eflaust nenna að lesa meira um.
Þú gerir þessa bók svo áhugaverða að það liggur við að ég fari og fái mér hana þó ég hafi alls ekki ætlað mér að fara að lesa glæpasögu.
SvaraEyðaJá hún hljómar soldið spennó.
SvaraEyðaEn troubled=þjakaður?
Henning er vissulega mjög þjakaður - mér finnst það gott orð, Hildur - og hefur svosem ærið tilefni til, blessaður kallinn:) Og hann er ekki bara ekkert sérlega myndarlegur heldur beinlínis afmyndaður, aðallega af því að hann er með slatta af örum eftir að hafa hrapað niður af svölunum þarna þegar það kviknaði í íbúðinni hans. Getur farið illa með fésið á fólki. Og já, það verður framhald, byrja að þýða næstu bók með vetrinum! Mér finnst Henning líka soldið skemmtilegur, svo ég hlakka bara til.
SvaraEyðaBestu kv. Halla Sverrisdóttir
Kristmann Guðmundsson notar orðið "þústaður" - mér finnst það dáldið skemmtilegt.
SvaraEyðaTroubled er samt svo gott bara eitt og sér (þústaður reyndar líka!). Þjakaður er fín lausn, hafði ekki dottið það í hug, en það vantar þá kannski að segja af hverju viðkomandi er þjakaður. vilji maður hafa þetta einfalt.
SvaraEyðaÉg var eitthvað að reyna að fara í kringum þetta með brunann og afmyndunina (veit svosem ekki hversvegna, það kemur líka snemma fram í sögunni) en þar hafiði það... einhvernveginn hafði ég samt á tilfinningunni að hann hefði ekkert verið neitt afburða myndarlegur fyrir. En einmitt kannski bara afþví það var ekkert tíundað í textanum.
Og gott að vita af næstu á leiðinni!
Hí, hí, Erla að vera svona nærgætin við væntanlega lesendur og svo kemur þýðandabrussan og galar "hvað er þetta kona, hann er bara svona illa sviðinn, manngarmurinn!" ... Nei, það er held ég rétt hjá Erlu að Henning hafi aldrei verið neitt kyntröll. Þess vegna er hann með svona komplexa gagnvart honum Bjarne Brogeland (þessum með kynórana) í fyrstu. Talandi um kynóra þá rann það upp fyrir mér þegar ég var næstum búin með þýðinguna að það var rosalega eitthvað viðkunnanlegt að fá að lesa svo gott sem heilan krimma með karlmanni sem aðalpersónu og vera EKKI settur inn í kynóra viðkomandi. Sem oftast eru ekkert sérlega spennó, frekar en kynórar svona almennt eru fyrir aðra en eigendur þeirra. Mér finnst sem sagt hið fremur passíva libidó Hennings svona frekar kostur á bókinni og á honum sem persónu. En ykkur?
SvaraEyðaKv. Halla
Já akkúrat, mér fannst það nefnilega líka hressandi kostur! Og finnst óneitanlega forvitnilegt hvernig því verði háttað í næstu bók/um... :)
SvaraEyða