Hið mjög svo teygjanlega skáldskaparform „ljóð“ hefur margt til síns ágætis. Það hefur það til dæmis fram yfir prósa að það er mun auðveldara að umlykja sig ljóðum í sínu daglega lífi: krota þau niður á blað, lesa þau þrisvar í röð, leggja þau á minnið, semja þau í snatri, fara með þau upp úr eins manns hljóði, söngla þau, mála þau á veggi, bera þau með sér um bæinn, lesa þau á klósettinu, og svo framvegis.
Eitt af því sem nútímamaðurinn getur gert við ljóð (hljómar eins og misþyrming) er að hafa þau á desktopinu sínu á tölvunni. T.d. var ég lengi með þetta skemmtilega brasilíska konkretljóð eftir Décio Pignatari í bakgrunninum hjá mér. Ástæðan fyrir því að mér datt þetta í hug var hins vegar þessi fídus á heimasíðu Antons Helga Jónssonar skálds, þar sem hann hefur búið til sérstakar skjáborðsmyndir með ljóðum, sem fólk getur tekið sér til handargagns. Flest eru ljóðin eftir hann sjálfan en líka eitt eftir Fernando Pessoa og eitt eftir Wislöwu Szymborsku. Uppáhalds mín eru Bíbí straujar angistina og Rain at Thingvellir, það síðarnefnda ekki síst af því að allt sem minnir mig á Kodachrome með Paul Simon gerir mig glaða.
Og hvernig væri að setja hljóðaljóð eða ljóðaupplestra sem hringingu í símann sinn? Væri t.d. ekki gaman að láta Kreppusonnettu Eiríks Arnar Norðdahl æpa á mann í hvert sinn sem einhver hringdi? Ef maður vildi eitthvað lágstemmdara væri hægt að velja Óorð Hauks Más Helgasonar, sem ég finn ekki aftur á netinu en gekk mestanpart út á andardrátt Sigfúsar Daðasonar. Að láta andardrátt Sigfúsar Daðasonar vekja sig ofurljúft á morgnana? Er ég komin yfir í satanískar vangaveltur hérna?
Snilldarhugmynd að setja snjallljóð í snjallsímann ;-)
SvaraEyðaEr líka búin að setja skjáborðsljóð í tölvuna - uppfull af ljóðrænu.
Takk fyrir Kristín Svava :-)