Anatómía andartaks – ég leyfi mér þetta af því að titillinn er ekki ætlaður til útgáfu – er ekki skáldsaga heldur einhvers konar sagnfræðilegt rit, og fjallar um valdaránstilraunina sem gerð var á Spáni í febrúar árið 1981. Þá, minna en áratug eftir dauða Francos og endalok einræðisins, ruddust vopnaðir hermenn inn í þingið og tóku þingmennina í gíslingu í átján klukkustundir, þar til þeir gáfust upp morguninn eftir. Upphafsmenn valdaránstilraunarinnar voru ýmsir menn af hægri væng stjórnmálanna, þar á meðal nokkrir hershöfðingjar - á meðfylgjandi mynd sést einmitt Antonio Tejero Molina, einn af aðalmönnunum í valdaránstilrauninni, veifa byssu í þinginu. Lýðræðiskerfið stóð ennþá veikum fótum á Spáni, nærvera Francos var sterk, sumir valdaránsmanna voru nátengdir konunginum og þetta var allt hið flóknasta mál, en þar sem það er liðið meira en hálft ár síðan ég las bókina þori ég ekki að fara út í meiri smáatriði.
Bókin kom mér strax á óvart. Ég vissi að Cercas var rithöfundur en ekki sagnfræðingur og bjóst því allt eins við háfleygum vangaveltum um minni þjóðar, gleymsku þjóðar, bælingu, samkennd og sögu. Aðferð hans er allt öðruvísi, en um leið og ég komst inn í hana gleymdi ég fyrri væntingum. Þetta er í rauninni frekar smásmuguleg frásögn af pólitískum atburðum; Cercas kafar í persónu og bakgrunn aðalleikaranna í málinu og rekur allan aðdraganda og framvindu valdaránstilraunarinnar (eða valdaránstilraunanna eins og hann segir, enda voru þeir fleiri en einn og fleiri en tveir sem vildu steypa stjórninni) á mjög nákvæman hátt. Allt er þetta svo kirfilega staðsett í hinu sögulega spænska samhengi. Hins vegar er frásögnin, þrátt fyrir smáatriðin, bæði spennandi og áhugaverð og Cercas beitir ákveðnum aðferðum og stíl sem bera ótvíræð einkenni rithöfundar en ekki sagnfræðings. Með skáldlegum endurtekningum og einhverfnislegu hringsóli kringum sömu atriðin, sem ég held að enginn venjulegur fræðimaður myndi hætta sér út í, eyðir hann sérstöku púðri í að undirstrika, við hvert nýtt skref í málinu, að viðkomandi atburðir hafi ekki verið hin óhjákvæmilega niðurstaða þess sem á undan kom; alls staðar eru öfl að reyna að hafa áhrif á atburðarásina og það er bæði valdamunur og tilviljanir sem ráða því í hvaða átt málin þróast. Bókin er því virkilega lærdómsrík fyrir áhugamanneskju um möguleika sögulegrar frásagnar, sem prófessjonal sagnfræðingar eru því miður ekki alltaf nógu duglegir að kanna.
Öll uppbygging bókarinnar er líka mjög fagmannleg. Þegar valdaránstilraunin var gerð var sjónvarpsupptaka í gangi í þingsalnum og því eru til magnaðar stillimyndir af atburðarásinni. Þessar stillimyndir notar Cercas sem eins konar viðmiðanir eða miðpunkta sem hann lýsir og túlkar í smáatriðum og spinnur svo kaflana í kringum. Þaðan er titill bókarinnar kominn: hann tekur andartakið í sundur, bút fyrir bút.
Bókin er því athyglisverð blanda af stjórnmálasögu og bókmenntaverki (ekki að það sé ekki alveg eðlilegt að það geti runnið saman) og maður hefur á tilfinningunni að hún gefi góða innsýn í spænskt þjóðlíf og stjórnmálalíf á þessum tíma. Cercas dregur frekar afdráttarlausar ályktanir um áhrif valdaránstilraunarinnar á spænskt lýðræði í lokaköflunum, eftir að hafa haldið öllu mjög opnu fram að því, og vill meina að hún hafi styrkt það verulega í sessi, þótt ég þekki svo sem ekki nógu vel til til að leggja dóm á það hversu réttar þær ályktanir eru. Bókin stendur allavega alveg fyrir sínu.
*Gunnþórunn bendir á í kommenti að það sé hægt að horfa á valdaránstilraunina á Youtube við lesturinn. Hér er klippa úr þinginu.
Sammála - mjög flott bók og svo er líka gaman að skoða sjónvarpsupptökuna af valdaráninu á youtube með lestrinum.
SvaraEyðaGunnþórunn
Algjörlega - skelli inn tengli!
SvaraEyða